12.03.1985
Sameinað þing: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3488 í B-deild Alþingistíðinda. (2826)

313. mál, vanskil vegna húsnæðislána

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Örstutt athugasemd. Ég vil aðeins staðfesta það sem og áður sagði í sambandi við þær upplýsingar sem ég hef gefið og ég vil taka það fram vegna ummæla hv. 5. landsk. þm. að ég hef aldrei neitað hér á Alþingi að veita upplýsingar um það sem um hefur verið spurt né svara fsp. Ef ég hef ekki verið hér í deildinni þegar fsp. hefur verið beint til mín, þá hef ég haft lögleg forföll sem ég hef tilkynnt fyrir fram. Það hefur aldrei staðið á mér og mun aldrei standa á mér að svara fsp. Ég vil taka þetta sérstaklega fram.

Í sambandi við það sem hér hefur komið fram vil ég aðeins rifja það upp að stór orð voru uppi höfð á s.l. ári í sambandi við lánsfjárlög og afgreiðslu þeirra fyrir árið 1984, þar sem gert var ráð fyrir að til Byggingarsjóðs ríkisins færu 1167 millj. kr. Það var talað um svik og brigðir og að aldrei mundi verða staðið við þetta o.s.frv. En staðreyndin varð samt sú að það voru lánaðar út í gegnum Byggingarsjóð ríkisins tæpar 1400 millj. kr. á s.l. ári.

Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram. Auðvitað er mér engu síður en öðrum hv. alþm. ljóst hver vandi húsbyggjenda er. Fjöldi manna sem á í þessum vanda snýr sér til mín bæði með viðtölum og bréfum og öðru móti. Mér er fyllilega ljóst, eins og öðrum hv. þm. væntanlega, hver þessi vandi er. Og það er einmitt þetta sem verið er að reyna að leysa. Það er alveg ljóst að það fyrirkomulag sem nú er á lánskjaravísitölunni, miðað við það að kaupgjald hefur verið tekið úr sambandi, stenst ekki lengur fyrst ekki heppnaðist að ná verðbólgunni niður eins og að var stefnt. Þeir sem fylgdust með kjörum og afborgunum lána á fyrri hluta árs 1984 hefðu getað séð hvaða áhrif það hafði að verðbólgan var komin niður. Þá var þetta misgengi ekki til. En í ástandi eins og núna er er þetta illþolandi. Þess vegna verðum við að finna leiðir til að jafna þennan mun og gera greiðslubyrði fólks viðráðanlega á þessu sviði. Að því er unnið.