19.02.1985
Sameinað þing: 51. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3048 í B-deild Alþingistíðinda. (2529)

268. mál, mengunarvarnir í fiskimjölsverksmiðjum

Valdimar Indriðason:

Herra forseti. Ég vil í byrjun lýsa stuðningi mínum við till. til þál. um mengunarvarnir í fiskimjölsverksmiðjum. Mengun er gamalt og nýtt vandamál sem hefur skotið upp kollinum í þessum iðnaði okkar, en ekki hefur verið tekist á við það sem skyldi á undanförnum árum. Áður fyrr þótti gott að hafa „peningalykt“ og í mörgum byggðarlögum þótti sem það væri merki um grósku og hagsæld fólks ef fyndist nógu góð og mikil „peningalykt“, en tímarnir eru breyttir og menn fóru að gera kröfu til annars en þessarar góðu lyktar. Mér hefur alltaf fundist hún góð, en nútíminn æskir ekki eftir henni og því er hún orðin vandamál.

En það er fleira að athuga. Mengunarvarnir í fiskimjölsverksmiðjum er einnig stórfellt orkusparandi. Ég vil að þetta tvennt sé tengt saman. Ef við viljum losna við reykinn sem kemur úr verksmiðjunum — eitthvað verður kannske eftir af lykt — er hægt að beisla hann og nýta hann sem orkugjafa fyrir suðu og þurrkara í verksmiðjunum. Það liggja fyrir útreikningar á því að sennilega mætti koma olíueyðslu við að framleiða hvert hráefnistonn af loðnu niður í um 30 kg á móti 50 kg í dag í þeim verksmiðjum sem eru verst búnar. Hjá þeim sem skástar eru er eyðslan 40–45 kg, en 50 kg sjáum við dæmi um. Þarna sjáum við hve miklu er til kostað þegar við erum að vinna þessa afurð.

Annað er samhliða þessu sem við Íslendingar höfum ekki gert okkur ljóst og höfum vanrækt. Við erum orðnir langt á eftir þeim nágrannaþjóðum okkar sem eru sterkastar í þessum iðnaði, t.d. Norðmönnum og Dönum. Verksmiðjur okkar eru flestar hverjar orðnar mjög úreltar. Þessar þjóðir, t.d. Norðmenn, hafa lagt mikið fjármagn, auðvitað í gegnum styrkjastarfsemi í sjávarútvegi, í að endurbyggja verksmiðjur sínar og lagt mikið af mörkum til að taka upp nýjungar og endurbyggja. Það eru óþekkjanleg fyrirtæki frá því sem áður var. Þetta veldur því að þeir ná meiri og betri nýtingu út úr sínu hráefni og framleiða í flestum tilfellum auðseldari vöru.

Eitt er það mál sem mikið er á dagskrá í íslensku þjóðfélagi núna. Það er fiskeldi og fóður til fiskeldis. Þannig er það í dag að sennilega getur Krossanesverksmiðjan ein afgreitt það fóður eftir þeim kröfum sem gerðar eru um framleiðslu á fiskimjöli. Það byggist á því að mjöl í slíka starfsemi er ekki talið nógu gott ef það er unnið í svokölluðum eldþurrkurum. Það þarf að vinna í loft- eða gufuþurrkurum. Það er loftþurrkun í Krossanesi sem hefur gefist vel.

Þarna fæst einnig hærra próteininnihald í mjöli og meira verðmæti. Ef við getum tryggt á okkar mörkuðum, sem varan er seld á, að við getum skilað mjöli með 70–72% próteininnihaldi sem er mjög auðvelt við loftþurrkun, verður um verulega tekjuaukningu að ræða frá því að halda sig við 68%-samsetninguna sem er ríkjandi hér á markaði á þessari vöru. Ég er enga tölu með í þessu sambandi, en þarna getur munað verulega.

Ég bendi á þetta vegna þess að þarna fara saman mengunarvarnir og betri tækjabúnaður verksmiðjanna sem vinna okkar verðmæta hráefni. Ég held að það sé ekki ofsagt að ef okkur tekst að veiða það sem út af stendur núna af loðnukvótanum og ef þær deilur leysast sem eru uppi, þá verði framleidd um 130 þús. tonn af loðnumjöli. Hér er gert ráð fyrir rúmlega 16% nýtingu að meðaltali. Það getur hver reiknað það út fyrir sig hvað þetta gæfi ef við gefum selt þessa afurð með 3% hærra próteininnihaldi en hefur verið undanfarin ár.

En allt kostar þetta mikla peninga. Það skulum við gera okkur ljóst. Ég veit að SR á Siglufirði er núna að hefja endurbyggingu á verksmiðju sinni. Það verður verulega dýrt. Þess vegna skal á það bent að fjárfrekt fyrirtæki er að endurbyggja verksmiðjur okkar allt í kringum landið sem í loðnuvinnslunni eru. Kanna þarf vel leiðir til að ná í fjármagn til að byggja þetta upp á ákveðnum tíma. Með því mætti láta þessa atvinnugrein okkar skila þeim arði sem hún getur gert.

Við tölum um fullnýtingu í sjávarafla. Þarna er einmitt einn þátturinn sem er mjög vannýttur að mínum dómi. Við höfum alltaf skilist þannig við þessar verksmiðjur að þær hafa ekkert haft til að byggja sig upp í þeim mæli sem þyrfti að vera svo að þær gætu skilað því sem ætlast er til af þeim.

Ég held að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um málið. Ég er búinn að skýra nokkuð mín sjónarmið. Ég legg því til að þessi till. komist sem best áleiðis og verði studd og fundnar raunhæfar leiðir. Ég legg áherslu á að þarna er bæði um mengunarvarnir, sparnað á orku og hærra söluverð fyrir afurðir að ræða. Allt er þetta sami pakkinn, eins og sagt er nú til dags.