13.03.1985
Neðri deild: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3569 í B-deild Alþingistíðinda. (2907)

320. mál, sveitarstjórnarlög

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Mér finnst rétt að segja örfá orð við þessa umr. um svo merkilegt mál sem hér er á ferðinni. Þau sveitarstjórnarlög sem nú gilda eru nær aldarfjórðungsgömul svo að það er ekki að undra þó að full þörf sé á því að endurskoða þau eftir allan þennan tíma. Sum efni þeirra má rekja allt aftur til tilskipunar um sveitarstjórn Íslands frá 4. maí 1872. Að gerð þessa frv. og undirbúningi hefur unnið nefnd, eins og hæstv. félmrh, gat um, og eru nöfn þeirra ágætu manna talin upp hér á bls. 27. Ég vil geta þess að í þá upptalningu, sem er á bls. 27, sýnist mér vanta nafn Sturlu Böðvarssonar sveitarstjóra þó að það kæmi mjög skýrt fram — (Félmrh.: Þskj. hefur verið dreift að nýju.) Já, það er einmitt það. Það kom hins vegar skýrt fram í framsöguræðu hæstv. félmrh.

Þessi nefnd hefur starfað frá árinu 1981 og það var auðvitað alveg rétt að láta endurskoða samtímis sveitarstjórnarlög, lög um sameiningu sveitarfélaga og lög um sveitarstjórnarkosningar. Ég ætla aðeins að minnast á nokkur atriði málsins.

Lögin nr. 70/1970, um sameiningu sveitarfélaga, eru að sönnu ágæt lög á margan hátt. En það hefur ekki tekist að nýta þau til þess að örva hin smærri sveitarfélög til sameiningar. Þar hefur eitthvað fleira þurft til að koma.

Þetta frv. felur það m.a. í sér að sýslunefndir eru lagðar niður. Hæstv. ráðh. orðaði það svo að í reynd hefði dregið mjög úr verkefnum sýslunefnda. Í athugasemdum frv. er þess getið að sýslufélögin, sem hafa þjónað um 100 ára skeið, verði lögð niður þar sem þau hafi ekki á síðari árum verið sá samnefnari og framkvæmdaaðili sem sveitarfélögunum var nauðsynlegur.

Satt er það að margt hefur breyst í landsmálum og skipulagi byggðar á Íslandi s.l. 100 ár. Hinu verður þó aldrei neitað að sýslunefndir hafa unnið mjög mikilvæg og merkileg störf og á það eftir að koma betur í ljós ef sú saga yrði öll rifjuð upp og skráð. Samstarfs hreppanna í sýslunefndunum og samstarfs sýslufélaganna sér hvarvetna stað í byggðum landsins þar sem hinum stærstu verkefnum hefur verið hrundið áleiðis í frjálsu samstarfi. En það verður að viðurkenna að þetta atriði hefur breyst mikið með því að landsmenn hafa færst úr dreifðum byggðum í þéttbýli, bæi og borgir.

Hingað til hafa sýslunefndir verið hið eina lögbundna samstarfsform hreppanna. Við erum líklega flest sammála um að nauðsynlegt sé að koma hinum fámennu sveitarfélögum til að sameinast í fjölmennari og stærri sveitarfélög svo að þau fái komið einhverjum málum fram og tekist á við stór verkefni.

Fyrir nokkrum árum var reynt að lögfesta hér hin svokölluðu landshlutasamtök sveitarfélaga. Við vitum það öll að landshlutasamtök sveitarfélaga hafa starfað í frjálsri samvinnu að mjög merkum málum á liðnum áratugum. En einhvern veginn var það svo að hv. alþm. á þeim tíma þótti ekki ástæða til þess að löggilda þessi samtök. Þau hafa því starfað fram á þennan dag sem frjáls samtök og þykir mér fara mjög vel á því.

Eins og ég gat um hefur samstarf tveggja eða fleiri sýslunefnda oft verið með miklum ágætum og slíkt samstarf hefur hrundið ýmsum stórum málum í framkvæmd. Það sem hefur verið visst áhyggjuefni núna á síðari árum er það að hinir fjölmennari hreppar innan sýslufélaganna hafa leitað eftir kaupstaðarréttindum. Það er ekki hægt að lá þeim það. Oft eru þetta framsækin öflug byggðarlög sem hafa séð sér leik á borði og séð vissan hag í því að öðlast kaupstaðarréttindi. En vissulega hefur verið mikil eftirsjá að slíkum sveitarfélögum úr hinu lögbundna samstarfi hreppanna á vegum sýslunefnda.

Hvað er svo hér að gerast með þessu frv. að því er manni sýnist? Það er verið að færa þessa þróun til baka á vissan hátt með því að nú eru öll sveitarfélög lögð að jöfnu og gert ráð fyrir því að sveitarfélög á ákveðnu svæði, bæði hreppar og kaupstaðir, séu jafnrétthá og vinni saman eftir sem áður. Ég sé t.d. hér á bls. 20 í IX. kafla þar sem rætt er um lögbundið samstarf sveitarfélaga að þar er talað um Snæfellsesshérað. Snæfellsness- og Hnappadalssýsla hefur eða hafði innan sinna vébanda tólf hreppa þar til eitt öflugasta sveitarfélagið varð kaupstaður núna fyrir tæpum tveim árum, Ólafsvíkurkaupstaður. Nú kemur hér á bls. 20: „Snæfellsesshérað nær yfir Snæfellsness- og Hnappadalssýslu og Ólafsvíkurkaupstað.“ M.ö.o. það er tekið upp aftur samstarf þessara tólf sveitarfélaga sem maður var hræddur um að mundi breytast nokkuð — kannske ekki að öllu leyti til bóta — með stofnun Ólafsvíkurkaupstaðar. Nú takast þessi sveitarfélög öll í hendur á nýjan leik og starfa sem héraðsnefnd Snæfellsness í staðinn fyrir sýslunefnd héraðsins. Væntanlega er þetta aðeins boðberi nýrra komandi tíma sem gera sveitarfélögunum á þennan máta hægara um vik að stunda og leggja áherslu á þróttmikið samstarf.

Hvað Dalahérað snertir — svo ég nefni þau tvö héruð þar sem ég er kunnugastur — þá stendur þar: „nær yfir Dalasýslu“. Á því verður engin breyting að mér sýnist nema þar verður um að ræða héraðsnefnd í staðinn fyrir sýslunefnd.

Mönnum var löngu ljóst að á þessu þurfti að verða breyting og maður hefur horft á það með vaxandi áhyggju undanfarin ár að hin þróttmestu sveitarfélög hafa orðið kaupstaðir. Ekki vegna þess að maður gæti ekki vel unnt þeim að starfa á þeim vettvangi heldur báru ýmsir ugg í brjósti út af því að með því móti mundu þau fjarlægjast samstarf hreppanna og sveitarfélaganna heima fyrir.

Það er svo öllum ljóst að skv. 76. gr. stjórnarskrárinnar á landsstjórnin að hafa umsjón með stjórnsýslu sveitarfélaga og þessum efnum ber að skipa með lögum. Það ber margs að gæta við slíka lagagerð. Ég hef ekki lesið þetta frv. nægjanlega vel til þess að geta lagt á það endanlegt mat. Ég veit að um það verður fjallað vandlega í þingnefnd. Ég met það mikils að það horfir í þá átt að með þessu frv., ef að lögum verður. verði öll sveitarfélög gerð jöfn að lögum, stór og smá. Ég vil láta það verða mín lokaorð að sinni að ég vonast til þess að frv. verði skoðað nákvæmlega í n. svo að væntanleg löggjöf um þessi efni verði á þann veg að allir geti sætt sig við og horfi til framfara í byggðum landsins.