26.02.1985
Sameinað þing: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3211 í B-deild Alþingistíðinda. (2685)

260. mál, útlán banka og sparisjóða

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Þetta er nokkuð merkileg umr. Hér er talað um bankaleynd. Um hvað fjallar bankaleynd? Hún er um það að gefa ekki upp upplýsingar um nafngreinda einstaklinga og fyrirtæki. Hér er ekki verið að spyrja um slíkt. Ég segi alveg eins og er að það er ómerkilegur fyrirsláttur þessara stofnana og þeirra lögfræðinga sem þær hafa í þjónustu sinni. Nú veit ég að lögfræðingar geta skrifað greinargerðir um hvað sem er fyrir hvern sem er og túlkað næstum því hvað sem er og hvaða skoðun sem er. Það hefur komið í ljós í verkföllum og kjaradeilum undanfarið. En mér finnst það ómerkilegur fyrirsláttur að bera fyrir sig bankaleynd um þessi efni. — Og hugtakið bankaleynd er að hverfa. Ég veit ekki betur en að t.d. í Sviss sé í auknum mæli farið að gefa upplýsingar úr bönkunum þar. Í síðasta hefti vikuritsins Time, sem liggur hérna frammi meðal tímaritanna sem þm. hafa aðgang að, er greint frá málaferlum gagnvart tveimur bandarískum bönkum, virðulegustu bönkunum þar í landi, tvö hundruð ára gömlum banka í Boston og Bank of America. Og hvernig komst það upp? M.a. vegna þess að stjórnmálamenn, blaðamenn o. fl. spurðu áleitinna spurninga sem bankarnir neyddust til að svara. Í landi viðskiptafrelsis og einstaklingshyggju dugði ekki bankaleyndin.

Hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagði hér áðan að þm. væru að kjósa þm. í bankaráð. Þm. ber engin skylda til að kjósa þm. í bankaráð. Ég vil vekja athygli hennar á því að sumir stjórnmálaflokkar, Alþfl. t.d., tilnefna ekki þm. til setu í bankaráðum. Þessu eiga flokkarnir að breyta. Til hvers er verið að kjósa bankaráð hér á Alþingi ef ekki fást gefnar jafneinfaldar upplýsingar og hér er óskað eftir? Ég held að það hljóti þá að koma verulega til athugunar að Alþingi hætti — (Forseti hringir.) Ég er að ljúka máli mínu, herra forseti. — að hafa afskipti af því að kjósa bankaráð. Til hvers er verið að kjósa bankaráð ef bankaráðsmenn eiga ekki að vera trúnaðarmenn Alþingis í þessum stofnunum og geta veitt Alþingi upplýsingar? Ég spyr. Það er einhver önnur hagsmunagæsla sem þessum mönnum er þá ætlað að inna af hendi ef þeir eru ekki þar til að afla upplýsinga fyrir Alþingi þegar þm. óska upplýsinga eins og hér er óskað eftir.

Ég held að þetta mál sé öllu alvarlegra en að hægt sé að ræða það til hlítar á þeim stutta tíma sem er hér til umræðu.