18.02.1985
Efri deild: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2983 í B-deild Alþingistíðinda. (2460)

309. mál, atvinnuleysistryggingar

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Það var spurt hér áðan um upphæðir atvinnuleysisbóta. Ég er hér með kauptaxta frá Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur sem greinir frá því hvert kaupið í fiskvinnslunni er. Menn sem standa því fjarri átta sig ekki alveg á því alltaf hversu lágar tölur þetta eru. Kaup fiskvinnslufólks á fyrsta ári í fiski er 73,11 á tímann og það sinnum 8. Þetta eru ekki hærri upphæðir sem þarna er átt við.

Ég vil taka undir margt það sem hv. síðasti ræðumaður sagði og einkum varðandi þann áróður Græningja eða Greenpeace-manna að hverfa frá hvaladrápi sem ég tel og taldi mjög óráðlegt á sínum tíma. Maður veltir því fyrir sér hvenær koma upp hópar sem hafa sérstaka samúð með þorskinum og ýsunni og hvenær okkur Íslendingum verði bannað að veiða þær tegundir.

Ég held að það atvinnuleysi, sem nú gerir vart við sig, eigi sér fleiri orsakir en aðeins í aflabresti. Það er reyndar spurning hvort eigi að tala um aflabrest því að ef við lítum á tölur undanfarinna ára hefur ekki svo miklu minna fiskast á síðasta ári en árið þar á undan. Ég minni á það líka að á þeim tíma, þegar fiskgengdin var hvað mest og Íslendingar öfluðu allra mest, var tap á sjávarútveginum. Þá var þannig komið málum og þannig staðið að verki af hálfu stjórnvalda að útgerðin var rekin með tapi. Menn sjá því að það er ekki endilega aflabrestur sem gerir það að verkum að erfiðleikar eru í þessum útvegi, sérstaklega hjá þeim sem eru atvinnulausir og líka hjá sjávarútvegsfyrirtækjunum.

Á laugardaginn var var haldinn fjölmennur fundur suður í Keflavík þar sem kom saman fiskverkunarfólk, sjómenn, útvegsmenn og vinnuveitendur og málin voru rædd á öðrum grundvelli en oft gerist um þessi mál. Sannleikurinn er sá að fólkið, sem er næst þessum útvegi, skilur betur erfiðleikana, skilur betur hvernig málin standa en margur annar og vill gjarnan ræða það hvernig megi úr bæta. Í ályktun, sem sá fundur samþykkti, er vikið að því hvers vegna þessir erfiðleikar eru svo miklir sem raun ber,vitni, en þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Gengisstefna stjórnvalda hefur um langt árabil verið fjandsamleg'sjávarúfvegi og orðið til þess að flytja gífurlega fjármuni frá sjávarútvegi til innflutnings, verslunar og þjónustu, sem kemur fram í mikilli þenslu á Reykjavíkursvæðinu. Það er grundvallarforsenda heilbrigðs rekstrar í sjávarúfvegi að þessari gengisstefnu verði breytt og gengi erlendra gjaldmiðla verði rétt skráð.“

Þetta er einn þátturinn í þessum vanda. Það er vikið að mörgu öðru í þessari ályktun sem mun verða birt á næstunni. Þar segir t.d. :

„Fundurinn mótmælir vaxtaokri sem á sér stað í landinu, bæði hjá útgerð, fiskvinnslu og launþegum. Bendir fundurinn á að vaxtakostnaður hjá sjávarútvegsfyrirtækjum er í mörgum tilfellum jafnhár og launakostnaður fyrirtækjanna.“

Þegar svo er komið er ekki undarlegt að víða séu erfiðleikar á ferðinni.

Það var vikið hér að gámavæðingu og útflutningi fiskjar í gámum. Það verður að viðurkennast að ekki sé ég alveg fyrir mér hvernig taka skuli á því máli. Þarna á sér stað tæknivæðing, þróun sem verkalýðsfélögin sjá ekki ástæðu til að stöðva. Það væri líka óskynsamlegt að gera það. Hins vegar hef ég bent á að menn skyldu flýta sér hægt í þessum efnum, vegna þess að eftir situr fólk atvinnulaust og skv. mínum skilningi á fólkið í landinu fiskinn. Fólkið á rétt á atvinnu. En við eigum heldur ekki að bregðast við vandanum með því að spyrna gegn framförum. En við verðum að gá að okkur að því leyti til að atvinnutækifærin séu ekki tekin af fólki á einu bretti á meðan annað hefur ekki komið í staðinn.