13.02.1985
Efri deild: 43. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2878 í B-deild Alþingistíðinda. (2362)

285. mál, verslun ríkisins með áfengi

Flm. (Karl Steinar Guðnason):

Virðulegi forseti. Það er ekki viðamikið frv. sem hér er á ferðinni, en það gerir ráð fyrir að aflétt verði einokun á vindlingapappír og eldspýtum. Við félagarnir sem flytjum þetta frv. flytjum það í fyrsta lagi til að afnema þessa einokun og í öðru lagi til að sýna fram á hversu allt er morandi í hvers konar forneskju í viðskiptaháttum hér á Íslandi og að þörf sé á að taka til hendi í þeim efnum.

Í grg., sem við látum fylgja frv., segir:

„Með lögum nr. 63/1969 er ríkisstj. einnig heimilt að flytja inn frá útlöndum áfengi, tóbak, vindlingapappír og eldspýtur.

Lög þessi hljóta að koma öðru hverju til endurskoðunar í ljósi breyttra aðstæðna. M.a. mætti athuga hvort hagræðing væri í því fólgin að taka sérskatta ríkisins á áfengi og tóbaki með tolli í stað þess að reka umfangsmikið verslunarfyrirtæki með þessar vörur. Það mál þarfnast ítarlegrar skoðunar.“

Þar með erum við ekki að leggja til sérstakar breytingar aðrar en að það þurfi að endurskoða þessa þætti með það í huga að koma á hagræðingu. Við teljum mjög vafasamt að nauðsynlegt sé að ríkið reki umfangsmikið verslunarfyrirtæki með þessar vörur, eins og reyndar með aðrar vörur líka.

Hér er gerð till. um þá breytingu eina að einkaréttur ríkisins til innflutnings á vindlingapappír og eldspýtum falli niður.

Einkasala á eldspýtum er fyrirbæri sem blómstraði á árunum milli heimsstyrjaldanna, m.a. með tilstuðlan sænska eldspýtnakóngsins Ivars Kreuger sem útvegaði fjárþurfa ríkisstjórnum lán gegn einokunarleyfi á eldspýtnasölu. Það fór illa fyrir Ivari þessum og dó hann í París árið 1933, og með honum dó hugmyndin um einokun á eldspýtnasölu út á næstu áratugum — nema hér. Á sama tíma og innflutningur og sala á hvers kyns eldfærum, eins og kveikjurum t.d.; er frjáls búum við enn við einokun á eldspýtnasölu sem leitt hefur til þess að hér eru oft og tíðum eingöngu afleitar eldspýtur til sölu. Sama gildir um vindlingapappír. Engin ástæða er til að einoka innflutning og sölu á svo lítilfjörlegri vörutegund. Því er lagt til að þessi einokun verði nú afnumin.

Ég legg til að frv. verði vísað til fjh.- og viðskn. að lokinni umr.