27.02.1985
Efri deild: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3358 í B-deild Alþingistíðinda. (2740)

61. mál, átak í dagvistunarmálum

Frsm. meiri hl. (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég ætla að minnast á örfá atriði sem hafa komið fram við þessa umr.

Það hefur verið rætt hér um samskipti ríkis og sveitarfélaga varðandi byggingu dagvistarheimila. Það er rétt, sem kom fram hjá hv. 3. þm. Norðurl. v., að sveitarfélögin hafa frumkvæðið í því samstarfi. Þaðan koma upplýsingar um þörfina fyrir dagvistarrými og byggingu dagvistarheimila þegar að sveitarfélögin vilja ráðast í slíkar framkvæmdir.

Hv. flm. frv. lét að því liggja í ræðu sinni að oft skorti pólitískan vilja í sveitarfélögum til að ráðast í byggingu dagheimila fyrir börn. Ég held að þetta sé orðum aukið. Jafnvel þó að slíkt geti komið fyrir vil ég fullyrða að á það er mikill þrýstingur innan sveitarfélaganna að ráðast í slíkar byggingar. Þörfin er brýn á aðgerðum á þessu sviði. Ég held að pólitískur ágreiningur sé ekki þar til trafala nema í undantekningartilfellum.

Ég vil undirstrika það, sem kemur fram í nál. meiri hl. n., að meiri hl. n. álítur að taka þurfi dagvistarmálum barna rækilegt tak, fylgjast vel með þeirri þörf sem fyrir hendi er í þjóðfélaginu á því sviði og miða að því að fullnægja þörf fyrir dagvistarrými. Ég undirstrika sérstaklega að ágreiningur er ekki milli nm. í því efni.

Það að taka mið af þörf fyrir dagvistarrými í þjóðfélaginu þýðir ekki að þar sé í öllum tilfellum hægt að mæta ýtrustu óskum. Það hefur orðið að skera niður við afgreiðslu fjárlaga framlög til mjög góðra mála, bæði þessara og annarra. Eigi að síður er nauðsynlegt að fram komi vilji þm. í þessu efni og gengið sé eins langt í þessum málum og mögulegt er.

Hitt er svo annað mál, og það hefur komið fram við þessa umr., að þorri þm. telur óeðlilegt að lögbinda framlög til dagvistarmála og hengja þau aftan í útgjöld fjárlaga vegna þess að útgjöld þeirra sveiflast bæði til hækkunar og lækkunar. Auðvitað getur þörfin verið breytileg frá ári til árs, e.t.v. vegna þjóðfélagsbreytinga. Kannske kemur einhvern tíma sá dagur að sveigjanlegur vinnutími fólks verði til þess að önnur hvor fyrirvinna fjölskyldunnar geti verið meira á heimili sínu. Kannske dregur batnandi afkoma fólks úr þörf fyrir dagvistarrými. Vonandi kemur sá dagur þó að ég vilji engu spá í þessu efni. En þörfin er mikil nú. Ég vil ekki draga úr því.

Að lokum vil ég geta þess í sambandi við samstarf ríkis og sveitarfélaga að þessum málum að ég get vel tekið undir það sjónarmið að þessi málaflokkur eigi að færast yfir til sveitarfélaganna, en ég undirstrika, sem fram hefur komið hér, að það er algerlega þýðingarlaust að færa þennan málaflokk yfir til sveitarfélaganna nema þau fái tekjustofna til að sinna þessum málum svo í lagi sé.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umr. meira. Ég vildi aðeins undirstrika þessi atriði áður en umr. lýkur.