11.02.1985
Neðri deild: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2802 í B-deild Alþingistíðinda. (2269)

175. mál, verndun kaupmáttar

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Það er forvitnilegt að nota tækifærið vegna þessa máls, sem er frv. þm. Alþb. um verndun kaupmáttar og viðnám gegn verðbólgu, frv. til l. um ýmsar efnahagsráðstafanir almenns eðlis, og gera samanburð á því og áformum hæstv. ríkisstj., sem nýlega hafa verið birt, um hvað hæstv. ráðh. og stjórnarflokkar sjá helst til ráða í efnahagsmálum.

Áður en ég vík að einstökum atriðum þessa frv. langar mig til að fara nokkrum orðum um reynslu þjóðarinnar af efnahagsstefnu Alþb. eins og hún hefur birst þjóðinni skv. dómi reynslunnar af ríkisstjórnarþátttöku þess flokks á undanförnum árum.

Eins og mörgum hv. þm. er kunnugt um hefur sá sem hér stendur verið býsna gagnrýninn á efnahagsstefnu Alþb. og er það af mörgum ástæðum. Alþb. telur sig málsvara vinnandi fólks í landinu og í haus málgagns þess er málgagnið kallað: málgagn verkalýðshreyfingar, sósíalisma og þjóðfrelsis. Það er því ljóst að Alþb. vill láta líta á sig sem baráttutæki launþega í landinu, starfandi á hugsjónagrundvelli einhvers konar sósíalisma og sem kunnugt er hefur það markað sér sérstöðu í utanríkismálum sem það kennir við þjóðfrelsi.

Lengi vel var það svo að Alþb. var í stjórnarandstöðu og þá t.d. á áratugnum 1960–1971 ásamt með Framsfl. Kannske hefur það gerst meira eða minna fyrir tilviljunarkennda rás atburðanna að Alþb. gerðist einhvers konar pólitískur tvíburi Framsfl. Flokkarnir voru lengi í stjórnarandstöðu, þeir virtust draga dám mjög hvor af öðrum á þessu stjórnarandstöðutímabili. Að loknu þessu langa stjórnarandstöðutímabili hafa þessir tveir flokkar setið lengi í stjórn, Framsfl. reyndar lengst af, og vinstri stjórnir, sem reyndar hafa verið þrisvar á tímabilinu eftir 1971, einkennst af því að þar hefur verið um að ræða samstarf Alþb. og Framsfl.

Ég er sammála þeim hagfræðingum sem meta það svo að Íslandi hafi ekki í annan tíma verið verr stjórnað en á þessu tímabili hinna glötuðu tækifæra. Sér í lagi finnst mér umhugsunarefni að ef litið er á reynsluna af efnahagsmálastjórn þessara tveggja flokka, sem kenna sig við vinstri stefnu, félagshyggju, verkalýðshreyfingu, sósíalisma, þjóðfrelsi og fleira gott, þá var niðurstaðan að því er varðar kjör þess fólks, sem þessir flokkar hafa reyndar báðir mjög á orði að þeir beri fyrir brjósti, varla í annan tíma rýrari. Ég nefni nokkur dæmi.

Það hlýtur að vera Alþb.-mönnum mikið áhyggjuefni og umhugsunarefni að í hvert skipti sem Alþb. settist í ríkisstj. voru sett ný verðbólgumet sem að lokum var með svo myndarlegum hætti að það á sér fáar samlíkingar, þ.e. í lok síðustu hæstv. ríkisstj., en hver þessara ríkisstj. setti nýtt verðbólgumet. Gáfaðasti leiðtogi sósíalista á lýðveldistímanum, Magnús Kjartansson, fyrrv. hæstv. ráðh., lýsti þessu fyrirbæri, verðbólgunni, sem gróðamyndunaraðferð braskara. Það er hverju orði sannara hjá Magnúsi Kjartanssyni. Úðaverðbólga er gróðamyndunaraðferð braskara. Hún er afskræming á heilbrigðu efnahagslífi, hún er aðför að rekstrargrundvelli alþýðuheimila í landinu. Þeir sem báru skarðastan hlut frá borði í slíkri óðaverðbólgu eru að sjálfsögðu launþegar í landinu og þá einkum og sér í lagi þeir sem lægst hafa launin. Þeir sem græða á verðbólgu eru braskarar, þ.e. hvers kyns milliliðir, fjármagnseigendur, kerfiskarlar, skjólstæðingar kerfisins, enda leiddi af þessari óðaverðbólgu á þessum áratug gífurlega efnahagslega mismunun og sívaxandi félagslegt misrétti.

Annað einkenni slíkrar óðaverðbólgu er gífurleg eigna- og tekjutilfærsla frá venjulegu vinnandi fólki til fjármagnseigenda.

Það var einmitt einkenni á efnahagspólitík Alþb. á þessum tíma, undir andlegri leiðsögn Lúðvíks Jósepssonar, fyrrv. hæstv. ráðh., að Alþb. fylgdi því sem kallað var lágvaxtastefna. Þetta þýddi að í 50–60% verðbólgu virtist það vera ein af kennisetningum Alþb. að rétt væri að verðtryggja ekki sparifé og að bjóða atvinnulífinu upp á neikvæða vexti allt að 17–20%. Þetta þýddi að þeir sem best voru settir, atvinnurekendur í þjóðfélaginu og aðrir fjármagnseigendur, fengu lán á þessum tíma sem þeir ekki þurftu að endurgreiða nema að litlum hluta. M.ö.o.: þarna var um að ræða eignatilfærslu frá launþegum til atvinnurekenda. Ég er einn þeirra fjölmörgu vinstri manna sem aldrei gátu skilið þessa efnahagspólitík. Ég kallaði hana einhvern tíma í háðungarskyni grútarbræðsluhagfræði Lúðvíks Jósepssonar, en tel reyndar að það sé rangnefni því að það á ekki að kenna hana við grútarbræðslu. Grútarbræðsla er þjóðlegur atvinnuvegur og útflutningsatvinnuvegur og nýtur ekki nema mjög takmarkaðs gagns af slíkri efnahagspólitík.

Þegar saman fer óðaverðbólga, sem er mælikvarði á kunnáttuleysi í stjórn efnahagsmála, neikvæðir vextir, sem er eigna- og tekjutilfærsla frá vinnandi fólki til fjármagnseigenda, hriplekt og ranglátt skattakerfi, þá er ekki að undra að á stjórnartíma þessara flokka gerðist það að framleiðsluatvinnuvegir, útflutningsatvinnuvegir, máttu þola endalausar kárínur, voru reyndar alltaf á núllgrundvelli eða í hallarekstri undir hamrinum, en hvers kyns skjóttekin gróðastarfsemi, milliliðastarfsemi, innflutningsverslun, verslun, dreifing þjónusta, voru þær greinar sem blómstruðu.

Nú hvarflar ekki að mér að þetta hafi verið gert af ásettu ráði. Það hvarflar ekki að mér að væna forustumenn Alþb. um slíka tvöfeldni að þeir hafi meint og meini ævinlega þveröfugt við það sem þeir gera. Ég hef einfaldlega ekki getu til þess að trúa því og hlýt þess vegna að álykta að þessar hræðilegu niðurstöður séu frekar dæmi um kunnáttuleysi en tvöfeldni eða hræsni.

Það fer ekki milli mála að þegar litið er á þessar grunnstærðir efnahagsmála, litið á þessar niðurstöður á efnahagsmálastjórnun Alþb., gefa þær tilefni til mjög rækilegrar endurskoðunar. Alþb. hefur breyst frá því að vera það sem þeir kölluðu sjálfir „eðlilegur stjórnarandstöðuflokkur“ yfir í að vera það sem þeir vilja kalla sjálfir „eðlilegur stjórnarþátttökuflokkur“. Og forusta Alþb. er farin að hugsa sem svo, að það sé eins og hjá Framsfl. eðlilegt keppikefli Alþb. að vera í ríkisstj. Þess vegna skiptir ákaflega miklu máli að forustumenn Alþb. setjist nú niður og rannsaki þennan stjórnarþátttökuferil sinn mjög gaumgæfilega, mjög gagnrýnum augum. Þetta heitir á máli sósíalismans að stunda sjálfsgagnrýni. Ég held að hún sé ákaflega tímabær. Og ég segi þetta ekki af neinni áreitni. Ég segi þetta af því að ég tel mjög æskilegt að Alþb.-forustan einsetji sér það í nafni framtíðarþjóðarhagsmuna að læra af þessari hörmulegu reynslu.

Mér er það t.d. alveg óskiljanlegt, ef við lítum aðeins á atvinnumál, hvernig á því stendur að forustumenn Alþb. kunnu ekki önnur ráð, þegar um var að ræða ranga og dýra landbúnaðarpólitík, en að stunda yfirboð gagnvart Framsfl. í stað þess að taka undir með okkur Alþfl.-mönnum um að gæta hagsmuna launþega í landinu. Framsfl. er í eðli sínu hagsmunavörsluflokkur þess milliliðakerfis sem kennt er við SÍS og landbúnað.

Það hefur verið neytendum í landinu ákaflega dýrt í 20 ár, reyndar svo dýrt að allir tekjuskattar einstaklinga, sem að mestu eru greiddir af launþegum, hafa farið í þetta kerfi. Það hafa verið um 1–1.5 milljarðar á fjárlögum. T.d. s.l. sex ár um 14 milljarðar á verðlagi ársins 1983. Eina sem Alþb. hafði um þetta að segja var að foringi flokksins lagði til að landbúnaðarvandamálið yrði étið og það mætti leysa auðveldlega með því og hvatti launþega til að éta meira. Þetta er ekki hægt að taka alvarlega. En þarna virðist mér að forusta Alþb. hafi fallið í þá freistni að stunda hentistefnu, þ.e. láta þarna sitja í fyrirrúmi vilja sinn til að kaupa atkvæði af vinstri sinnuðum framsóknarbændum fremur en að gegna skyldu sinni og í skjóli réttra raka halda fast á hagsmunum launþega í þéttbýlinu.

Annað dæmi, sem mér er mikið undrunarefni og ég veit að mörgum vinstri sinnuðum mönnum sem stutt hafa Alþb. í góðri trú var mikið undrunarefni, var niðurstaðan af ráðsmennsku Alþb. í húsnæðismálum milli 1980–1983. Við höfum svo sem deilt um þetta fyrr. Það sem mér er fyrst og fremst undrunarefni er þetta: Það var búið að koma á verðtryggingu á sparifé á þessum tíma. Það var staðreynd. Því var ekki breytt. Frá því var ekki fallið. Þegar við jafnaðarmenn börðumst fyrir og innleiddum verðtrygginguna á sinni tíð, sem við stöndum við og föllum ekki frá og teljum að hafi verið rétt ráðstöfun, fylgdi okkar till. í því efni alveg skýlaus krafa um að lánstíminn yrði lengdur mjög verulega til þess að mæta verðtryggingunni, m.ö.o. til þess að tryggja að greiðslubyrðin yrði ekki launþegum óviðráðanleg. Ef menn vefengja þetta bið ég þá hina sömu að gera svo vel að kynna sér mjög merkilegt frv. sem aldrei þessu vant var ekki lagt fram á hinu háa Alþingi heldur í ríkisstj. þar sem áttu sæti ráðh. bæði Alþfl. og Alþb. Það var hið fræga frv. Alþfl. um jafnvægisstefnu í efnahagsmálum. Þetta var hið merkasta frv. þó að það hafi verið eyðilagt í meðförum framsóknarmanna og Alþb.-manna í ríkisstj. Þar segir t.d. í 23. gr., með leyfi forseta:

„Seðlabanka Íslands er skylt að ákveða endurgreiðslukjör lána og annarra fjárskuldbindinga í áföngum þannig að á árinu 1980 verði því markmiði náð að raunvextir verði jákvæðir“, þ.e. afnumið yrði það ástand að vextir væru neikvæðir, verðtryggingu komið á, en gert ráð fyrir lágum raunvöxtum.

Þar segir enn fremur:

„Jafnframt skal ríkisstj. undirbúa lagasetningu um samræmda lengingu á lánstíma fjárskuldbindinga, þar með talið almenna heimild lánþega til skuldabréfaskipta vegna þessara breytinga.“

Þetta var lykilatriðið að því er varðaði aðlögun lánastarfseminnar að verðtryggingarákvæðum. Mér er það endalaust undrunarefni hvers vegna þær ríkisstjórnir sem við tóku sinntu ekki þessu.

Stundum er vitnað í þessu samhengi í Ólafslög, en Ólafslög eru sem alþm. er kunnugt um útþynning á upphaflegu frv. Alþfl. um jafnvægisstefnu í efnahagsmálum. Það var í helstu atriðum gert með þeim hætti að þar sem einhver broddur var í frv. var hann slævður eða þar sem verulega átti að taka á, var það afnumið. Og síðan þegar lögin höfðu þó verið lögfest var séð tryggilega til þess að þau hafa aldrei komið til framkvæmda. En í Ólafslögum, sem hæstv. fyrrv. forsrh. sagði að hann hefði samið á eldhúsbekknum heima hjá sér, er ákvæði um verðtryggingu. Af einhverjum ástæðum hef ég ekki tekið með mér rétt ljósrit þannig að ég get ekki lesið þetta upp orðrétt eins og ég ætlaði mér. Nægir þá að vísa til þess eftir minni að í þessum Ólafslögum var líka ákvæði þar sem var kveðið á um skyldu stjórnvalda til að lengja lánstímann verulega til þess að mæta verðtryggingunni.

Annað er mér undrunarefni frá þessum tíma. Húsnæðislánakerfið er sem kunnugt er trúlega þriðja helsta tekjujöfnunarkerfi landsmanna og á ég þá við að það eigi að vera það til viðbótar tryggingakerfi og skattakerfi. Snemma á stjórnartíma þar sem Alþb.-menn sátu bæði í fjmrn. og félmrn. komu þeir sér ásamt um þá pólitík að svipta húsnæðislánakerfið föstum tekjustofnum sínum. Í staðinn var þessum félagsmálakerfum vísað á óvissan lánsfjármarkað innanlands og sá leikur endurtekinn að vísa Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna á að afla sér tekna með lánum frá lífeyrissjóðum, jafnvel miðað við það að þröngva lífeyrissjóðum til þess, skuldbinda þá til þess að afhenda 40% af ráðstöfunarfé sínu, Atvinnuleysistryggingasjóði skyldusparnað o.s.frv. Staðreynd var og hlaut að liggja í augum uppi að þessi lánakjör voru með þeim hætti að lífeyrissjóðalánin voru til skemmri tíma og vextirnir voru hærri en á þeim lánum sem byggingarsjóðirnir lánuðu út. Af þessu hlaust verulegur vaxtamunur sem smám saman átti sinn þátt í því að grafa undan eiginfjárstöðu þessara mjög þýðingarmiklu tekjujöfnunarkerfa almennings, sem eru Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna, sem hefur endað með þeim ósköpum í tíð núv. hæstv. félmrh. að heita má að báðir þessir sjóðir séu óvirkir. Byggingarsjóður ríkisins er sokkinn í skuldir og að Byggingarsjóði verkamanna hefur verið búið þannig að s.l. tvö ár hefur ekki verið hafist handa um að byggja eina einustu nýja íbúð á hans vegum með þeim afleiðingum að þar er bara vísað á biðlista og kunningsskap við verkalýðsleiðtoga. Þetta finnst mér vera hörmuleg mistakasaga.

Þar við bætist að á þessum tíma, þegar Alþb. stýrði ríkisfjármálunum og sat í fjmrn., er mér gersamlega óskiljanlegt hvernig hæstv. fyrrv. fjmrh. gat horft aðgerðarlaust í þrjú ár upp á það skattakerfi sem við höfum fyrir augunum. Það lýsti sér í því að það var orðið opinbert ríkisleyndarmál að aðeins hluti þjóðarinnar, þ.e. launþegar sem selja vinnuafl sitt hjá öðrum, greiddi tekjuskatt. Hinn hluti þjóðarinnar var stikkfrí. Honum nánast selt sjálfdæmi um það hvaða tölur hann skrifar á blað í formi tekjuskattsframtala.

Atvinnurekstur í landinu hafði á öllu þessu tímabili að vísu allnokkuð greiðan aðgang að lánastofnunum. Jafnvel þó vextir væru neikvæðir töldust þeir vera frádráttarbærir til skatta. Fyrirtæki báru litla tekjuskatta. Minnist ég þess frá stjórnarandstöðutíð þeirra Alþb.-manna að hæstv. fyrrv. fjmrh. — ég á við Ragnar Arnalds-birti hér á þingi langa lista yfir hin skattlausu fyrirtæki. En þegar Alþb. settist í stjórnarstóla og fékk sjálft fjmrn. á sitt vald, þetta voldugasta rn. íslenskra ríkisstjórna, var horft á þetta skattakerfi og ekkert aðhafst.

Ég er hér að lýsa ranglátu tekjuskattakerfi og hripleku söluskattskerfi. Öllum mönnum sem einhverja þekkingu hafa á atvinnulífi og viðskiptum á Íslandi er kunnugt um að söluskattur er í stórum stíl innheimtur af venjulegum launþegum og neytendum. Þar eru stórir hópar sem eru vörslumenn þessa almannafjár, en hins vegar alveg augljóst mál að féð kemst ekki til skila. Mér er alveg gersamlega óskiljanlegt hvernig á því stendur að allan þann tíma sem Alþb. hafði með þessi mál að gera skyldi ekkert vera aðhafst í þessum málum. Hér erum við að tala um kjarna mála, þ.e. reynsluna af stjórn Alþb. í þeim málaflokkum sem almenning varðaði mestu að góð stjórn væri á.

Oft hef ég heyrt þá viðbáru að þetta sé ekki sanngjörn umsögn af því að Alþb.-menn hafi verið í ríkisstjórn með framsókn og ekki komið fram sínum málum fyrir kerfisflokknum gamla. Eitthvað kann að vera til í því, en þó er á það að líta að þegar Alþb.ráðherrar fóru með hvort tveggja útgjaldarn., félagsmála- og fjmrn., er alveg augljóst mál, miðað við íslenska stjórnskipun, miðað við sjálfstæði íslenskra ráðherra, að ekki verður framsókn um kennt að því er þetta varðar.

Ef við drögum saman finnst mér alveg augljóst að upp á framhaldið að gera, t.d. í hugum þeirra manna sem gjarnan gætu hugsað sér samstarf við Alþb., þá velti maður fyrir sér: Hefur Alþb. eitthvað lært af þessum hræðilega stjórnarferli? Er það virkilega svo að þeir hafi lært þessa lexíu þannig að menn þurfi ekki að ganga út frá því sem gefnu að ef Alþb. settist á stjórnarstóla aftur mundi það halda þannig á málum að menn mættu búast við nýjum og nýjum verðbólgumetum? Er það virkilega svo, að formaður Alþb., hv. 3. þm. Reykv., hafi ekkert lært af mistökum fyrri ríkisstjórna Alþb. að því er varðar verðtryggingu og vexti? Það veldur mér nánast hryggð, miðað við þingræður hans að undanförnu og blaðagrein í Dagblaðinu í dag, að mér virðist sem svo að hann hafi engu gleymt og ekkert lært.

Þetta eru ákaflega þýðingarmikil mál, sérstaklega með hliðsjón af því að öðrum stjórnmálaflokkum í stjórnarandstöðu hefur nýlega borist bréf frá Alþb. þar sem boðið er upp á umr. Það er að vísu orðað í þeim anda að Alþb. býðst til þess að verða samfylkingarsamtök vinstri manna. Að vísu getur það ekki orðið, enda er Alþb. núna þriðji minnsti flokkur þjóðarinnar skv. skoðanakönnun. Svona rétt kvensterkir í svipinn. En látum það nú vera. Ég vildi gjarnan mega taka þessar viðræður alvarlega og ég vona í lengstu lög að Alþb.-forustan læri af mistökum sínum.

Mér er ljóst að það er við mikla erfiðleika að etja í Alþb. eins og er. Sérstaklega virðast þeir menn sem valdir hafa verið til trúnaðarstarfa í verkalýðshreyfingunni eiga þar erfitt uppdráttar, sbr. það að þeir voru nýlega hreinsaðir út úr því sem heitir verkalýðsmálaráð Alþb. og virðast þannig vera eins konar pólitískir flóttamenn, vera á götunni. Mér er mikið í mun að rétta þessum pólitísku flóttamönnum bróðurlega hönd og lýsi því hér með yfir að ég mundi vilja beita mér fyrir því að þeir fengju pólitískan griðastað í Alþfl., þar sem ég tel að þeir eigi nú heima, enda ljóst af gagnrýni þeirra margra hverra, og þá vitna ég sérstaklega til forseta Alþýðusambandsins, Ásmundar Stefánssonar, á pólitík Alþb. í undanförnum ríkisstjórnum er mjög í anda þess sem fram hefur komið almennt í málflutningi Alþfl. Ég minni á að verkalýðsforustumenn Alþb. hafa beitt sér fyrir og beittu sér þá fyrir harðorðum ályktunum um skilningsleysi þessara ríkisstjórna á afvinnumálum, um nauðsyn þess að stokka upp fjárfestingarstjórnkerfið, um nauðsyn þess að taka upp annars konar stefnu í fjárfestingarmálum, um nauðsyn þess að fjárfestingin skilaði okkur meiri arði, um nauðsyn þess að stokka upp stefnuna í landbúnaðarmálum, en allt eru þetta mál sem Alþfl. hefur barist fyrir á annan áratug.

Herra forseti. Með hliðsjón af þessu öllu saman er þetta kurteisleg ábending til raunsærra manna og verkalýðssinna í Alþb. um nauðsyn þess að reyna að greiða fyrir samstarfi vinstri manna. Það eru mjög alvarleg vandamál við að fást í íslensku þjóðfélagi í framtíðinni. Þess vegna er ákaflega þýðingarmikið að þess sjáist einhver merki að forustumenn Alþb. hafi lært af mistökum sínum þannig að þau hendi ekki aftur. Það er í ljósi þess sem ég les frv. um verndun kaupmáttar og viðnám gegn verðbólgu. Ég vil sérstaklega taka fram að þetta er þeim mun þýðingarmeira sem við sitjum nú uppi með ríkisstj. sem hefur nýlega gert þriðju atrennuna að því að móta sér stefnu í efnahagsmálum. Það gerði hún fyrst með stjórnarsáttmála sínum. Því næst gerði hún það með stjórnarsáttmála nr. 2 frá því í sept. s.l. sem var eins konar heiðursmannasamkomulag þeirra hv. þm. Þorsteins Pálssonar, 1. þm. Suðurl., og hæstv. forsrh. Lítið hefur orðið um efndirnar á því plaggi. Og nú hefur hæstv. ríkisstj. lagt fram í þriðja sinn hugleiðingar sínar á fjórum bls., A–4, um hvað hún gæti hugsað sér að gera smátt og smátt út þetta ár og á hinu næsta í efnahagsmálum.

Það er ekki undrunarefni að í umsögnum fjölmiðla um þetta hafa menn fyrst og fremst staldrað við það sem ekki er að finna á þessu plaggi. Það hlýtur að vera mönnum mikið umhugsunarefni að á sama tíma og sjávarútvegurinn er í djúpri kreppu, að hluta til sokkinn í skuldir, og fram undan er sjómannaverkfall er í efnahagsáformum ríkisstj. ekki að finna stafkrók um málefni sjávarútvegsins, hvorki um skuldaskil, gengisskráningu, verðlagningu aðfanga, olíuverðið eða eitt eða neitt.

Þar er ekkert vikið að upprætingu skattsvika með breytingum á skattakerfi þó að það séu teknar upp góðu heilli tillögur Alþfl. og þá sérstaklega hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um aukið aðhald í skattaeftirliti með því að fjölga skattrannsóknarmönnum. Vandamálið er hins vegar ekki leyst vegna þess að sérstökum fjármunum var ekki veitt til þess á fjárlögum. Það var reyndar fellt. Sú ráðstöfun ein sér kemur því ekki til með að skila miklum árangri nema sem liður í samræmdum aðgerðum, að stokka upp skattkerfið sjálft.

Þarna er ekkert að finna um skattlagningu banka, ekki gerð tillaga um ráðstöfun á hagnaði Seðlabankans. Það eru engar tillögur um skattlagningu á skattsviknum verðbólgugróða stóreignamanna og stórfyrirtækja, enda var heldur dapurlegt að heyra ræðu hv. 1. þm. Suðurl. s.l. miðvikudag um þau mál. Þar fjallaði hann með skætingi og útúrsnúningum um eitt stærsta málið sem liggur fyrir þessu þingi, sem er till. um stighækkandi eignarskatt á stóreignamönnum og stórfyrirtækjum. Málflutningur hv. þm. byggðist á útúrsnúningum. Það hvarflaði að mér að halda að hann hefði alls ekki kynnt sér málið, alls ekki lesið frv. En um það fjöllum við betur síðar.

Þarna var ekkert að finna um einokunargróða milliliðakerfisins í landbúnaði, ekkert um aðgerðir gegn einokunarhringum og einokunarverðmyndun, svo sem eins og hjá SÍS, olíufélögum, Aðalverktökum og tryggingafélögum. Það er ekkert hjá ríkisstj. að finna um aðferðir eða leiðir til að tryggja þjóðinni lægra innflutningsverð. Þar var ekkert að finna um neina atvinnustefnu, ekkert um markaðsmál, ekkert um aukið frelsi til útflutnings, engar tillögur um að draga úr velferðarkerfi fyrirtækjanna á fjárlögum, sem er reyndar orðið af því taginu að það er verið að stefna að því að gera atvinnuvegina, sem eiga að vera undirstaða velferðarríkisins, að niðursetningum skattgreiðenda. Það var ekkert um hið rangláta lífeyrisréttindakerfi og enga byggðastefnu þar að finna.

Niðurstaðan var sú að hæstv. ríkisstj. situr við sinn keip. Þar er allt á sömu bókina lært. Hún stefnir áfram að auknum erlendum lántökum miðað við árið 1984 þó að ráðh. reyni að klóra í bakkann og draga úr aukningu þeirra um 350 millj. Það er áfram látið líðast að við stefnum í milli 4 og 5 milljarða viðskiptahalla á næsta ári. Það á að halda áfram að reka ríkissjóð með halla og það á að viðhalda ránvaxtastefnu Seðlabankans. Þó ekki kæmi annað til er alveg ljóst að hafi þessar ráðstafanir átt að vera bjarghringur fyrir samstarf stjórnarflokkanna mun það ekki takast. Í hæsta lagi munu þær duga sem sjónhverfingaleikur fram á vorið og ef stjórnarflokkarnir verða mjög hræddir við kosningar í vor gæti dregist fram á haust að kjósa, en ekki lengur.

Þeim mun þýðingarmeira er að stjórnarandstöðuflokkarnir, sem hljóta að búa sig undir það að um leið og þessi ríkisstj., sem nú þegar er búin að vera og hefur enga stefnu, kemur að sínu úfgönguversi og þá verður þegar í stað að fara að undirbúa stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar, þeim mun þýðingarmeira er að spyrjast fyrir um það hvort þeir Alþb.-menn hafi nokkuð lært af mistökum sínum. Í þessu samhengi er rétt að geta þess að það sjónarmið — (FrS: Er þetta bónorð til Alþb.?) Nei, nei, þetta er málefnaleg umræða um nauðsyn þess að meta reynsluna af efnahagsóstjórn þríflokkanna, sjálfstfl., Alþb. og Framsfl., á áratug hinna glötuðu tækifæra, svo að ég vitni nú í hagfræðing Vinnuveitendasambandsins og helsta ráðgjafa formanns Sjálfstfl. í efnahagsmálum.

Það er alkunna að innan þessara flokka, þ.e. sjálfstfl. og Alþb., hafa lengi verið uppi draumar um sögulegar sættir. Alkunna er að þó að formaður Alþb. sendi stjórnarandstöðuflokkunum bréf og biðji um viðræður stjórnarandstöðuflokkanna um landstjórnarafl, þá kemur formaður verkalýðsmálaráðsins og telur að þessar hugmyndir séu ekki byggðar á raunsæi, það beri raunverulega að stefna að nýrri nýsköpunarstjórn þar sem um væri að ræða stjórn Sjálfstfl., Alþb. — og svona miðað við það hvernig landið liggur pólitískt væntanlega undir stjórnarforustu Alþfl. Þess vegna er þetta ekkert hégómamál. Í ljósi þess arna, miðað við það að ríkisstj. situr uppi stefnulaus og miðað við það að reynslan af stjórnarþátttöku Alþb. hefur verið einkar slæm, sérstaklega fyrir launþega og vinnandi fólk, þá er þetta ákaflega þýðingarmikið mál.

Það er mér ánægjuefni að um suma af þeim þáttum sem hér eru settir fram sem efnahagsstefna Alþb. get ég verið hjartanlega sammála þó að sumt sé með þeim hætti að það verði að endurskoða mjög rækilega. Lítum aðeins á nokkur atriði. Lítum t.d. á innflutningsverslunina. Það er alveg augljóst mál að við getum ekki látið bjóða þessari þjóð upp á það til langframa að innflutningsverslunin íslenska skili íslenskum neytendum innflutningsverði sem er kannske fjórðungi hærra en sambærilegt innflutningsverð annarra Norðurlandaþjóða. Og það þarf enginn að segja mér það að þetta sé náttúrulögmál. Við höfum búið við ákaflega fáránlegt kerfi í þessum efnum. Spurningin er: Hvernig ætlum við að breyta því?

Niðurstaða mín af reynslunni er sú að það stoði lítið að setja lög, það stoði lítið að setja lög um verðstöðvun og um herta verðstöðvun nema því aðeins að það sé liður í samræmdri efnahagsstefnu. Þýðingarmest í verðmyndunarmálum er að brjóta á bak aftur auðhringi og einokunarverðlag og stuðla að raunverulegri samkeppni. Ég er sammála þeim sjálfstæðismönnum um það að það eina sem tryggi neytendum til lengdar lægsta hugsanlegt verð sé sem mest samkeppni á markaði. Nú geri ég mér það ljóst að íslenskt þjóðfélag er með þeim hætti að þessu verður ekki við komið nema að litlu leyti. Þess vegna held ég að sú till. sem hér liggur fyrir, um að beina atorku og starfsemi Verðlagsstofnunar sérstaklega að innflutningsverðlaginu, sé góðra gjalda verð, enda í samræmi við þá skýrslu sem Verðlagsstofnun lagði á borð viðskrh. sem einu sinni hét hv. þm. Svavar Gestsson. En því miður var lítið með hana gert, minna en efni stóðu til.

Að því er varðar sjávarútveginn, þá er hér stungið upp á ýmsum ráðstöfunum svo sem eins og skatti á skrifstofu- og verslunarhúsnæði. Ég hef svolitlar efasemdir um það skattform því að ég er hræddur um að verslunin velti því að.verulegu leyti út á neytendur. Þá er talað um veltuskatt á banka. Ég tel sjálfsagt að auka skattheimtu á banka, sömuleiðis að taka hagnað Seðlabankans í ríkissjóð, það tel ég algerlega sjálfsagt. En hvort þetta eru þær réttu ráðstafanir sem gætu bjargað sjávarútveginum, því er ég ekki endilega sammála. En ég er sammála um að þarna verður að grípa til ráðstafana.

Að því er sjávarútveginn varðar verða menn náttúrlega fyrst og fremst að koma sér saman um eitt: að sjávarútvegurinn verður að búa við rétta gengisskráningu. En ég er sammála þeim Alþb.-mönnum um að það sé hægt að gera ótalmargt til að lækka kostnað aðfanga í sjávarútvegi. Sérstaklega kemur mjög til álita að þjóðnýta olíufélögin. Að vísu er það svo að olíuinnflutningsverslunin er í höndum ríkisins. En síðan tekur þessi þríeini olíuauðhringur við og hann hefur staðið sig með þeim endemum að árum saman hefur hann boðið íslenskum sjávarútvegi upp á þau skilyrði að þurfa að kaupa olíu og bensínvörur á 30–40% hærra verði en tíðkast á öllum fiskihöfnum í Evrópu. Þetta gengur ekki. Þetta á sér ákveðnar skýringar og það er ekki hægt að taka sem góðar og gildar skýringar olíueinokunarinnar í því efni. Ég er sammála Alþb.-mönnum um það.

Að öðru leyti vísa ég til tillagna Alþfl. í sjávarútvegsmálum sem eru fleiri en þessar. Sérstaklega þyrftu menn að beina umr. að því hvað við getum gert til þess að styrkja okkur í samkeppninni við þær þjóðir sem nota olíu- og iðnaðarauð sinn til þess að niðurgreiða sjávarafurðir. Þar eigum við að beita mjög hörðum aðgerðum gagnvart Norðmönnum og nota fyrsta tækifærið sem gefst til þess sem er nú þegar Norðurlandaráð kemur saman hér í Reykjavík. Ég ætla ekki að orðlengja um það frekar.

Að því er varðar hugmyndirnar um að stöðva erlendar lántökur, þá skiptir þar mestu að menn hafi raunsæjar hugmyndir um hvernig við ætlum að fara að því að byggja upp innlendan sparnað. Það gerist ekki með þeim hugmyndum sem hv. 3. þm. Reykv., Svavar Gestsson, formaður Alþb., er að reifa þessa dagana að því er varðar verðtryggingu sparifjár. Hins vegar hygg ég að sú umr. sé að verulegu leyti byggð á misskilningi vegna þess að auðvitað getum við ekki hlaupið frá því að stuðla að sparifjármyndun. En um leið útilokar það ekki að við hegðum okkur eins og menn gagnvart hagsmunum húsbyggjenda. Sá sem ætlar að stöðva erlendar lántökur verður í fyrsta lagi að hafa svör á reiðum höndum um það hvernig við ætlum að byggja upp innlendan sparnað og hvernig hann ætlar að haga sinni skattapólitík. Og þar vantar eiginlega mikið á, þar er stórt gat í tillögum Alþb.

Við erum að sjálfsögðu sammála þeim um það að afnema sjúklingaskatta. Ég sé að ég get nú ekki rætt vaxtamálin eins ítarlega og kannske væri þörf á en ég er sammála þeim Alþb.-mönnum um það að vexti má að ósekju, að því er varðar skammtíma skuldbindingar, hafa án verðtryggingar. Þá á ég við að þar er um að ræða áhættulán fyrst og fremst og bisness er bisness, menn taka áhættu í viðskiptum og við því er ekkert að segja.

Að því er varðar lánamál til lengri tíma getur það hins vegar ekki gengið, ekki miðað við aðstæður í íslensku þjóðfélagi að svo stöddu. Við eigum að bjóða sparifjáreigendum upp á verðtryggingu. Við eigum að hafa lága raunvexti, mjög lága raunvexti. Fyrir því eru ákveðin rök að við þurfum ekki að elta Reagan í þeim efnum. Vaxtapólitík núv. ríkisstj. er sannanlega alröng.

En að því er varðar húsnæðismálin er kjarni málsins sá að við þurfum í fyrsta lagi tekjustofna til þess að endurreisa fjárhag byggingarlánasjóðanna. Það er atriði númer eitt. Um það höfum við lagt til alveg ákveðnar tillögur sem eru tillögurnar um stóreignaskattinn á hinn skattsvikna verðbólgugróða hinna ríku.

Í annan stað verðum við að tryggja byggingarsjóðunum fasta tekjustofna, það er óhjákvæmilegt. Við verðum að þurrka út vaxtamuninn milli inn- og útlána.

Í þriðja lagi verðum við að lengja lánstímann og það styðst við þau rök að fjárfesting í húsnæði er til langs tíma. Hún er án áhættu og getur þess vegna borið lága vexti enda þekki ég engin dæmi þess frá löndunum í kringum okkur að boðið sé upp á sama raunvaxtastig að því er varðar fjárfestingarlán til atvinnurekstrar, sem á að skila arði, og til húsnæðislána.

Það væri mjög æskilegt að við gætum komist að sameiginlegum niðurstöðum í þessum efnum en þá bið ég formann Alþb. endilega að setjast nú niður og læra lexíuna sína um vaxtamál betur en hann hefur gert að undanförnu.

Að því er varðar að hafa stjórn á skipafélögum í sambandi við fragt og slíka hluti er ekki mikill ágreiningur.

Ég tek líka undir með Alþb. um það, enda höfum við gert það áður, kannske má orða það svo að Alþb. taki undir með okkur, að það beri að breyta þeim reglum sem nú gilda um skattmeðferð verðbréfahagnaðarins. Það er ljóst að hluti af sparifjármynduninni í þjóðfélaginu er náttúrlega ekki sparifjármyndun í eiginlegum skilningi heldur skattsvikinn hagnaður eða erfðafé sem er partur af neðanjarðarhagkerfinu og er ávaxtaður með góðum árangri á allt að 18% raunvöxtum á verðbréfamarkaðinum íslenska sem lýtur engum lögum og engum reglum. Satt að segja eru menn, sem kunnugir eru þessum viðskiptum, farnir að óttast það mjög að þetta ævintýri endi með stóru hruni. Kjarni málsins er sá að þarna er um að ræða svo himinháa raunvexti, og aðallega er hér um að ræða fé huldumanna Stigahlíðarþjóðarinnar, skattsvikið fé sem þolir ekki dagsins ljós, og það er ekki framtalsskylt og það er ekki skattskylt. Fórnarlömb þessa kerfis eru að verða ansi mörg og ég er algerlega á einu máli um það að þarna beri að breyta reglum, þarna beri að setja lög, og einnig hugmyndinni um það að skuldabréf skuli ekki látin ganga kaupum og sölum nafnlaus heldur vera skráð á nafn, svo sem tíðkast í öllum góðum kapítalískum ríkjum, þ. á m. Bandaríkjunum.

Ég ætla ekki, herra forseti, að hafa þessi orð lengri að sinni. Þetta voru fáein orð að gefnu tilefni um efnahagsstefnu Alþb. í tilefni af þessu frv., tilraun til þess að meta störf Alþb. í ríkisstjórn í ljósi reynslunnar. Að lokum læt ég í ljósi þá frómu ósk að menn læri af reynslunni.