26.02.1985
Sameinað þing: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3198 í B-deild Alþingistíðinda. (2670)

263. mál, ullariðnaðurinn

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hans. Í máli hans var eindregið staðfest allt það sem ég hafði sagt hér í formálsorðum um stöðu þessara mála. Og mér þótti vænt um að hæstv. ráðh. skyldi taka undir það með mér að ekki væri um eðlilega þróun að ræða. Hann upplýsti okkur líka um að verðmæti ullarvara hefði á skömmum tíma aukist um 288%. Satt best að segja var í svari hans býsna fróðleg en að vísu tímafrek „prósentupassía“ en kannske minna um svör við spurningunni um það hvað rn. hygðist gera ef frá er talið það að styrkja landssamtök sauma- og prjónastofa um 300 þús. kr. til að rannsaka málið.

Ég hygg að þörf verði á snarpari viðbrögðum af hálfu hæstv. iðnrh. í þessu máli. Ég hygg að iðnrh. komist ekki undan því að tryggja það með einum eða öðrum hætti að forustuafl útflytjenda í þessari iðngrein, Álafoss, sæki ekki ávinning sinn af slíku ofurkappi að framleiðendur, þeir sem verðmætin skapa, verði skildir óvígir eftir og nái ekki vopnum sínum úr því. Ég er ekki að bera fram ásökun á hendur iðnrh. fyrir afskipti hans af þessum málum. En ég hygg að ef mikið dregst úr þessu að ákveðin og skýr stefna verði mörkuð til að koma í veg fyrir að ullariðnaðurinn verði að velli lagður hljóti menn að fara að brýna busana og reyna að koma einhverjum vörnum við. Það er því eindregin hvatning mín að lokum til hæstv. iðnrh. að hann láti þessi mál meira til sín taka.