13.03.1985
Neðri deild: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3541 í B-deild Alþingistíðinda. (2887)

347. mál, aðgerðir til að bæta hag sjómanna

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Þá höfum við hlýtt á skilgreiningu hæstv. forsrh. á samningum án afskipta ríkisvalds. Það kom fram í máli ráðh. að að mati samningsaðila hefði verið vonlaust að samningar næðust án afskipta ríkisstj. Þá langar mig til að spyrja hæstv. ráðh. hvort hann telji þá staðreynd koma að einhverju leyti nálægt hinum margumtalaða vanda sjávarútvegs á Íslandi, þ.e. að þar er líklega fátt hægt að gera og þar geta útgerðaraðilar, hvort sem eru sjómenn, útgerðarmenn eða verkendur, lítið hreyft sig án afskipta ríkisstj. Getur verið að þetta atriði, þ.e. þessi skortur á svigrúmi og sjálfstæði innan greinarinnar, sé að einhverjum hluta undirrótin að vanda sjávarútvegsins?