12.02.1985
Sameinað þing: 48. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2857 í B-deild Alþingistíðinda. (2334)

287. mál, könnun á launum og lífskjörum

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri þegar þetta mál er komið á dagskrá til þess að víkja nokkrum orðum að umr. um það mál sem átti sér stað hér í Sþ. s.l. fimmtudag þegar á dagskrá var till. til þál. sem er 113. mál í Sþ., þskj. 117. Ég kveð mér hljóðs vegna ummæla sem 10. landsk. þm., hv. þm. Guðrún Helgadóttir, lét frá sér fara í því tilefni og ég hafði ekki tækifæri til þess að svara og leiðrétta við umr. hér á fimmtudaginn.

Hv. þm. hélt því fram að till. til þál. á þskj. 467 sem ég hef flutt í Sþ. og hér er nú á dagskrá, um könnun á launum og lífskjörum á Íslandi og í nálægum löndum, en auk mín er þar flm. Pétur Sigurðsson, sé í raun nákvæmlega sama málið og till. til þál. á þskj. 117, samanburð á launakjörum og lífskjörum launafólks á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum. Vegna þessa taldi hv. þm. fulla ástæðu til að gera sérlegar athugasemdir og vanda um sérstaklega við flm. að síðari till., þ.e. mig og Pétur Sigurðsson, þó svo að það sé í sjálfu sér í hendi forseta og hans hlutverk að annast slíkar umvandanir og siðbætur í fari þm. hér í Sþ., og þá jafnt í deildum deildarforsetar.

Það sem Guðrún Helgadóttir, hv. 10. landsk., sagði um þetta atriði sérstaklega er orðrétt svohljóðandi: „sú till., sem hér var talað fyrir,“ — þ.e. till. sú sem Tómas Árnason og fleiri fluttu — „heitir till. til þál. um samanburð á launakjörum og lífskjörum launafólks á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum. Munurinn á þessum tveimur tillögum eru orðin „í nálægum löndum“ og „annars staðar á Norðurlöndum“. Engin lönd veit ég nálægari en Norðurlönd. Ég verð því að lýsa undrun minni yfir því að þessar tvær tillögur skuli koma fram á sama þingi. Ég hélt að þm. hefðu nóg að gera við að fylgjast með þeim málum sem fram koma þó að slíkt gagnrýnisleysi sé ekki viðhaft hér, hvar sem það nú annars er sem tekin er ákvörðun um hvort ástæða sé til að flytja mál eða ekki.“

Það er út af fyrir sig ánægjulegt, eins og ég sagði áðan, þegar þm. taka sér það hlutverk að benda á það sem miður fer í þingstörfum og vanda um við kollega sína og ekki nema gott eitt um það að segja. En ég sé mig tilneyddan að mótmæla þessum ummælum hv. 10. landsk. þm. hér í Sþ. s.l. fimmtudag einfaldlega vegna þess að ég tel ekki að þau séu á rökum reist og skal ég nú rökstyðja það örlítið frekar.

Hér er að mati okkar flm., Péturs Sigurðssonar og mín, ekki um sama málið að ræða heldur fjarri því að svo sé. Það mætti kannske segja að það væri skylt mál en fjarri því að það sé sama málið.

Till. okkar fjallar um könnun á launum og lífskjörum á Íslandi og í nálægum löndum, eins og það heitir í fyrirsögn. Það má kannske segja að það sé rétt hjá 10. landsk. þm. að hér er farið fram á vissa könnun sem á að taka til nálægra landa — vitanlega eru Norðurlöndin nálæg, það er alveg hárrétt. Till. Tómasar Árnasonar fjallaði eingöngu um þau fjögur Norðurlönd sem hér um ræðir. Till. okkar Péturs Sigurðssonar, eins og fram kemur í grg., fjallar um öll OECD-löndin sem eru öll Evrópuríkin, Bandaríkin, Kanada og þar að auki Japan.

En það er vitanlega ekki aðalmálið. Þetta er ekki annað en aukaatriði. Aðalatriðið í þessu efni er vitanlega það hvert er markmið með þessari till. okkar Péturs Sigurðssonar á þskj. 467. Það kemur raunar ekki fram fyrr en í lok till. Markmið till. okkar Péturs Sigurðssonar er nefnilega að kanna hverjar orsakir þess eru að laun og lífskjör eru talin — það er að vísu efni sem þarf að staðreyna skv. till. — eru talin lakari á Íslandi en í nálægum löndum — hverjar eru orsakir þess. Það er vitanlega kjarni málsins. Það er verið að leita að þeim ástæðum að þjóð, sem er með einna hæstar þjóðartekjur í veröldinni, er ekki betur í stakk búin í sínum efnahagsmálum, og hefur ekki verið áratugum saman, en svo að ástandið er slíkt í launamálum að við greiðum hér óeðlilega lág laun fyrir vinnuframlag manna. Þetta er vitanlega markmið, þungamiðja og kjarni till. okkar.

Á þetta er hins vegar ekki minnst í till. Tómasar Árnasonar o.fl. á þskj. 117. Þar er aðeins farið fram á samanburð, hlutlægan samanburð, á launum og lífskjörum launafólks á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum, eins og það heitir orðrétt. Það er út af fyrir sig ágætt og fróðlegt að fá þann samanburð enda studdi ég þá till. og skrifaði upp á hana með Tómasi að hans beiðni. En hér fáum við aðeins samanburðinn, tölulegan samanburð. Við fáum ekkert að vita um það, sem er meginefni hinnar till., hverjar eru orsakir þeirra lágu launa sem við búum við á þessu landi.

Ég held að það sé alveg ástæðulaust, herra forseti, að fjölyrða frekar um þetta mál. Ég vona að ég hafi getað gert hv. 10. landsk. þm. það skiljanlegt hvert er efni till. okkar og jafnframt að ef till. hefði verið lesin í heild þá hefði það ekki átt að dyljast neinum manni. En það er nú því miður svo að hér hefur eitt atriði verið gripið úr till. en aðalatriðinu gjörsamlega sleppt í ummælum hv. þm. hér á fimmtudaginn var. Ég segi ekki að það hafi verið viljandi gert. Menn lesa oft þskj. í flaustri og menn eru að flýta sér. Ég tel ekki að það hafi legið neinar slæmar hvatir á bak við þessa athugasemd hv. þm. en vildi engu að síður láta það koma fram sem ég hef hér sagt.