11.10.1984
Sameinað þing: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í B-deild Alþingistíðinda. (28)

Skýrsla ríkisstjórnarinnar um kjaradeilurnar

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég held að við höfum lifað merkilega tíma að undanförnu. Hér hafa verið að gerast miklir atburðir. Í þjóðfélaginu er alvarlegt ástand, alvarlegra kannske en oftast áður, og ber þar margt til. En þessa örlagaríku daga hafa held ég orðið vatnaskil með vissum hætti í íslenskum stjórnmálum. Við höfum lifað einhvers konar ögurstund. Við höfum séð kristallast baráttu verkalýðshreyfingar og fjandsamlegs ríkisvalds. Við höfum séð hvernig öfgaöflin yst til hægri hafa orðið æ meira áberandi í þeirri stefnu sem núverandi ríkisstj. fylgir. Við höfum séð hvernig launþegar úr öllum flokkum hafa þjappast saman, þegar þessi stefna hæstv. núverandi ríkisstj. Framsfl. og Sjálfstfl. hefur skýrst, og hvernig þessi stefna hefur nú komið í ljós, hvernig hið gamalkunna íhald hefur nú komið grímulaust til dyranna. Þetta höfum við séð á tímum þegar almenningur hefur fært fórnir og við það hefur eitt verið látið sitja að láta almenning færa fórnir, fórna 20–30% af kaupmætti launa sinna, án þess að nokkuð gerðist annað en það að verðbólgan var reiknuð niður í prósentum en dýrtíðin æddi áfram. Það finnur fólk á sínum kjörum.

Það er margt hér sem ástæða væri til að ræða. Það efnahagslega misgengi sem orðið hefur í þjóðfélaginu í valdatíð þessarar ríkisstj., hvernig verslun og þjónusta hafa dafnað og blómstrað meir en nokkru sinni fyrr meðan undirstöðuatvinnugreinar þjóðlífsins eru á vonarvöl, eins og sjávarútvegurinn. Það væri gott ef við gætum lifað á því að selja hvert öðru pylsur og kannske með öllu, en það er ekki svo einfalt. Við lifum á því að veiða fisk úr sjó og ef sjávarútvegur ekki gengur, ef þar er ekki blómleg starfsemi, þá gengur ekki íslenska þjóðfélagið. Þannig er nú komið, því miður.

Það hefur líka annað gerst. Þessa undanfarna daga höfum við orðið vitni að því hvernig stærsti stjórnmálaflokkur landsins, sem einu sinni hét flokkur allra stétta, sem einu sinni kallaði sig flokk laga og réttar, hvernig þessi flokkur hefur skýlt lögbrotum, ég segi lögbrotum, ég leyfi mér að segja það, í sínu eigin félagsheimili eða húsi og mun ég nánar koma að því síðar í ræðu minni. Þetta eru alvarleg mál svo og öll afskipti hæstv. ráðh. og embættismanna ýmissa af þessum málum.

Það hefur verið rætt töluvert hér um starfsemi hinna ólöglegu útvarpsstöðva. Ég ætla að gera starfsemi þeirra að umtalsefni, en víkja fyrst með nokkrum orðum að ræðu hæstv. menntmrh. áðan. Hún bar sig upp undan því við þingheim og þá sem okkar mál heyra hér að ummæli hennar í Ríkisútvarpinu s.l. föstudagskvöld, ef ég man rétt, hefðu verið rangtúlkuð. Hennar ummæli voru, og nú leiðréttir hæstv. ráðh. mig fari ég rangt með, „að framin hefðu verið svo mörg lögbrot undanfarna daga að skoða yrði málið í heild eftir verkfall.“ Þetta voru hennar ummæli. Þessi ummæli get ég ekki skilið öðruvísi en að afsaka megi eitt lögbrot með öðru lögbroti. En nú hefur hæstv. ráðh. sagt að hún hafi ekki átt við það. En hafi hún ekki átt við það orðaði hún hugsanir sínar ákaflega óheppilega við Ríkisútvarpið eins og þær voru hafðar eftir.

Það hefur verið mikið rætt hér um þá ákvörðun starfsmanna Ríkisútvarpsins að ganga út af sínum vinnustað á mánudag í síðustu viku, áður en verkfallið hófst. Ekki mæli ég þeirri ákvörðun bót. Hún var röng.

Það var rangt. Og ég hygg að flestir starfsmenn þessarar stofnunar geri sér grein fyrir því núna. Hún var hins vegar tekin þegar menn höfðu nýlega tekið við launaávísunum frá hæstv. fjmrh. sem voru kannske upp á 80–90 kr. eða eitthvað svoleiðis. Það er ósköp eðlilegt að menn bregðist við slíku með einhverjum hætti og vilji kannske eftir á hafa gert öðruvísi. Það er mannlegt. Það var ólöglegt, segir hæstv. menntmrh., að starfsmennirnir gengu út. Vel má það vera. Vel má það líka hafa verið ólöglegt hvernig hæstv. fjmrh. stóð að því að greiða þeim þeirra laun. Lögfræðinga greinir á um það. En eitt lögbrot afsakar ekki annað, hæstv. ráðh.

Mér þótti athyglisvert, þegar hæstv. menntmrh. talaði um frelsið áðan, að hún sagði að frelsið verði að vera þannig að það skerði ekki mannréttindi annars fólks. Ég er henni sammála. Frelsi mitt endar þar sem nef náungans byrjar, stendur einhvers staðar. En hæstv. menntmrh. sagði líka að þegar frelsið sé farið að skerða mannréttindi annarra sé það ofbeldi. Ég er henni alveg hjartanlega sammála. Og nú ætla ég að segja hæstv. menntmrh. stutta sögu.

S.l. föstudag hringdi til mín á skrifstofu mína úti í Þórshamri maður sem kynnti sig sem Hannes Hólmstein Gissurarson. Það er mynd af honum við dómkirkjuhornið í blaði sem þm. fengu í dag, ef þið skylduð ekki þekkja þennan heiðursmann. Hann kynnti sig sem fréttamann Frjáls útvarps. Ég sagði honum að ég teldi þeirra starfsemi lögbrot og hefði ekkert við þá að tala. Hann hélt áfram sínum spurningum, spurði mig hvað ég segði þá um þá skoðun prófessors Sigurðar Líndals að þetta kynni hugsanlega að vera löglegt. Ég sagðist ekkert hafa um það að segja, ég talaði ekki við lögbrjóta og vildi ekki halda uppi neinum „díalóg“, eins og ég held að hafi nú dottið út úr mér í þessu símtali við hann um þetta. Hann spurði mig um fleira og ég endurtók þetta sama, að ég hefði ekkert við hann að tala, ég vildi ekkert láta hafa eftir mér um þetta mál. Síðan sagði ég við hann: „Ég á þann rétt sem einstaklingur að krefjast þess og óska að þú hafir ekkert eftir mér um þetta mál.“ Sem einstaklingur hlýt ég að eiga þann rétt og það frelsi. En viti menn. Klukkan 8 eða rúmlega 8 um kvöldið var ég á leið í bílnum mínum utan af flugvelli, að koma vestan úr Ólafsvík, og hlustaði þá á þessa útvarpsstöð. Þar var lesin eftirfarandi frétt, með leyfi forseta:

„Fréttastofa Frjáls útvarps sneri sér til Eiðs Guðnasonar þingmanns Alþfl., sem situr í útvarpsráði, og spurði hann um þessi mál. Eiður sagðist ekkert eiga vantalað við lögbrjóta. Hann var þá spurður hvað hann segði um það álit Sigurðar Líndals prófessors í almennri lögfræði að vel væri hugsanlegt að neyðarréttarsjónarmið réttlætti rekstur frjálsra útvarpsstöðva þar sem Ríkisútvarpið hefði hætt sendingum sínum. Hann vildi ekkert um það segja þar sem hann vildi ekki halda uppi neinum díalóg um þetta mál, eins og hann orðaði það. Eiður var þá spurður hvaða skoðun hann hefði á meintum lögbrotum BSRB. Hann endurtók að hann vildi ekkert láta hafa eftir sér um þetta mál. Að lokum var Eiður spurður álits á því að fjöldi manns hefur veitt Frjálsu útvarpi viðtöl á síðustu dögum, svo sem Steingrímur Hermannsson forsrh., flokksbróðir Eiðs Jón Baldvin Hannibalsson, Stefán Benediktsson þm. BJ, Tómas Árnason fyrrv. ráðh. og Þorsteinn Pálsson formaður Sjálfstfl. Eiður endurtók ummæli sín að hann hefði ekkert við Frjálst útvarp að tala.“

Var þess getið að ég hefði óskað þess sem einstaklingur að ekkert yrði haft eftir mér um þetta mál og ég vildi ekki tala við lögbrjóta? Nei. Er það svona frjálst útvarp sem hæstv. menntmrh. vill? Þetta kalla ég litla mannasiði og þetta vildi ég raunar kalla að mín mannréttindi hefðu verið skert. Ég veit alveg að hæstv. menntmrh. er mér sammála, en svona var þetta í þessu útvarpi. — Ég tel mér hins vegar skylt að geta þess að fréttamaður hinnar útvarpsstöðvarinnar, sem rekin var á vegum hv. þm., óháðs og frjáls, Ellerts B. Schram, hringdi til mín laugardaginn eftir, upp í Borgarnes, og við ræddum saman í bróðerni. Ég sagði honum hver væri mín skoðun, að þetta væri lögbrot og ég vildi ekkert við þá tala. Hann virti það og það var ekkert meira á málið minnst. Þessa ber að geta. Þarna voru viðhöfð ólík vinnubrögð. Satt best að segja held ég að rekstur þessara útvarpsstöðva undanfarna daga, og mun ég koma að því síðar kannske með dæmum úr þeirra „fréttalestri“, hafi staðfest að ástæða er til að fara varlega í þessum efnum.

Nú skal ég taka það fram að ég er fylgjandi því að einkaréttur Ríkisútvarpsins verði afnuminn og að aðrir aðilar fái leyfi til að reka hér útvarpsstöðvar. Það verður að gerast að lögum. Hér er ég með bók sem heitir Land og lýðveldi, 1. hefti. Í henni eru greinar og ræður eftir dr. Bjarna Benediktsson fyrrv. formann Sjálfstfl., hið merkasta rit. Hörður Einarsson sá um útgáfuna, en svo sem alþjóð veit var hann einn af aðstandendum hins ólöglega útvarps. Í ræðu, sem dr. Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstfl. flutti á árinu 1955 og er prentuð á bls. 271 í þessari bók, segir hann, með leyfi forseta:

„Þeir, sem unna frelsinu, verða að muna, að formlegt frelsi er ekki nóg. Þeim ber að hjálpast að til að gera hverjum og einum mögulegt að njóta lífsins og frelsisins og leita hamingjunnar eftir eigin vild innan ramma laganna.“

„Innan ramma laganna“, sagði dr. Bjarni Benediktsson. Hvar er nú sá Sjálfstæðisflokkur sem dr. Bjarni Benediktsson veitti forustu? Hér með er auglýst eftir honum. (Gripið fram í.) Hvar eru þeir menn? Þeir eru til í Sjálfstæðisflokknum sem störfuðu með dr. Bjarna Benediktssyni á sinni tíð og drukku í sig virðingu hans fyrir lögum og rétti og íslensku þjóðerni. Þess er mörg óræk vitni að finna í þessari bók. Ég sé ýmsa þeirra manna í þessum sal. Ég sé forseta Sþ., ég sé hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson. Skyldi þeim falla vel það sem er að gerast og hefur verið að gerast innan Sjálfstfl.? Ég veit það ekki, en svo segir mér hugur um að þeir séu ekki ýkja ánægðir með þá þróun sem nú á sér stað í þeirra gamla flokki.

Hér hafa verið að gerast hlutir sem sjálfsagt eru sjálfstæðismönnum mikil íhugunarefni. Þeir eru líka umhugsunarefni fyrir aðra í þjóðfélaginu þegar þessi breyting á stærsta stjórnmálaflokki þjóðarinnar er nú að kristallast og koma í ljós. Ég mun kannske víkja aftur, — ég þarf, herra forseti, að tala nokkuð langt mál um þetta, — að þessum þáttum síðar.

Það er rétt, sem hæstv. menntmrh. sagði áðan, að það er vissulega alvarlegt ástand þegar sú staða kemur upp í þjóðfélaginu að það eru engir fjölmiðlar. Ég tek undir það. Slíkt má aldrei gerast. Og ég held að mönnum hafi orðið eitt ljóst sem upplifa í fyrsta skipti að það starfa engir fjölmiðlar. Þetta er í fyrsta skipti sem það gerist að það eru hvorki blöð, útvarp eða sjónvarp. Þá kemur nefnilega eitt í ljós, að fjölmiðlarnir eru bindivefur, tengivefur þjóðfélagsins. Þeir eru tengivefur lýðræðisþjóðfélagsins og þess vegna má það ekki gerast aftur að svona staða komi upp.

Ég ætla að geyma mér, herra forseti, að víkja sérstaklega að ræðu hv. þm. Ellerts B. Schram vegna þess að hann veik af þingfundi er hann hafði haldið sína ræðu, hafði sjálfsagt ekki gert ráð fyrir kvöldfundi og ekki skal ég ýja að því að honum hafi gengið neitt annað til. Hann mun hafa verið bundinn annars staðar. En ég vildi gjarnan að hann væri viðstaddur vegna þess þáttar sem hann hefur átt í þessu máli. Þó má vera að ég þurfi að mæla hér nokkur orð til hans síðar og að hann verði þá að lesa það í þingtíðindum.

En hæstv. fjmrh. kom hér í þennan ræðustól. Ég ætla að sleppa því sem hann sagði um samninganefnd ríkisins, a.m.k. í bili. Ekki efast ég um að hún sé þolinmóð og þægileg við hann, en ég veit ekki hvort hún er svo ýkjaþægileg við sína viðsemjendur. Sá kapítuli í ræðu hans sem fjallaði um kennarastéttina verður áreiðanlega mörgum eftirminnilegur og sjálfsagt verður oft vitnað til hans. Hins vegar verð ég að játa að ég skildi það ekki alveg þegar hæstv. ráðh. var að tala um sjóræningjastöðvar og spyrja hvað menn ættu eiginlega við. Nú veit hann auðvitað vel að að minnsta kosti á enskri tungu eru ólöglegar útvarpsstöðvar kenndar við sjóræningja. Hann þarf ekkert að láta sem hann viti ekki og skilji ekki. En þegar hann fór að tala um Andrés Björnsson útvarpsstjóra með svartan lepp skildi ég ekki hæstv. fjmrh. og það fundust mér afar undarleg og ósmekkleg ummæli, verð ég að segja.

Hæstv. ráðh. vék að því sem gerst hefði við Valhöllu þeirra sjálfstæðismanna og um er fjallað í skýrslu Radíóeftirlits Landssímans þar sem segir frá för radíóeftirlitsmanna og lögreglumanna að því húsi. Ég held að það sé rétt, með leyfi forseta, að lesa svolítið úr því plaggi:

„Síðdegis í gær bárust Radíóeftirlitinu fréttir um að ólögleg útvarpsstöð væri með sendingar í Reykjavík. Við undirritaðir, ásamt Hjálmari Árnasyni skoðunarmanni, fórum þá þegar af stað til leitar. Við miðun frá Suðurveri við Stigahlíð reyndist stefnan vera norður Kringlumýrarbraut á tíðnunum ca. 100, 102, 104 og 106 MHz. Sterkust var sendingin á 102 MHz. Kölluð var til lögregla og kom bíll númer 25 skömmu síðar. Tveir lögreglumenn voru í bílnum, þeir Haukur Ásmundsson lögregluflokksstjóri númer 38 og Þórður Þórðarson lögreglumaður númer 151.

Með stöðuga miðun var keyrt frá Suðurveri norður Kringlumýrarbraut og reyndist þá sendingin koma frá húsi Sjálfstæðisflokksins við Háaleitisbraut 1. Þar sem auglýsingasími útvarpsstöðvarinnar var gefinn upp í útsendingu frá Auglýsingastofu Ólafs Stephensen, síma 685716, var ákveðið að fara þangað.

Í anddyri hússins var staddur Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstfl., og reyndi hann strax að meina okkur aðgang. Að lokum fékkst leyfi til að fara upp á 3. hæð, þar sem stofan er, í fylgd Kjartans. Þess skal getið að á þessari stundu hafði sending verið stöðvuð. Á auglýsingastofunni voru fyrir nokkrir starfsmenn stofunnar, en Ólafur var ekki við. Radíóeftirlitið gerði kröfu um að fá að kanna húsakynni stofunnar.

Lögreglumenn vildu þá kalla til Magnús Einarsson aðstoðaryfirlögregluþjón og kom hann skömmu síðar ásamt Ólafi Stephensen sem einnig var kallaður til. Að sögn Magnúsar viðurkenndi Ólafur fyrir honum að hann hefði leyft afnot af símanúmeri sínu til að taka á móti auglýsingum fyrir „Frjálst útvarp“, en að öðru leyti væri hann ótengdur málinu.

Ólafur leyfði að Radíóeftirlitið skoðaði húsakynni sín og gerðu menn það. Ekkert þar inni benti til þess að sending ætti sér stað þaðan. Radíóeftirlitið gerði þá kröfu til lögreglunnar um að fá að fara upp á þak hússins til að kanna loftnet og leiðslur frá þeim. Magnús Einarsson fór formlega fram á þetta við Kjartan eftir að Magnús hafði áður ráðfært sig við William Möller lögfræðing lögreglunnar. Kjartan Gunnarsson taldi sig einnig þurfa að ræða við sína lögfræðinga áður en hann tæki slíka ákvörðun. Skömmu seinna kom hann aftur og neitaði að gefa slíka heimild fyrr en hann hefði ráðfært sig við flokkinn,“ eins og stendur hér, „á fundi sem ætti að vera á föstudaginn komandi. Jafnframt þessu bauð hann viðstöddum að koma niður á flokksskrifstofu flokksins á 2. hæð.“ — Allt er þetta umhugsunarefni.

„Davíð Oddsson borgarstjóri, sem áður hafði fylgst með málum, kom í þessu og tilkynnti að hann hafi verið að ræða við ráðherra póst- og símamála og ráðherra hefði sagt að þetta væri ekki gert með heimild og vitund sinni. Á flokksskrifstofunni hringdi borgarstjórinn aftur í ráðherra póst- og símamála og ræddi við hann um aðförina, rétti síðan Magnúsi Einarssyni símann og sagði að ráðherra vildi tala við hann. Eftir stutt símtal lagði Magnús á og tilkynnti að þar sem yfirmaður póst- og símamála hefði ekki veitt heimild fyrir þessu, þá stöðvaði lögreglan frekari aðgerðir í málinu og færi. Borgarstjóri bað viðstadda um að fylgja okkur út úr húsinu og læsa framdyrum hússins.

Virðingarfyllst.

Þórir Garðarsson,

Radíóeftirlit Landssímans,

Sölvhólsgötu 11, Reykjavík.“

Sem sagt: Sími auglýsingastofu var gefinn upp. Þar var mönnum leyft að ganga um allt og skoða. Þar var ekkert að fela. En menn fengu ekki, löggæslumenn og radíóeftirlitsmenn, að fara inn í önnur heilög vé í Sjálfstæðishúsinu eða upp á þakið til að skoða loftnet, það var ekki leyft. Nú sagði hæstv. fjmrh. áðan að svo væri fyrir að þakka að við byggjum í þjóðfélagi þar sem lögreglan gæti ekki ruðst inn. Það er vissulega rétt. Í þessu tilviki var ekki verið að ráðast inn á heimili manns. Það var verið að biðja um að fá að framkvæma athugun á því hvort lögbrot ættu sér stað í húsi Sjálfstæðisflokksins. Það var verið að biðja um að fá að fara upp á þak og skoða loftnet. Í fjarskiptalögum, sem Alþingi samþykkti á síðasta þingi, segir í 10. gr., með leyfi forseta:

„Menn sem í þágu Póst- og símamálastofnunarinnar þurfa að fara um lendur eða híbýli vegna starfa sinna skulu forðast að valda eigendum eða íbúum meiri óþægindum en brýnasta nauðsyn krefur.“

Í fjarskiptalögunum sem áður giltu var þessi heimild enn þá rýmri, en starfsmenn Pósts og síma hafa lagaheimild til að kanna þau mál sem þeirra stofnun snerta í tilvikum eins og þessu. Ég dreg þá ályktun sem venjulegur borgari: Ef ekkert var að fela í Sjálfstæðishúsinu, hvers vegna leyfði þá framkvæmdastjóri flokksins ekki radíóeftirlitsmönnum að skoða þessi loftnet á þaki hússins? Hvað var verið að fela? Jú, það var verið að fela þá staðreynd að í Valhöll starfaði ólögleg útvarpsstöð þessa daga og afskipti hæstv. ráðh. Alberts Guðmundssonar, sem þá gegndi embætti póst- og símamálaráðherra, af þessu máli, eins og lýst er í þessari skýrslu — væntanlega eru einnig til lögregluskýrslur um þetta mál og það er sjálfsagt að þær verði gerðar opinberar líka. Það átti nú aldeilis ekki að gera þessa skýrslu opinbera. Það átti að fara með þetta eins og hvert annað myrkraverk. (Fjmrh.: Hver?) Það var fyrir tilviljun að þessi skýrsla kom fram á útvarpsráðsfundi og var þar lesin upp, en þetta átti ekki að verða opinbert plagg. Ég hef vitneskju um það. (Gripið fram í: Hver átti að fela hana?) En afskipti hæstv. póst- og símamálaráðherra, Alberts Guðmundssonar í þessu tilviki, af þessu máli eru í meira lagi hæpin, leyfi ég mér að fullyrða, og allt þetta kallar á að þetta mál verði skoðað í heild, afskipti ráðh. af þessu máli á ýmsum stigum og allur þess gangur. Hafi einhvern tíma verið tilefni til þess að Alþingi skipaði sérstaka rannsóknarnefnd til að kanna mál, þá er það núna. Það er mjög brýn og rík ástæða til þess að svo verði gert.

Það var líka athyglisverður punktur þegar hæstv. ráðh. Albert Guðmundsson sagði okkur frá veru sinni á fundinum í gærkveldi þar sem menn voru að ræða um að stofna samtök um útvarpsrekstur þegar það verður lögleitt, og ekkert er nema gott um það að segja. Hann hannaði að hafa ekki verið í hópi þessara ungu manna og dugmiklu, sem var á honum að skilja að væru, sem hefðu verið að brjóta lögin að undanförnu. Þetta þótti mér merkileg yfirlýsing. (Fjmrh.: Þeir voru ekki að brjóta lög.) Nú kveður hæstv. ráðh. upp þann dóm að þeir hafi ekki verið að brjóta lög. Nú hygg ég að að mati flestra sé einkaréttur Ríkisútvarpsins til þess að reka útvarp alveg ótvíræður, og auðvitað skrifa lögfræðingar nú grg. á víxl sem stangast á, en ég hygg að um þetta sé ekki deilt, að réttur Ríkisútvarpsins í þessu efni er einkaréttur, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.

Grundvallaratriði þessa máls er auðvitað að ef menn vilja breyta lögum á það að gerast með eðlilegum hætti á Alþingi. Menn eiga ekki að segja: Þetta eru ósanngjörn lög. Ég uni þeim ekki og ég mun fara mínu fram. — Ég geri ráð fyrir að margir telji núgildandi skattalög ósanngjörn að ýmsu leyti. Menn eiga þó engra annarra kosta völ, flestir launþegar a.m.k., en að una þeim. (Fjmrh.: Ertu að tala um að það sé ólöglegt að stofna félag?) Hæstv. ráðh. er held ég, ég vona ekki viljandi, að misskilja mig. Það er ekkert ólöglegt við að stofna félag. Það ríkir félagafrelsi á Íslandi, sem betur fer, en samkv. lögum hefur útvarpið einkaleyfi til útvarpsreksturs og ef menn vilja breyta því eiga þeir að breyta lögunum. Þeir eiga ekki að opna útvarpsstöðvar fyrr en lögunum hefur verið breytt. Ég lýsti því áðan að ég væri þeirrar skoðunar að það ætti að breyta þessum lögum. (HBI: Hvernig væri að koma að hinum útvarpsstöðvunum úti á landi og hvað útvarpsráð hefur gert í því sambandi?) Í útvarpsráði hef ég margoft vakið máls á því að þetta væri ólíðandi ástand. Ég hef gert það í mörg ár. (HBl: Það hefur ekki frést fyrr en núna.) Hefur þm. nokkuð leitað frétta af því? Ég held ekki.

Í 3. gr. frv. til útvarpslaga, sem lagt hefur verið fram hér, er talað um þau skilyrði sem uppfylla beri til þess að menn fái leyfi til að reka útvarpsstöðvar. Þar segir m.a.:

„Útvarpsstöðvar skulu stuðla að almennri menningarþróun og efla íslenska tungu.“

Það var nú aldeilis að þetta Valhallarútvarp gerði það því að satt best að segja, verð ég því miður að segja, var eins og þeir sem skrifuðu „fréttirnar“ væru ekki skrifandi og þeir sem læsu þær væru ekki læsir. (ÁJ: Lástu alltaf fyrir framan útvarpið?) Ég hlustaði nokkrum sinnum á þetta, hv. þm. Árni Johnsen.

Í öðru lagi segir í 3. gr. þessa frv., með leyfi forseta: „Útvarpsstöðvar, er leyfi fá til útvarps, skulu í öllu starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur. Þeim ber að virða tjáningarfrelsi og stuðla að því að fram komi í dagskrá rök fyrir mismunandi skoðunum.“

Ég hlustaði á mjög hjartnæma ræðu sem hv. þm. Ellert B. Schram flutti þegar hann opnaði útvarpsstöðina sína og Dagblaðsins þar sem hann sagði að þetta væri útvarpsstöð fólksins, þjóðarinnar, stjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar. Svo kom fréttatíminn. Jú, þar voru tíundaðar hugrenningar forsrh. beggja og það var ekki minnst á það einu sinni þar að það væri til stjórnarandstaða í landinu. Þó lá hjá þessari útvarpsstöð frétt um að þingflokkur Alþfl. hefði deginum áður eða svo óskað eftir því við hæstv. forsrh. að þing yrði kvatt saman. (Gripið fram í.) Það var ekki verið að segja frá því. Það var sjálfsagt engin frétt heldur. Þannig var haldið á málum þar. Ég heyrði líka frétt í þessari útvarpsstöð, og það gefst nú tími til að rekja þetta hér frekar, um það að BSRB ætlaði daginn eftir að opna útvarpsstöð og hefja útvarpsrekstur. Uppspuni frá rótum, enda mun það hafa verið leiðrétt einhvern tíma seinna. (FrS: Skil ég hv. þm. rétt þegar hann segir að hann hafi beðið um að fréttatilkynning yrði send út?) Nei, ég sagði að sú fréttatilkynning hefði legið hjá Dagblaðinu. Blaðamaður Dagblaðsins talaði við mig og fékk efni þessa bréfs til forsrh. Það var deginum áður en þetta útvarp byrjaði að starfa.

Hins vegar var það með býsna sérstökum hætti sem útvarpsráð kynntist þessari starfsemi því það var svo að þennan dag var fundur í útvarpsráði þar sem var verið að ræða um með hverjum hætti mætti koma á fréttaþjónustu hjá Ríkisútvarpinu. Þar voru þrír fulltrúar, fulltrúi eins flokksins var fjarstaddur, sem lögðu til, fulltrúar Alþfl., framsóknar og fulltrúi Alþb. studdi það, að það yrði reynt að koma á fréttaþjónustu í Ríkisútvarpinu tvisvar á dag. En hver var afstaða fulltrúa Sjálfstfl. til þess máls í útvarpsráði? Þeir sátu hjá við afgreiðslu málsins. Þeir létu bóka eftir sér. Og hvað létu þeir bóka, blessaðir mennirnir? Þeir létu bóka, með leyfi forseta, og ég ætla bara að lesa lokaorðin... (Menntmrh.: Vill ekki hv. þm. lesa hana alla?) Jú, alveg sjálfsagt, alveg sjálfsagt ef þess er óskað. Þetta er bókun þeirra Markúsar Arnar Antonssonar, Ingu Jónu Þórðardóttur og Jóns Þórarinssonar:

„Við teljum að miðað við allar aðstæður hafi útvarpsstjóri staðið rétt að málum með því að fara aðeins fram á undanþágu vegna sömu starfa og unnin voru hjá Ríkisútvarpinu í verkfallinu 1977 þannig að hægt er að veita nauðsynlegustu öryggisþjónustu. Öllum hefur mátt vera ljóst frá upphafi að verkfall hjá Ríkisútvarpinu sem og öðrum opinberum stofnunum bitnaði harkalega á öllum landslýð. Alþjóð tekur nú afleiðingunum af því að verkfallsvopnum er beitt af fullri hörku. Eins og að var stefnt af hálfu verkfallsboðenda hefur starfsemi Ríkisútvarpsins lamast öllum landsmönnum til mikilla óþæginda og sárrar reiði. Við þetta bætist að starfsmenn stofnunarinnar ákváðu upp á sitt eindæmi að stöðva útsendingar skyndilega og fyrirvaralaust tæpum þremur sólarhringum fyrir boðað verkfall. Þessa aðgerð hljótum við að fordæma. Hún sýnir berlega ásamt yfirstandandi verkfalli að Ríkisútvarpið er gersamlega ófært um að veita landsmönnum þá þjónustu sem því ber samkv. einkaréttarákvæðum útvarpslaganna.

Augu manna eru nú að opnast fyrir því að koma þarf í veg fyrir að endurtekning geti orðið á slíku ófremdarástandi. Einstakar undanþágubeiðnir nú eru ekki til þess fallnar að stuðla að frambúðarlausn sem tryggi óhefta starfsemi Ríkisútvarpsins við aðstæður eins og þær sem nú ríkja í þjóðlífinu.“

Einstakar undanþágur nú eru ekki til þess fallnar. Sjálfstæðismenn voru því sem sagt andvígir að Ríkisútvarpið hæfi fréttastarfsemi, fréttaþjónustu, og sátu hjá. Að vísu kom það ekki í ljós fyrr en eftir á þegar atkvæði voru greidd um þetta endanlega. En skýringuna á afstöðu fulltrúa þeirra sjálfstæðismanna fengu útvarpsráðsmenn og útvarpsstjóri hálfri klukkustund eftir að fundi útvarpsráðs lauk þegar hv. þm. Ellert B. Schram ávarpaði Reykvíkinga úr sinni eigin útvarpsstöð. Auðvitað var það skýringin.

Herra forseti. Nú er miðnætti. Ég á enn eftir að tala alllengi og býður í grun að allmargir séu á mælendaskrá. Og því spyr ég: Hve lengi er ætlunin að halda þessum fundi fram? (Forseti: Þessar umræður hafa nú staðið alllengi. Þær hófust kl. 14.30. Á þessum tíma hafa ellefu ræðumenn lokið máli sínu, sá tólfti hefur orðið, en tíu eru á mælendaskrá. Þannig er einsýnt að þessari umræðu verður ekki lokið innan hæfilegra tímamarka í nótt. En ég hafði ættað að það gæfist tími til þess að ljúka ræðu hv. ræðumanns og við munum freista þess.) (Gripið fram í.) Hún getur, hæstv. iðnrh., enn orðið nokkuð löng. (Gripið fram í.) Hæstv. iðnrh. er þrekmaður og ég vorkenni honum ekkert að sitja hér svolítið lengur vegna þess að ég veit að hann gegnir sinni þingskyldu af samviskusemi.

Það eru margar spurningar sem vakna í sambandi við rekstur þessara ólöglegu útvarpsstöðva. Voru það skráð fyrirtæki að lögum sem stunduðu þennan rekstur, t.d. meðan stöðin var rekin í Valhöll, hæstv. fjmrh.? (Fjmrh.: Ég hef ekki hugmynd um það.) Gerir hæstv. fjmrh. sér vonir um að þetta fyrirtæki, ef fyrirtæki skyldi kalla, muni greiða honum söluskatt af öllum þeim auglýsingum sem í þessari útvarpsstöð voru fluttar? Í þessum stöðvum munu hafa verið fluttar auglýsingar fyrir sjálfsagt eitthvað á bilinu 100 þús. kr. til 150 þús. kr. á dag. Af því á ríkið að fá 24% í söluskatt. Hvernig skyldi þessu hafa verið háttað? Skyldi þetta allt hafa verið að lögum? Hvernig skyldi hafa verið með tónlistina sem var flutt í þessum stöðvum? Skyldi hún hafa verið flutt með leyfi Stefs, samtaka tónskálda og eigenda flutningsréttar? Ég held ekki. Ég held að þeirri tónlist og þeim hugverkum, sem þarna voru flutt, hafi verið stolið. Þarna var ekki heldur farið að lögum. Þarna voru margföld lögbrot á ferðinni og um það blandast engum manni hugur.

Það er verið að deila á það hér að menn kveði upp úr um það að túlka hvenær lögbrot hafi verið framið. Auðvitað hafa menn fullt leyfi til þess, þegar bersýnilegt er að lög hafa verið brotin, að segja þá skoðun sína. Ég vona að hæstv. fjmrh., ef hann ljær orðum mínum eyrn, muni beita sér fyrir því að það verði gengið jafnhart fram í skattheimtu gagnvart þessum ólöglegu stöðvum og gengið var að launafólki um mánaðamótin. (Gripið fram í: Hann er nú hluthafi í fyrirtæki.) Já, ég gleymdi því. Þá fara nú hagsmunirnir kannske að rekast eitthvað á. Það skyldi nú ekki vera að hæstv. fjmrh. sé hluthafi í Dagblaðinu. Hann var það allavega, en ég veit ekki hvort hann er það enn þá. Dagblaðið lýsti sig ábyrgt fyrir rekstri Fréttaútvarpsins. Þá fer nú málið að verða enn einnar rannsóknar virði. Það eru nefnilega mörg lögbrotin í sambandi við þetta og þetta mál er ekki eins einfalt og menn hafa látið að liggja.

Ég hefði gjarnan viljað víkja nokkrum orðum til formanns Sjálfstfl. ef hann væri hér í húsinu. Mér þætti vænt um ef forseti gæti látið athuga það. Ég hefði viljað mæla til hans fáein orð í tilefni af því sem hann sagði í dag. En meðan ég bíð hans má kannske þess geta að upp hefur komið mikil deila um verksvið kjaradeilunefndar og verkfallsnefndar BSRB. (Forseti: Það skal tekið fram að hv. 1. þm. Suðurl. er ekki í húsinu, hann er nýfarinn.) Þá mælist ég til þess, herra forseti, að ég fái innan skamms tíma að gera hlé á ræðu minni og halda henni áfram á morgun. (Forseti: Það verður orðið við þeirri ósk og hv. ræðumaður gerir þá hlé þar sem honum þykir hæfilegt.) Já, ég mun þá mæla örfá orð í viðbót til hæstv. menntmrh., beina til hennar einni fyrirspurn.

Það hefur verið talað töluvert mikið um verksvið verkfallsnefndar og kjaradeilunefndar og mér sýnist að það sé svo að ríkisstjórnin að undanskildum hæstv. iðnrh., sem stendur upp í þessu og fær sér nú sæti aftur, viðurkenni ekki verkfallsnefnd BSRB sem aðila að þessu máli. Nú veit ég að á vegum hæstv. iðnrh. var sótt um undanþágu til verkfallsnefndar BSRB fyrir álviðræðunefndina til að fara til útlanda. — Hann kinkar kolli. Auðvitað viðurkennir hann, maður sem lengi stóð framarlega í verkalýðsbaráttu fyrir verslunarmenn, réttmæti verkfallsnefndar sem starfar samkvæmt áratuga hefð á Íslandi og hefur starfað í öllum verkföllum hjá öllum verkalýðsfélögum og auðvitað hjá opinberum starfsmönnum líka. (Iðnrh.: Má ég standa upp?) Já, gerðu svo vel, hæstv. ráðherra. En síðan upphefst hið furðulegasta karp annarra ráðherra sem neita að viðurkenna þessa nefnd. Það hefur verið vikið hér að þætti hæstv. sjútvrh. í því máli. Nú beini ég máli mínu til hæstv. menntmrh. Í frv. því sem hún hefur lagt á borð okkar alþm. í dag stendur: „Ríkisútvarpið er sjálfstæð stofnun í eigu íslenska ríkisins“, segir í 8. gr. En getur verið rétt að hæstv. menntmrh. hafi gefið útvarpsstjóra bein fyrirmæli (Menntmrh.: Nei.) sem í felst bann um að leita um eitt eða neitt til verkfallsnefndar BSRB, heldur snúa sér með alla hluti til kjaradeilunefndar, hvort sem þeir hlutir eru á hennar verksviði eða ekki? Ég spyr að þessu beint vegna þess að ég hef rökstuddan grun um að hæstv. menntmrh. hafi með valdboði til útvarpsstjóra og til hinnar sjálfstæði stofnunar, Ríkisútvarpsins, gefið þessi fyrirmæli. Það finnst mér líka vera íhugunarefni.

Ég mun nú, herra forseti, þar sem komið er fram yfir miðnætti, gera hér hlé á máli mínu og vænti þess að fá að halda áfram ræðu minni í upphafi fundar á morgun og vona þá að þeir tveir hv. þm., sem ég hef þegar sagt að ég vildi beina til nokkrum orðum, verði viðstaddir.