12.03.1985
Sameinað þing: 58. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3502 í B-deild Alþingistíðinda. (2850)

84. mál, Vesturlandsvegur

Flm. (Matthías Á. Mathiesen viðskrh.):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 12. þm. Reykv. að flytja hér till. til þál., sem þannig hljóðar, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að ríkisstj. láti fram fara athugun á því hvort hagkvæm sé vega- og brúargerð úr Geldinganesi yfir Leiruvog og Kollafjörð í Kjalarnes og verði sérstaklega kannað hvort skapa megi í sambandi við slíka vega- og brúargerð ákjósanlega aðstöðu til hafbeitar fyrir lax í Kollafirði og Leiruvogi.“

Tilgangurinn með flutningi þessarar till. er að vekja athygli á þýðingarmiklu máli og koma fram með hugmynd um mannvirkjagerð í vegamálum sem samtímis gæti skapað einkar hagstæð skilyrði fyrir laxahafbeit og/eða laxeldi. Ef að veruleika yrði gæti það orðið til þess að Íslendingar tækju að sér forustu í fiskiræktarmálum með laxaliafbeit í Norður-Atlantshafi sem skilað gæti umtalsverðum hagnaði í þjóðarbúið.

Sú vega- og brúargerð er miðast við að nýta þessi skilyrði til hlítar hefur og þann kost að stytta leiðina frá Reykjavík upp á Kjalarnes um allt að 10 km og þá leiðina vestur og norður, en á fylgiskjali með till. má sjá vegalengdir eftir því hvaða leið yrði valin. Vegagerð ríkisins hefur látið gera þær athuganir svo og það kort sem fylgir með þessari till. sem fylgiskjal.

Eins og ég gat um áðan miðar þessi till. að því að könnuð verði hagkvæmni nýs Vesturlandsvegar með brúargerð er hafi þann tilgang, auk umtalsverðrar styttingar fjölfarinnar þjóðbrautar, að skapa möguleika til fullnýtingar einkar ákjósanlegra aðstæðna fyrir laxahafbeit og/eða laxeldi í Kollafirði og Leiruvogi. Brúarmannvirki og aðfyllingar yrðu því sérstaklega hönnuð með það í huga að þau gætu nýst sem fyrirstöður með sleppi- og móttökuaðstöðu fyrir laxfiskinn.

Sá hluti Vesturlandsvegar, sem hér um ræðir, er úr Geldinganesi, þ.e. Reykjavík, í Kjalarnes, og er þess að geta að skv. samþykki borgarstjórnar Reykjavíkur 25. apríl 1977 og samþykktum skipulagsnefndar um endurskoðun aðalskipulags Reykjavíkur hafa borgaryfirvöld tryggt sér möguleika til hraðbrautarlagningar einmitt þá leið sem hér er bent á, yfir Elliðavog um Geldinganes, en þar er eitt af framtíðarbyggingarsvæðum Reykjavíkurborgar.

Laxeldi á sér orðið nokkuð langa sögu og mikil reynsla hefur fengist á því sviði hér á landi á undanförnum áratugum. Samt sem áður hefur þróunin ekki verið eins hröð í þessum efnum og æskilegt hefði verið. Norðmenn og Skotar hafa náð miklu forskoti undanfarinn áratug umfram Íslendinga í framleiðslu og markaðssetningu á eldisfiski. Með stofnun Kollafjarðarstöðvarinnar 1961 hófust tilraunir með hafbeit á laxi hér við land og höfðu þegar gengið inn í stöðina í Kollafirði á s.l. ári 33 þúsund laxar. Einnig má nefna að sumarið 1982 fengust hjá Pólarlaxi tæplega 2000 laxar, en fyrstu gönguseiðum af laxi var sleppt við Straumsvík 1981 og nokkur skil urðu þar á laxi sumarið 1982.

Fjárhagslegur grundvöllur hafbeitarinnar hvílir á endurheimtum sjógönguseiðum. Vegna fyrirkomulags laxveiða í löndum við Atlantshaf virðist rekstrargrundvöllur fyrir laxahafbeit vera bestur hér við land. Ástæðan er sú að annars staðar en við Ísland eru 80–90% veidd í sjó, en laxfiskur sem gengur í árnar þarf að standa undir sportveiðum og sjá um viðhald stofnsins. Því kemst aðeins lítill hluti hafbeitarlaxins á sleppistað og sá aðili sem kostað hefur beitina nýtur ekki arðsins. Vegna banns við laxveiði í sjó horfa málin öðruvísi við hjá okkur. Þá er ekki fyrirsjáanlegt í náinni framtíð að önnur lönd fari að dæmi Íslendinga og banni laxveiðar í sjó, enda styðjast veiðar þeirra við aldagamlar hefðir og fjölmargir þar hafa afkomu sína af þeim veiðum.

Hér á landi hafa á undanförnum árum farið fram tilraunir með hafbeit víða um land. Ágætur árangur hefur náðst, einkum á suðvestan- og vestanverðu landinu, í Kollafirði og Lárósi á Snæfellsnesi. Möguleikar á Faxaflóasvæðinu eru taldir einkar góðir, ekki síst vegna þess að flóinn liggur opinn fyrir tiltölulega hlýjum sjávarstraumum sunnan úr hafi, og hættan af hafís er hverfandi miðað við suma aðra landshluta. Þá eru önnur skilyrði, svo sem átumagn, talin ákjósanleg á þessu svæði.

Það sem einkum skortir er aðstaða til sleppinga sjógönguseiða og aðstaða til veiða á fullvöxnum laxi er leitar á sleppistaðina af hafi. Ef unnt yrði að skapa hagstæða sleppi- og móttökuaðstöðu, t.d. á umræddu svæði, mættu hugsa sér að fleiri en ein eldisstöð sleppti þar sjógönguseiðum, enda yrðu þau metin samkvæmt vel skilgreindum stöðlum, þannig að hlutur einstakra eldisstöðva af endurheimtum laxi yrði ákvarðaður á slíkum grundvelli. Um leið mætti stuðla að auknum gæðum á sjógönguseiðum og koma í veg fyrir að lélegum eða ónýtum seiðum yrði sleppt til sjávar, en allmörg dæmi eru því miður um vinnubrögð af slíkum toga. Þá má og benda á að unnt er að stækka eða reisa á þessu svæði afkastamikla seiðaeldisstöð sem framleitt gæti milljónir sjógönguseiða. Stofnlagnir Hitaveitu Reykjavíkur og væntanlegrar hitaveitu Kjalarneshrepps liggja um næsta nágrenni og gætu því seiðaeldisstöðvar fengið nauðsynlega varmaorku til seiðaframleiðslu frá nærliggjandi hitaveitum. Í þessu sambandi má benda á að seiðaeldisstöð þarfnast varmaorku á þeim árstíma er hitaveita er aflögufær um heitt vatn. Það virðist því sem á þessu svæði sé möguleiki á mikilli framleiðslu á seiðum til sjógöngu og góð hafbeitarskilyrði fyrir lax, framleiðslu sem gæti skipt miklu máli fyrir þjóðarbúið. Þá má benda á þann möguleika að heitt vatn verði notað til upphitunar sjávar á afmörkuðu svæði í Kollafirði eða Leiruvogi.

Víða erlendis er hafbeit á ýmsum laxategundum mikilvægur atvinnuvegur. Má í því sambandi nefna hafbeitarstarfsemi við Kyrrahaf. Kyrrahafslaxinn er einn mikilvægasti nytjafiskur á Norður-Kyrrahafi, einkum fyrir Bandaríkjamenn, Kanadamenn, Japana og Sovétmenn.

Ég sé ekki ástæðu til að víkja fleiri orðum að þessari till. eða þeim hugmyndum sem að baki henni liggja. Ég tel að hér sé um að ræða allt í senn: málefni sem skiptir okkur miklu, einstaklinga sem þjóðarbúið í heild, og að hér megi fara saman nýting á fjármagni fyrir aukna hagstæða vegagerð svo og fyrir það sem ég tel einna þýðingarmest í dag fyrir okkur, að hægt sé að sinna fiskeldi með þeim hætti, sem getur gefið okkur þann arð sem ætti að vera.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að umr. um þessa till. verði frestað og till. vísað til hv. atvmn. Sþ.