11.02.1985
Neðri deild: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2799 í B-deild Alþingistíðinda. (2267)

175. mál, verndun kaupmáttar

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Eins og fram kom er nokkuð langt liðið síðan 1. umr. þessa máls hófst og 1. flm., hv. 3. þm. Reykv., talaði fyrir þessu máli. Í stuttri ræðu eftir ræðu hans lét ég í ljós skoðanir mínar á frv. og innihaldi þess. Ég sé ekki ástæðu til að lengja mjög þessar umr. eða fara að ræða einstakar greinar frv. Frv. gengur að sjálfsögðu til n., eins og þm. hefur lagt til, og þegar við 2. umr. gefst tækifæri til að ræða frekar einstakar greinar eins og þar er gert ráð fyrir.

Hv. þm. beindi fsp. til mín sem ég vil ekki láta hjá líða að svara, að vísu ekki nema einni beinni fsp., en vék hins vegar í nokkrum orðum að verðlagsmálum og hvernig þeim yrði háttað þær vikurnar sem frv. var flutt og umr. fór fram. Hann vék sérstaklega að svonefndri 30%-reglu sem oft hefur verið beitt í sambandi við verðlagsmálin þegar átt hafa sér stað breytingar á gengi íslenskrar krónu. Þessari reglu hefur ekki verið beitt nú. Það hefur verið haldið óbreyttu fyrirkomulagi því sem var á þessum málum allt árið 1983 og það fyrirkomulag var árið 1984 líka í framhaldi af breytingu íslensku krónunnar í nóvembermánuði s.l. Ég taldi hins vegar eðlilegt og rétt, þegar þessi gengisbreyting átti sér stað, að vekja athygli verðlagsyfirvalda á því, svo og þeirra samtaka sem hér eiga hlut að máli og undirstrikaði það mjög, að framkvæmd þeirra laga sem gilda um samkeppnishömlur og verðlag, hvernig til tækist, ætti mjög undir því að þegar gengisbreytingar yrðu væri það þessara aðila að gæta hófs og reyna að haga þannig málum að neytendur yrðu ekki fyrir barðinu á þeim ráðstöfunum, sem gerðar hefðu verið, umfram það sem óumflýjanlegt væri. Ég skal ekki í þessari ræðu metast á um það við hv. þm. hvernig til hefur tekist, en fyrst og fremst gera grein fyrir því að beitt hefur verið 30% reglunni í verðlagsmálum, svo og því sem áður hafði verið viðhaft varðandi uppfærslu á verði þeirra vara sem í landinu voru þegar gengisbreyting átti sér stað.

Hv. þm. spurði enn fremur um erlendar lántökur og í tengslum við þann hluta frv. þar sem vikið er að — í 5. gr. frv. — lánanefnd og hlutverki hennar. Hann spurði hvort mikið væri um að erlend lán hefðu verið fengin til fjárfestingar í verslun á árinu 1984. Það væri fróðlegt, eins og hann orðaði það, að fá upplýsingar þar um. Hann orðaði það líka svo, með leyfi forseta:

„Ég hef af því fregnir að ákveðnar einkaverslanir hér á höfuðborgarsvæðinu hafi fengið tugi milljóna í erlendum lánum í fjárfestingu á þessu ári, tugi milljóna.“ Og hann hélt áfram, með leyfi forseta:

„Er það rétt að á þessu ári“ — þ.e. 1984 — hafi verslunin fengið hundruð milljóna í erlendum fjárfestingarlánum í gegnum langlánanefnd fram hjá lánsfjáráætlun?“

Þessu er til að svara að notaðar hafa verið sömu reglur og venjur um heimildir til erlendrar lántöku hjá lánanefnd á árinu 1984 og áður höfðu verið. Ég get upplýst að í lánsfjáráætlun ársins 1984 er gert ráð fyrir að heimild atvinnufyrirtækja til erlendrar lántöku nemi 1 milljarði en niðurstaða ársins var sú að 994 millj. kr. erlend lántaka var heimiluð á árinu 1984, aðeins innan við það sem lánsfjáráætlun hafði gert ráð fyrir.

Ég vonast til að ég hafi veitt þm. þær upplýsingar sem hv. þm. óskaði eftir. Eins og umr. um málið er komið sé ég ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um það, en tel að með þessu hafi ég svarað því sem þm. óskaði eftir.