12.03.1985
Sameinað þing: 57. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3497 í B-deild Alþingistíðinda. (2836)

332. mál, gjaldmiðlar í erlendum lánum fyrirtækja

Fyrirspyrjandi (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Þetta var fróðleg upprifjun hjá hæstv. ráðh. á því hvernig óskirnar breytast eftir því hvernig gengisþróun er á hverjum tíma. En ef hið eiginlega svar hans við fyrri hluta spurningarinnar er tekið verður það að teljast vera það að komið hafi fyrir síðan núverandi skipan var tekin upp 1983 um gengisbindingu afurðalána við SDR að útflutningsaðilar á Evrópumarkað hafi fengið ósk sína uppfyllta um að taka lán í Evrópumyntum.

Þá hefur þarna væntanlega átt sér stað einhver mismunun. Það eru þá til fyrirtæki sem hafa fengið að taka lánin í Evrópumyntum. En það eru önnur fyrirtæki sem hafa sent á markað, sbr. útvarpsviðtalið sem ég benti á hér áður, en ekki hafa fengið að taka lánin með þessum hætti. Hefur þá þetta fyrirtæki, sem talaði máli sínu í opinberum fjölmiðlum, ekki leitað eftir því? Mér hefur skilist að það hafi leitað eftir því. Hverju sætir þá það að sumir geti fengið að taka lánin í Evrópumyntum en aðrir ekki?

Í annan stað er á það að líta að öll sú saga sem hæstv. ráðh. rakti bendir til þess að það sé mjög erfitt að ætla sér að stýra þessum lántökum með þeim hætti sem við höfum gert. Ef það er valið í dollurum þá er það gott um hríð. Síðan vilja menn það ekki, þá vilja menn eitthvað annað. Síðan er valið SDR og það er kannske gott um hríð en síðan vilja menn eitthvað annað. Er ekki ráðið í þessum efnum að lántakendurnir geti tekið lánin í þeirri mynt sem þeir óska og þeir beri þá sjálfir fulla ábyrgð á lántökum sínum vegna þess að óskir þeirra hafa verið uppfylltar?

Hin hliðin á málinu er nefnilega sú, að meðan hér er um þvingaða aðgerð að ræða, eins og það virðist hafa verið að því er alla varðar a.m.k. framan af, og að því er flesta varðar en ekki alla núna, þannig að mismunun er komin upp, hin hliðin á málinu er sú, að þegar ríkisvaldið. Seðlabankinn og viðskiptabankarnir eru að setja mönnum fyrir að taka lánin í ákveðinni mynt, þá bera þeir eiginlega siðferðislega ábyrgð á þeim skakkaföllum sem menn verða fyrir, vegna þess að þeir taka lánin í þeirri mynt sem fyrirskipað er. Í þeim gjaldeyrissveiflum sem nú eiga sér stað er augljóst að menn geta lent í verulegum skakkaföllum af því að lánin séu tekin í einni mynt frekar en annarri, sbr. líka það sem ég minntist á hér áðan, hversu mismunandi útkoman er hjá skipum eftir því hvort lánin hafa verið tekin t.d. í dollurum eða pundum. Sama gildir auðvitað varðandi útflutninginn þó að þar sé heldur mildari mismunur, eins og ráðh. gerði að umtalsefni, ef við eigum að bera saman SDR og t.d. pund. Engu að síður beini ég því til ráðh.: Er ekki rétt, er ekki siðferðislega rétt, getum við það ekki og eigum við ekki að gefa þetta frjálst þannig að þau lán sem útflutningsfyrirtækin taka séu á ábyrgð þeirra sjálfra? Er eitthvað í veginum? Getum við gert það? Og ef ekkert er í veginum, eigum við þá ekki að gera það? Ef eitthvað er í veginum. hvað er þá í veginum? Um þetta óska ég eftir svörum frá ráðh.

Að lokum aðeins eitt. Það kom mjög skýrt fram frá hæstv. ráðh. hvaða áhrif gengisbreytingin og afurðalánakerfið hefur eins og stendur. Þeir sem selja vöru sína í Evrópumyntum hafa orðið fyrir verulegum skakkaföllum vegna þess hvað Evrópumyntirnar hafa fallið miðað við dollar. En þeir hafa líka orðið fyrir skakkafalli vegna þess að lánin, sem þeir taka, eru í SDR en ekki í Evrópumyntum og SDR hefur risið meira en allar Evrópumyntirnar skv. upptalningu sem hér var gerð áðan. Þeir sem flytja út á Evrópumarkað bera því tvöfaldar byrðar. Á sama hátt hefur staða þeirra sem flytja út á Bandaríkjamarkað orðið tvöfalt auðveldari. Þeir hafa fengið hærra verð vegna gengisþróunar dollarans og þeir hafa fengið hagstæðari lán heldur en ef lánin hefðu verið í dollurum. Þeir hafa m.ö.o. haft tvöfaldan hag af því kerfi sem hér um ræðir. Í þeim gengissveiflum sem nú eru er hér um verulega mismunun að ræða. En ég ítreka þær spurningar sem ég bar hér fram í ræðu minni til ráðh. um grundvöllinn sjálfan og vildi gjarnan heyra svör hans við því.