12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2855 í B-deild Alþingistíðinda. (2327)

252. mál, auglýsingakostnaður vegna sölu spariskírteina ríkissjóðs

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Mig langaði að taka undir orð hv. 5. landsk. þm. varðandi auglýsingar. Við verðum að fylgja þróun tímans. Það er alveg útilokað annað. Auglýsingar eru auðvitað misjafnar að gæðum, en við megum ekki heldur gleyma því að auglýsingar eru þjónusta við neytendur. Það hefur oft verið kvartað undan lélegri þjónustu að þessu leyti við neytendur af hendi ríkisvaldsins. Ég tel auglýsingarnar um spariskírteinin jákvæðar að því leyti að þær upplýsa almenning um fleiri valkosti á ávöxtun sparifjár. Það er matsatriði hvort mönnum finnast þær vera góðar eða lélegar, en þær eru upplýsandi. Og ég sé ekki að það sé skaðlegt þó að það fylgi ofurlítið grín með, þó að hið opinbera auglýsi alveg eins og einstaklingarnir gera. Ég get ekki séð hvað er athugavert við það.