26.02.1985
Sameinað þing: 54. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3237 í B-deild Alþingistíðinda. (2718)

251. mál, fullvinnsla sjávarafla

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Það er ástæða til að þakka Guðmundi J. Guðmundssyni fyrir að hafa flutt hér inn á hv. Alþingi till. um fullvinnslu og betri nýtingu sjávarafla. Hann hélt hér áðan það skilmerkilega ræðu um þann vettvang að þar verður varla miklu bætt við. Ég vil taka undir flest af því sem hann sagði þar og benti á. En hinu er ekki að leyna að mikið af því sem þar var sagt verður vitaskuld draumsýn ef umræðan í þjóðfélaginu gengur út á það að þeirri fjárfestingarstefnu verði haldið fram sem hefur verið haldið fram á undanförnum árum. Ef það þykir sjálfsagt að fiskiskipaflotinn haldi áfram að eldast eins og gerst hefur á undanförnum árum, það hefur verið bann í gildi við því að byggja megi nýtt fiskiskip, ef fiskiskipaflotinn á að vera eins og nú er, 20, 30 ára meginhluti bátaflotans, þá eru ekki miklar líkur fyrir því að við finnum fyrir framþróunarmöguleikum á öðrum sviðum sjávarútvegs. Það þarf að eiga sér stað allsherjar breyting á skoðunum manna gagnvart þessum frumatvinnuvegi okkar og þá er ég ekki í nemum vafa um það að við getum fylgt því eftir sem Guðmundur nefndi hér áðan, að hægt væri að auka gjaldeyristekjur okkar á næstu fimm árum af þessum afla um þriðjung.

Það mætti svo sem aðeins undirstrika það, sem hv. þm. Ólafur Þórðarson nefndi hér áðan, hver þróunin hefur orðið í atvinnutækifærum hér á landi á síðustu tuttugu árum. Svo sem upplýst er í Morgunblaðinu hefur mannaflaaukning í bönkum og opinberri þjónustu verið um 230% á sama tíma og mannaflaaukning í fiskvinnslu og sjávarútvegi stendur næstum í stað ef frá er talin hlutfallsaukning vegna fólksfjölgunar í landinu.

Ef við gerum okkur grein fyrir því að þessi hópur, sjávarútvegshópurinn, skilar enn í dag raunverulega sömu verðmætum að landi, hann stendur undir þessu sama þjóðarbúi áfram á nákvæmlega sama máta og hann gerði fyrir 20 árum, sami fjöldinn heldur uppi þessari 230% aukningu á mannafla til þjónustugreinanna, ef við litum á hlutfallið þarna á milli gerðum við okkur grein fyrir því hvað sjávarútvegshópurinn hefði mátt fá mikla kauphækkun núna þegar fiskveiðiflotinn er bundinn við bryggju vegna verkfalls. Ef það væri í hlutfalli við þá aukningu sem hann stendur undir í dag þá væru það ekki nein 30 eða 35 þús., það væru ábyggilega miklu hærri tölur. Og ég held að það sé gott að þingheimur geri sér ljóst að staðan er einmitt á þennan veg. Núna er nauðsynlegt að við gerum okkur grein fyrir því að við verðum að breyta um stefnu bæði gagnvart fiskvinnslufólki og þeim sem eru að byggja upp atvinnufyrirtæki í sjávarútvegi. Það verður að skapa þar ný atvinnutækifæri og það þarf að hækka kaup þess fólks sem vinnur við þetta.

Flm. bendir á í grg. og í ræðu sinni ýmsa möguleika í sambandi við aukningu og nýtingu sjávarafla, niðursuðu, fjölbreytileik í pökkun og ýmsa úrvinnslu. Það eru ótalmargir möguleikar þar og ég mun ekki tíunda það frekar. Við höfum ekki enn þá notfært okkur þá sérstöðu sem við höfum umfram aðra nema að mjög litlu leyti. En sú sérstaða byggist fyrst og fremst á því að við höfum jafnan úrvalshráefni, besta hráefni sjálfsagt sem er á boðstólum hér á norðanverðu Atlantshafi, í framleiðsluna.

Eitt af því sem hv. flm. bendir á í till. er að auknu fjármagni verði beint til þessa verkefnis. Sú hefur verið tilhneigingin í fiskvinnslunni hjá okkur að koma hráefninu sem fyrst gegnum vinnslu og þá oftast í verðminni vöru til útflutnings. Það hefur oft verið furðulegt að horfa á hve mikið af góðum fiski, eins og flm. benti reyndar á, hefur verið hengt upp í skreið þótt verkun á annan máta, t.d. söltun eða frysting, gæfi mun meira fyrir vöruna fullverkaða til útflutnings. Ég tel að hér sé oft um að kenna peningaleysi til framleiðslu þegar um kostnaðarsamari vinnslu hefur verið að ræða. Sama mun eiga sér stað ef farið er út í frekari fullvinnslu.

Ég kom fyrst og fremst hingað upp til að segja frá því að á undanförnum mánuðum, eða undanförnum misserum kannske réttara sagt, hefur fjölbreytni í pakkningum á útfluttum sjávarafurðum aukist mjög. M.a.s. er farið að framleiða í pundspakkninguna sem flm. nefndi hér að væri lítið um á Ameríkumarkaði og ýmsar aðrar pakkningar sem bjóða viðskiptamönnum fjölbreyttari vöru á mörkuðunum. Það mun hafa komið ítrekað fyrir að erfiðlega hafi gengið að fá slíka framþróun viðurkennda hjá lánastofnunum. Framleiðendur hafa því orðið að framleiða slíka vöru án þess að fá tilskilin afurðalán. Ég tel því að einn af aðalorsakavöldum þess að frekari framþróun hefur ekki átt sér stað hér hjá okkur í nýtingu sjávaraflans til nýrra vörutegunda hafi verið það hvað bankakerfið á Íslandi hefur verið stirt. Þegar um nýjungar hefur verið að ræða hefur iðulega þurft að bíða eftir afgreiðslu þeirra mánuðum saman. Ég er einmitt að undirstrika það með því að koma hér upp núna að ég tel það kannske aðalatriðið í till. Guðmundar J. Guðmundssonar að það þarf að veita aukafjármagn til þessarar þróunar. Og ef það verður gert á heilbrigðan og eðlilegan máta um leið og menn leggja fram sín gögn þá hef ég mikla frú á því að um framþróun verði að ræða á þessu sviði.