11.03.1985
Neðri deild: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3444 í B-deild Alþingistíðinda. (2787)

5. mál, útvarpslög

Frsm. 3. minni hl. (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að mæla hér fyrir nál. 3. minni hl. menntmn. á þskj. 522 og brtt. við frv. til útvarpslaga á þskj. 518.

Frv. til útvarpslaga var lagt fram á Alþingi í þingbyrjun, í annarri viku októbermánaðar.

Í frv. sagði að ný útvarpslög skyldu öðlast gildi 1. nóvember 1984. Þannig voru Alþingi ætlaðar röskar tvær vikur til að ræða og afgreiða þetta flókna mál. Slík vinnubrögð af hálfu hæstv. ráðh. munu nánast einsdæmi. Öllum var auðvitað ljóst að þessi dagsetning, þetta skamma ráðrúm, dugði hvergi nærri til þess að málið gæti fengið eðlilega umfjöllun á Alþingi. Er það raunar skoðun 3. minni hl. menntmn. að þetta mál sé þess eðlis að það sé með öllu óverjandi að hraða því svo sem að var stefnt og að mörg atriði þyrfti að ræða og fjalla um frekar ef tími hefði unnist til í nefnd. Má þar sem dæmi nefna að meiri hl. n. viðurkennir að núverandi innheimtufyrirkomulag afnotagjalda Ríkisútvarpsins er ekki lengur nothæft. Samt flytur meiri hl. ekki brtt. við þann kafla frv. sem fjallar um innheimtu afnotagjalda en boðar slíka tillögugerð á síðari stigum málsins.

3. minni hl. n. telur að frv. ríkisstj., eins og það var lagt fram, sé í mörgu ábótavant, enda er komið á þriðja ár síðan frv. var samið og margt hefur síðan breyst í þessum efnum. Fjölmargir aðilar hafa sent menntmn. umsagnir og ábendingar og margt athyglisvert hefur komið fram í umfjöllun n. um frv., en fæst af þessu hefur meiri hl. n. fallist á að gera brtt. um.

Það er skoðun þm. Alþfl. að veigamiklar breytingar þurfi að gera á frv. þar sem það sé í ýmsum atriðum gallað og enn fremur sé rétt að koma til móts við fjölmargar skynsamlegar ábendingar sem er að finna í umsögnum sem nefndinni hafa borist. T:I þess að gefa aðeins til kynna hvers eðlis þessar ábendingar hafa verið, sem fram hafa komið ýmist í nál. eða í munnlegum umsögnum umsagnaraðila sem nefndin kvaddi á sinn fund, vil ég nefna nokkur atriði.

Fyrsta spurningin, sem kæmi til álita, var t.d. um eignarrétt á boðveitukerfum eða kapalkerfum. Um það var talsvert rætt við 1. umr. málsins hvort menn skyldu taka upp það sem kallað hefur verið svonefnd „common carrier“ regla, greina í milli annars vegar eignarréttar á veitukerfunum sjálfum og hins vegar þeirra útvarpsfélaga sem kynnu að æskja leyfis til að reka stöðvar og annast dagskrárgerð.

Dæmi um önnur álitamál er t.d. hvernig rétt sé að skipa útvarpsréttarnefnd. Kæmi til álita að gefa hlustendafélögum aðild að henni eða fulltrúum starfsmannaráða með málfrelsi og tillögurétti?

Annað dæmi er um áfrýjunarrétt, þ.e. ef útvarpsréttarnefnd synjar um leyfi eða í tilviki leyfissviptingar eða vegna kæru um brot einkastöðva á skilyrðum fyrir leyfisveitingu, hvernig þá skuli meðhöndla málið, til hvaða aðila ætti að skjóta slíkum ágreiningsefnum til endanlegs úrskurðar.

Eitt álitamálið er um varðveisluskyldu efnis, hvort ekki þurfi að tiltaka lágmarkstíma sem einkastöðvum væri skylt að geyma spólur með útsendu efni öðru en fréttaefni á handritsblöðum.

Enn eitt álitamál kom til umfjöllunar í nefndinni skv. ábendingum reyndra fréttamanna. Það var um þá vinnureglu t.d. einkastöðva í Bandaríkjunum sem kennd er við svokallaðan „delay time“, m.ö.o. að stöðvunum er gert skylt að láta líða nokkurn tíma í beinni útsendingu. Þetta er út af fyrir sig tæknilegt atriði sem gerir það að verkum að hægt verður að bregðast við í beinni útsendingu ef þörf krefur.

Ein ábending frá Félagi fréttamanna var hvort rétt væri að lögbinda reglur um fréttaflutning og gerð auglýsinga, sbr. athugasemdir Ólafs Sigurðssonar fréttamanns í bréfi frá Félagi fréttamanna.

Enn eitt álitamálið er að því er varðar auglýsingar, hvort þær skuli að öllu leyti vera frjálsar, að einhverju leyti takmarkaðar eða hvort rétt sé að útvarpsréttarnefnd kveði eitthvað á um auglýsingataxta.

Enn eitt álitamál er hvort setja eigi ákvæði um bann við fjármögnun á dagskrárefni frá fjársterkum aðilum, sbr. athugasemd frá Félagi blaðamanna sem víkur að því sem kallað er „sponsorship“, þ.e. að fjársterkir aðilar kaupi sér dagskrárefni í auglýsingaskyni.

Verulegt álitamál lýtur að fjármálum Ríkisútvarpsins, ekki aðeins að því hvort fella eigi niður sérstök afnotagjöld og taka upp nefskatt, eins og við leggjum til, heldur ýmislegt fleira í því samhengi. Í athugasemdum og ábendingum var komið á framfæri hugmyndum um að taka beri sérstakt leyfisgjald af stöðvum eða taka upp menningarsjóðsgjald svo sem tillögur meiri hl. lúta að. Ein ábendingin var sú að rétt væri að taka upp ákvæði um tryggingarfé t.d. vegna hugsanlegrar skaðabótaskyldu, meiðyrða eða brota á almennum starfsreglum. Álitamál er með hverjum hætti stöðvarnar eru að öðru leyti jafnar fyrir skattlagningu, hvort rétt sé að leggja sérstakt gjald á erlent efni í þágu innlendrar dagskrárgerðar.

Eitt atriði, sem rétt þótti að taka afstöðu til, var ákvæði um innlend hlustendafélög og þátt þeirra við eftirlit með eða gagnrýni á útvarpsefni. Erindi bárust frá fulltrúum íslenskra fjarskiptaverkfræðinga þar sem þeir færðu rök að því að nauðsynlegt væri að innlendur iðnaður fengi rýmri aðlögunartíma. Töldu þeir það vera að lágmarki tvö ár og vitnuðu til reynslu annarra þjóða í því efni.

Enn eitt álitamálið var hvort ekki bæri að taka upp ákvæði um skyldur einkastöðva gagnvart almannaþjónustu, svo sem eins og almannavörnum, veður- eða öryggisþjónustu, hvort ekki bæri að hafa ákvæði um hámarkshlutfall erlends efnis í dagskrárgerð, gildistökuákvæði, hvort nauðsynlegt væri að hafa lengri aðlögunartíma. Talsvert mikil umræða fór fram um skilyrði fyrir leyfisveitingum einkastöðva. Þar kom m.a. fram sú ábending að rétt væri að slík félög væru opin félög og jafnvel með lágmarksaðild hlustendafélaga. Eitt álitamálið var hvort rétt væri að skylda einkastöðvar til að bera fyrir sitt leyti ákveðinn hluta af gjaldtöku eða skattlagningu vegna reksturs Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Ábending kom fram frá tæknimönnum um nauðsyn þess að taka upp öflugra gæðaeftirlit, sem þyrfti að vera óháð Pósti og síma, að því er varðar innflutning eða framleiðslu á tækjabúnaði. Tillögur komu fram um lagaskyldu að því er varðar fræðsluútvarp og skyldu útvarps- og sjónvarpsstöðva vegna námskeiðalhalds í dagskrárgerð og vegna fræðsluútvarps.

Veruleg umræða fór fram um hlutverk útvarpsréttarnefndar, hvort rétt væri að setja reglur fyrir fram um meðhöndlun á kærum, hvort rétt væri að setja strangari ákvæði um eftirlit en nú er í útvarpslagafrv. skv. þeirri ábendingu blaðamanna að nú væru ákvæði í prentrétti sem settu blöðunum strangari skyldur í þessum efnum, hvort lengra skyldi ganga í því að kveða á um það í lögum eða reglugerð að skoðanahópar hafi jafnan tíma eða rétt til jafns tíma í sambandi við umræður um ýmis álitamál. Þetta styðst við þekkta reynslu frá Bandaríkjunum, svokölluð „equal time“ ákvæði sem þar eru nokkurn veginn algild.

Þá komu fram ábendingar frá blaðamönnum og starfsmönnum fjölmiðla um nauðsyn ákvæða sem tryggðu sjálfstæði dagskrárgerðarmanna gagnvart eigendum með hliðsjón af siðareglum blaðamanna. Ábendingar komu fram um nauðsyn þess að hafa ákvæði um svokallaðan andmælarétt og þá vísað til reglna úr prentrétti um rétt einstaklinga til þess að fá birtar leiðréttingar samdægurs ef þeir eru bornir sökum í ríkisfjölmiðlum, eins og ágætt dæmi var um hér nýlega í ríkisfjölmiðli. Ábendingar komu um ákvæði um viðurlög við leyfisbrotum og þannig mætti lengi telja.

Sannleikurinn er sá að hér er yfirleitt hreyft athugasemdum og tillögum sem styðjast ýmist við lög eða reglur eða starfsvenjur við slíkan rekstur með öðrum þjóðum. Það er ákaflega miður að umræða um þetta var ákaflega takmörkuð í nefndinni sem og hitt að niðurstöður meiri hl. voru þær að vísa flestum af þessum ábendingum á bug.

Ég mun ekki ræða það frekar. Þetta nægir til að sýna fram á að frv. í sinni upphaflegu mynd þarfnaðist mjög rækilegrar umfjöllunar. Að svo mæltu mun ég snúa mér að því að gera grein fyrir þeim brtt. sem við leggjum hér fram, en þær eru ítarlegastar þeirra sem fyrir liggja í þessu máli.

Í fyrsta lagi leggjum við til að kaflaskiptingu frv. verði breytt. Við teljum okkar till. að kaflaskiptingu eðlilegri og skýrari en sú kaflaskipting sem er í frv. ríkisstj. Skv. brtt. 3. minni hl. n. skal kaflaskipting frv. vera sem hér segir:

I. kafli. Réttur til útvarps. II. kafli. Ríkisútvarpið. III. kafli. Staðbundið útvarp. IV. kafli. Útvarpsréttarnefnd og útvarpsfélög. V. kafli. Endurvarp og dreifing dagskrárefnis frá innlendum og erlendum sendistöðvum. VI. kafli. Ábyrgð á útvarpsefni. VII. kafli. Ýmis ákvæði.

Brtt. 3. minni hl. er að finna á þskj. 518. Ég mun ekki gera grein fyrir öllum þessum brtt. heldur eingöngu þeim sem við teljum þýðingarmestar og þá einnig vekja athygli á helstu nýmælum:

1. Lagt er til að inn í frv. komi nýtt ákvæði um boðveitur sveitarfélaga. Ábendingar um það efni hafa borist bæði frá Sambandi ísl. sveitarfélaga og Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Boðveitur á vegum sveitarfélaga eru ýmist þegar staðreynd eða í uppbyggingu í mörgum nágrannalöndum okkar. Um slíkar veitur er flutt efni af mörgu tagi. Má þar til nefna hljóðvarpsdagskrár, sjónvarpsdagskrár og svokölluð skjárit eða „videotex“. Enn fremur eru slíkar boðveitur notaðar til að flytja tölvuboð. Boðveitur eru því bæði notaðar til fjölmiðlunar og til einstaklingsbundinnar boðmiðlunar í formi tölvuboðmerkja.

Upphaflega voru þessar boðveitur háðar þráðum, þær voru kapalkerfi. Tilkoma glertrefjaþráða, sem nú standast fyllilega samkeppni við venjulega kapla hvað snertir verð, hefur valdið byltingu á þessu sviði og önnur nýtilkomin nýjung mun einnig valda miklum breytingum á þessu sviði. Sú nýjung er að komið er fram á sjónarsviðið þráðlaust kerfi þar sem nota má um 12 sm bylgjulengd og hægt er að flytja margar rásir samtímis á afmörkuðu svæði fyrir tiltölulega lágt verð.

Gert er ráð fyrir því í okkar tillögum að boðveitur lúti hver um sig sérstakri stjórn sem eingöngu sjái um rekstur hennar en hafi ekkert með dagskrárgerð að gera eða útsendingu efnis. Að mati 3. minni hl. er hér um að ræða þriðja meginatriðið, nefnilega að glögg skil séu gerð milli annars vegar dreifikerfisins og hins vegar þess aðila sem leggur til innihaldið, þ.e. sjálfa dagskrána. Fjölmargir aðilar, útvarpsfélög og einstaklingar, eiga þannig aðgang að einu sendikerfi sem er undir stjórn annars aðila. Allir, sem uppfylla sett skilyrði, eiga aðgang að boðveitunni. Þetta fyrirkomulag þýðir að boðveitan er í rauninni öllum opin. Hún er það sem á ensku máli er nefnt „eommon carrier“ sem er grundvallarregla varðandi framtíðarþróun þessara mála í grannlöndum okkar.

Ekki er gert ráð fyrir því að þeir aðilar, sem senda út efni í boðveitukerfi, geti aflað sér tekna með auglýsingum þar sem þeir eiga auðvelt með að innheimta afnotagjöld.

Ákvæðin um boðveitur sveitarfélaga eiga að tryggja að öllum almenningi nýtist kostir hinna nýju fjölmiðlunartækni. Þau eiga að tryggja að ekki taki við einokun einkaaðila af einokun Ríkisútvarpsins. Í þessum skilningi er þetta algert grundvallaratriði. Þau eiga að tryggja að ekki aðeins fjölgi þeim aðilum sem fást við útvarps- og sjónvarpsrekstur heldur aukist raunveruleg fjölbreytni að því er varðar dagskrárefni og áhorfendur og hlustendur hafi raunverulegt val. Tjáningarfrelsi eykst með þessu fyrirkomulagi og lýðræði fær betur notið sín. Í þessum skilningi er þetta grundvallaratriði þessa máls.

2. Því er slegið föstu í tillögum 3. minni hl. að Ríkisútvarpið skuli starfrækja fræðsluútvarp en ábendingar um þetta efni bárust m.a. frá Starfsmannafélagi Ríkisútvarpsins.

Upplýsingaþjóðfélagið er nú að leysa iðnaðarþjóðfélagið af hólmi og nám og menntun er ekki og verður ekki framvegis bundið við hið hefðbundna skólakerfi. Endurmenntun á miðjum aldri og á efri árum kemur til með að verða almenn regla í okkar þjóðfélagi á næstu árum. Þá er þess að geta að í skólabænum Akureyri er mikill áhugi á því að hefja tilraunastarfsemi á sviði fræðsluútvarps núna á næstunni og nýta í því sambandi þá aðstöðu sem Ríkisútvarpið hefur komið upp á Akureyri.

3. Lagt er til að tvær nýjar deildir, fræðsludeild, sbr. brtt., og tæknideild, verði starfræktar við Ríkisútvarpið. Ýmsir munu þeirrar skoðunar að óeðlilegt sé að binda deildaskiptingu stofnana í lög. Engu að síður er þetta lagt til hér til að leggja megináherslu á þessa skipulagsbreytingu.

4. Gerð er tillaga um að útvarpsstjóri verði skipaður til fimm ára í senn en ekki lagðar hömlur á endurráðningu hans ef hann reynist afburðamaður.

5. Þá er það nýmæli í tillögum 3. minni hl. að við Ríkisútvarpið starfi sérstaki starfsmannaráð og skal fulltrúi þess eiga sæti á fundum útvarpsráðs. Skal starfsmannaráðið vera ráðgefandi um málefni stofnunarinnar.

6. Lagt er til að núverandi fyrirkomulagi á innheimtu afnotagjalda verði gjörbreytt. Nefskattur verði tekinn upp í stað afnotagjalds. Eftir að heimilað var að skrá fleiri en eitt sjónvarpstæki á nafn sama einstaklings hafa ágallar núverandi kerfis komið skýrt í ljós. Kerfið er gloppótt og reyndar ónothæft að mati þeirra sem gerst til þekkja. Tillaga 3. minni hl. er sú að allir Íslendingar á aldrinum 20–70 ára, sem ekki eru sérstaklega undanþegnir, greiði útvarpsgjald enda njóta allir landsmenn þjónustu útvarpsins hvort sem þeir eru skráðir útvarpsnotendur eða ekki. Þetta er tillaga um verulegan sparnað í opinberum rekstri vegna þess að með henni má leggja niður núverandi innheimtukerfi. Margoft hafa verið gerðar tillögur um breytingar í þessum efnum en þær hafa hingað til ekki náð fram að ganga.

7. Gert er ráð fyrir að Framkvæmdasjóður Ríkisútvarpsins verði lagður niður en fjallað verði um fjárfestingar Ríkisútvarpsins á Alþingi á sama hátt og þar er fjallað um almennan rekstur þess.

8. Sérstakur kafli fjallar skv. okkar tillögum um staðbundið útvarp. Þar er í fyrsta lagi fjallað um útvarp sem fram fer um boðveitur sveitarfélaga. Þar gerum við greinarmun á útvarpi sem er óreglubundið og getur átt sér stað á vegum ýmissa aðila og hins vegar reglubundnu útvarpi á vegum viðurkenndra útvarpsfélaga sem afli sér tekna með afnotagjöldum. Í þriðja lagi er um að ræða reglubundið, staðbundið hljóðvarp sem útvarpsfélag rekur, sendir út efnið frá eigin sendistöð og aflar sér tekna með auglýsingum skv. nánari reglum.

9. Ítarleg ákvæði eru um útvarpsréttarnefnd, verksvið hennar og skipan. Þá eru greind skilyrði sem útvarpsfélag þarf að uppfylla til að hljóta viðurkenningu. Meðal þessara skilyrða má nefna:

— Félagið er skráð skv. ákvæðum hlutafélagalaga.

— Tilgreina skal ábyrgðarmann útsendinga.

— Setja skal fjártryggingu vegna ábyrgðar á útsendingum. Í brtt. okkar er gert ráð fyrir, miðað við verðlag í upphafi árs 1985, um 5 millj. kr. tryggingarfjárhæð.

— Félagið skuldbindi sig til að halda í heiðri almennar grundvallarreglur um lýðræði og tjáningarfrelsi, stuðla að almennri menningarþróun og efla íslenska tungu.

— Félagið kosti eitt gerð þeirrar dagskrár sem það sendir út og a.m.k. helmingur dagskrár sé byggður á innlendu efni.

— Upptökur af öllu útsendu efni verði geymdar í sex mánuði.

— Félagið skuldbindi sig til að hlíta úrskurðum útvarpsréttarnefndar og geri henni grein fyrir almennri dagskrárstefnu sinni.

— Félagið skuldbindi sig til að rjúfa dagskrá til að koma á framfæri tilkynningum er varða almannaheill og öryggi þjóðarinnar.

10. Sérstakur kafli í tillögum 3. minni hl. fjallar um endurvarp og dreifingu dagskrárefnis frá innlendum og erlendum stöðvum. Þar er í fyrsta lagi um að ræða móttöku eða sendingu efnis um gervihnött milli fastra stöðva. Í öðru lagi móttöku og dreifingu á dagskrám innlendra útvarpsfélaga þar sem gert er ráð fyrir að útvarpsréttarnefnd þurfi að samþykkja samtengingu staðbundinna stöðva. Í þriðja lagi er svo um að ræða móttöku og dreifingu á dagskrá sem send er um gervihnetti gagngert til beinnar móttöku hjá almenningi en bylting er að eiga sér stað í þessum efnum og munu Íslendingar eiga þar margra kosta völ áður en langt um líður. Enda þótt norrænt sjónvarpssamstarf í þessum efnum virðist um sinn hafa steytt á skeri getum við átt von á því að geta horft á útsendingar með völdu efni frá ýmsum löndum á svonefndri Evrópurás áður en langt um líður.

11. Ljóst er að gera þarf breytingar á fjarskiptalögum með breyttum útvarpslögum. 3. minni hl. telur að ný útvarpslög geti tekið gildi 1. desember 1985 hið fyrsta. Tæknilegur undirbúningur að útsendingum og dagskrárgerð fyrir staðbundnar útvarpsstöðvar hljóti að taka nokkurn tíma auk þess sem eðlilegt sé að gefa íslenskum fyrirtækjum, er framleiða rafeindatæki, tíma til aðlögunar þannig að þau eigi nokkra möguleika á að keppa við erlend fyrirtæki um gerð búnaðar fyrir útvarpsstöðvar.

Herra forseti. Þar með hef ég gert grein fyrir tíu meginþáttum og aðalatriðum og helstu nýmælum í okkar tillögum. Að öðru leyti vísa ég hv. þm. á að kynna sér aðrar brtt., sem minni háttar geta talist, eins og þær eru settar fram á þskj. 518.