19.02.1985
Sameinað þing: 50. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3039 í B-deild Alþingistíðinda. (2512)

276. mál, veiði á smokkfiski

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég tel það alrangt að aflastjórnun hafi komið í veg fyrir veiði á smokkfiski. Það liggur fyrir að margir þeir bátar sem stunduðu þessar veiðar höfðu ekki önnur verkefni, m.a. vegna þess að þeir voru búnir að veiða upp í þá kvóta sem þeir höfðu. Og ég hef ekki orðið var við það að kapp smábátanna í sameiginlegum kvóta hafi á nokkur hátt hamlað veiðunum. Ég held að það sé allt annað sem hefur takmarkað veiðina, þ.e. móttökugeta frystihúsanna. Það var takmarkað magn sem húsin gátu tekið á móti og geymslur fylltust. Og það var hætt að frysta smokkfisk áður en veiði þurfti að ljúka vegna þessara aðstæðna. Það liggur m.ö.o. fyrir að það var alls ekki skert veiðigeta á nokkurn hátt sem kom í veg fyrir það, heldur fyrst og fremst afkastageta og móttökugeta eða áhugi, ég skal ekki um það fullyrða, þeirra frystihúsa sem tóku við þessari afurð.

Varðandi þann togara sem hv. þm. minntist hér á þá er það rétt að leyfi var veitt fyrir einn togara. Það var vegna þess að það voru mjög mikil andmæli gegn því að togararnir færu í þetta verkefni og við tókum tillit til þess að því leytinu til að við töldum ekki rétt að nema eitt skip reyndi fyrir sér í upphafi til að sjá hvernig það mundi ganga. Satt best að segja voru þessi andmæli mjög harkaleg og það varð til þess að við veittum aðeins einu skipi leyfi. Það er rétt að það kom til tals að það skip sem hv. þm. nefndi hér færi einnig til þessara veiða. En úr því varð ekki, enda veit ég ekki betur en þeir hafi misst allan áhuga þegar þeir fréttu af því hvernig til tókst hjá hinum togaranum, sem var Elín Þorbjarnardóttir ef ég man rétt.