11.10.1984
Sameinað þing: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (29)

Skýrsla ríkisstjórnarinnar um kjaradeilurnar

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að mér var leyft að koma hér aðeins í ræðustól. Ég vil gjarnan svara strax þeirri fyrirspurn sem hv. síðasti ræðumaður bar fram til mín. Þau fyrirmæli sem hann er að spyrja um hljóða svona:

„Dags. 5. okt. 1984. Að gefnu tilefni og í framhaldi af símtali okkar nú rétt áðan skal tekið fram og á það lögð áhersla að samkvæmt 26. gr. laga nr. 29 frá 1976, um kjarasamninga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, hefur kjaradeilunefnd úrskurðarvald um það hvaða einstakir menn skuli vinna í verkfalli og hún skiptir vinnuskyldu milli manna. Ríkisútvarpið sem og aðrar stofnanir ríkisins verða því að hlíta úrskurði hennar lögum samkvæmt.“ Ragnhildur Helgadóttir menntmrh. stendur þarna undir. Þetta er stefna ríkisstjórnarinnar og þetta er lagaskilningur okkar. Ætlunin er að fara að lögum, og hv. þm. hefur orðið tíðrætt um það. (Gripið fram í: Iðnrh. er á annarri skoðun.) (Forseti: Umr. er nú frestað.) Hann hefur skipt um skoðun.