14.03.1985
Sameinað þing: 59. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3580 í B-deild Alþingistíðinda. (2923)

Umræður utan dagskrár

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi, 5. þm. Austurl. Hjörleifur Guttormsson, beindi til mín tveimur spurningum. Hin fyrri var: Hvaða áhrif hafði útganga kennara hinn 1. mars á skólastarf? Ég mun leitast við að gera grein fyrir því og þá fyrst hvaða bein áhrif þetta hafði á kennslumagn — eða magn þeirrar kennslu sem veitt er í skólunum.

Samtals lögðu um 440 kennarar í Hinu íslenska kennarafélagi fram uppsögn sína nú í vetur og skyldi uppsögnin skv. því taka gildi 1. mars nema heimild í lögum yrði notuð til þess að framlengja þann frest um þann mánaðafjölda sem er innan lagaheimildarinnar. Þetta munu vera um 2/3 hlutar allra kennara í framhaldsskólum sem eru í Hinu íslenska kennarafélagi. en um 1/3 hluti allra framhaldsskólakennara. Menntmrh. framlengdi uppsagnarfrest til 1. júní skv. lögum til að afstýra tjóni fyrir nemendur. Tilkynning um þetta var send 17 dögum áður en hinn boðaði frestur af kennara hálfu skyldi renna út. Það hafði margoft verið tilkynnt opinberlega að til þessarar framlengingar yrði gripið ef málið hefði ekki leysist í tæka tíð eða uppsagnir verið dregnar til baka. Það skal tekið fram að aldrei, þegar þessu ákvæði hefur verið beitt, hefur því verið beitt með jafnlöngum fyrirvara eins og að þessu sinni.

Hinn 28. febrúar s.l. samþykktu 222 kennarar að ganga úr störfum sínum 1. mars þrátt fyrir framlengingu uppsagnarfrestsins. Þarna var um að ræða helming af þeim hópi sem sagt hafði upp störfum eða lagt inn uppsagnir 1. nóvember. Í gær ákváðu 187 kennarar að halda áfram ólögmætum fjarvistum sínum, en 107 vildu koma aftur til starfa. Milli 40 og 50 kennarar hafa afturkallað uppsagnir sínar eða virt framlengingarákvæði frestsins svo að vitað sé. Þessar tölur eru að breytast því að ýmsir kennarar eru að taka upp vinnu aftur þessa dagana þótt óljóst sé enn hversu margir það eru. Sums staðar er reyndar frí í dag vegna árshátíðar í gær, svo að það er dálítið vont að telja í þeim skólum hve margir hafa hugsað sér að sinna skyldustörfum sínum í dag. Ég geng út frá því að þeim fari fjölgandi í þeim skólum eins og annars staðar.

Áhrif uppsagnar kennara koma mjög misjafnlega niður á einstökum skólum. Nefna má nokkra skóla sem uppsagnir taka ekki til, t.d. skóla heilbrigðisstétta, búnaðarskóla, Verslunarskóla Íslands, Samvinnuskólann, Verkmenntaskólann á Akureyri, Hótel- og veitingaskóla Íslands, Fósturskóla Íslands og Tækniskóla Íslands. Í ýmsum skólum segja mjög fáir upp starfi, eins og í Stýrimannaskólanum, Vélskóla Íslands, iðnskólunum og Menntaskólanum á Ísafirði. Harðast verða aðrir menntaskólar og fjölbrautaskólar fyrir barðinu á uppsögnum. Alls má segja að í 14 skólum fari kennslan að meira eða minna leyti úr böndum. Það eru eftirtaldir skólar, en ég mun greina frá því hve stór hundraðshluti kennslumagns, eins og kallað er, er veittur nú í þeim skólum:

Í Menntaskólanum í Reykjavík 51 % venjulegs kennslumagns, í Menntaskólanum við Hamrahlíð 30% , í Menntaskólanum við Sund 42%, í Menntaskólanum á Akureyri 35%, í Menntaskólanum í Kópavogi 54%, í Menntaskólanum á Egilsstöðum ekkert, í Menntaskólanum á Laugarvatni 30%, í Fjölbrautaskólanum Breiðholti 51%, í Fjölbrautaskólanum Ármúla 49%, í Kvennaskólanum í Reykjavík 19% og í Flensborgarskóla í Hafnarfirði 38%. Frá Fjölbrautaskólanum á Sauðárkróki hef ég ekki tölur og í Menntaskólanum á Ísafirði gengur skólahald nokkurn veginn eðlilega fyrir sig.

Nú kann vel að vera að eitthvað af þessum tölum hafi breyst hreinlega í dag. Þetta kemur mjög misjafnt niður á námsgreinum og einstökum bekkjum. Í Menntaskólanum á Akureyri var sett upp það sem skólameistari kallar „neyðaráætlun“ í kennslu, þ.e. hann skipuleggur hjálparkennslu við sjálfstætt nám nemenda til þess að jafna sem allra best þann mun sem verður vegna skerðingar kennslu af völdum uppsagnar kennaranna. Í nokkrum skólum er reynt að gefa kost á kennslu hjá öðrum kennurum en þeim sem sagt hafa upp, en það gerist einungis með samkomulagi við þá kennara sem haldið hafa áfram störfum sínum.

Það er auðvitað ljóst að hver dagur sem líður veldur þeim nemendum. sem fyrir þessu hafa orðið, æ meiri skaða. Því fyrr sem kennarar átta sig á því hve hér er um alvarlegt mál að ræða, því betra. Ég hygg að samviska hvers og eins kennara sé besta leiðarljósið í þessu efni. Það er ekki ákvörðun neins nema þeirra sjálfra að vera fjarverandi úr störfum sínum án lögmætra forfalla. Það er algerlega ljóst.

Spurt var um hvaða áhrif þessi útganga hefði. Ég hef gert grein fyrir kennslumagninu í skólunum. Ég vil gjarnan víkja að öðrum áhrifum.

Að því er varðar áhrifin á lausn kjaradeilunnar sjálfrar, þá er það ljóst að þau eru engin. Vinnan að þessu máli fer fram alveg eftir tilteknum frestum og innan þröngra tímatakmarka sem lögin setja. Það er unnið að því hvort sem kennarar eru í vinnunni eða ekki, þannig að kennarar greiða ekki fyrir lausn mála með því að vera ekki í sínum skyldustörfum.

Hitt er annað mál að þessu geta fylgt önnur áhrif sem eru miklu, miklu alvarlegri og ég veit ekki hve langan tíma tekur að bæta. Það eru þau áhrif sem þetta hefur á sjálfan andann í skólastarfinu, á sjálft siðferðið, ef ég má svo segja, í skólunum, á ástundun nemenda og allt andrúmsloftið. Og svo annað, hver áhrif þetta hefur á þá virðingu sem ég tel að kennarastéttin ætti að njóta í landinu og það traust sem menn þurfa til hennar að bera til þess að hún geti með góðu móti valdið þeim vandasömu verkefnum sem henni eru falin á hendur. Þetta atriði tel ég vera alvarlegast. Þetta atriði er í sjálfu sér annað en kjaradeila.

Það er unnið að lausn kjaradeilunnar með þeim ráðum sem lögin leggja stjórnvöldum í hendur. Hæstv. forsrh. las hér upp viljayfirlýsingu ríkisstj. Hins vegar gefur ríkisstj. Kjaradómi engin fyrirmæli. Kjaradómur er sjálfstæð, óháð stofnun sem leggur mat á mál í ljósi málflutnings og framlagðra gagna, laga, reglna og eðlis máls. Þess vegna er enginn kominn til með að segja að Kjaradómur dæmi aðra kröfuna til fulls eða hina kröfuna til fulls. Mat á þessu atriði er algjörlega í hendi Kjaradóms. Frestir, sem Kjaradómi eru settir, eru tilteknir og þröngir innan laganna.

Ég hygg að æ fleiri kennarar hafi komist að þeirri niðurstöðu að það bæti ekkert þá málsmeðferð né hraði henni að þeir séu ekki í vinnunni. Það er unnið jafnt að þessum málum þó að kennarar séu við störf sín. En það breytir hins vegar einu. Það breytir því að nemendur fái þá kennslu sem þeim hefur verið lofað af hálfu kennara þegar þeir settust í skólana í haust með því að kennarar tóku að sér að starfa í skólunum í haust.

Menn vita að það er geysilegur vandi og mikið tjón sem er augljóst hjá mörgum nemendum. Þetta hefur þegar haft þau áhrif að allmargir nemendur hafa ákveðið að hætta námi a.m.k. í vetur, reyna að fá sér vinnu annars staðar en við nám. Mikið hefur verið um hringingar foreldra í menntmrn. þar sem kvíða er lýst af þessum sökum. Menn skírskota til sómatilfinningar þeirra sem gengið hafa úr störfum sínum þrátt fyrir lögleg fyrirmæli og foreldrar lýsa því hvernig þeir í mörgum tilfellum hafa lagt sitt af mörkum til að hvetja börn sín til náms og reynt að halda þeim að námi en segja sem svo að við þessar aðstæður séu öll vopn úr höndum þeirra slegin. Þeir treysta sér ekki lengur til þess að hvetja nemendur til að sýna ástundun í námi eða halda áfram við þessar aðstæður. Það segir sig sjálft að þetta veldur miklum vanda í skólunum í haust hjá þeim sem ekki tekst að létta einhvern veginn undir með eins og nú standa sakir.

Ég mun víkja að því lítillega á eftir hvaða úrræði helst kæmu til greina í skólastarfinu sjálfu. Áður en ég kem að því vil ég víkja að þeirri spurningu sem hv. 5. þm. Austurl. beindi til mín: Hvað hugsar menntmrh. sér að gera til þess að stuðla að lausn deilunnar? Ég get vísað til þess sem ég sagði áðan um það hvar þessi deila væri stödd. Þetta mál er í höndum Kjaradóms sem er óháð stofnun sem leggur mat á málið eftir framlögðum gögnum, málflutningi og lögum og þeim upplýsingum sem dómarar hafa við sín störf eins og gerist um dómstóla.

Þegar mál standa svo vita menn að fagráðuneyti hefur ekki með höndum málflutning fyrir slíkum dómi. Þess vegna getur fagráðuneyti ekki gripið inn í það verk í sjálfu sér eins og nú er. Enda er það andstætt þeim reglum sem Kjaradómur býr við og þeim starfsfriði sem Kjaradómur þarf að hafa að menn, sem ekki er falið að flytja þar mál viðkomandi eða hafa með höndum sjálfa samningana, séu að því. En það mál er, eins og hv. fyrirspyrjandi veit, í höndum fjmrn. sem fer með öll launamál starfsmanna ríkisins, þ. á m. kennaranna.

Ég veit það ósköp vel að hv. þm. vill gjarnan að við komum af stað einhverri deilu milli okkar ráðherranna innbyrðis. En honum mun ekki takast að koma neinu slíku af stað. Hitt er annað mál að það skýtur dálítið skökku við þegar hv. fyrirspyrjandi er að víkja að því að þessi ríkisstj. hafi skellt skollaeyrum við kröfum kennara um að leysa þann hnút sem orðinn er í þeirra kjaramálum. Við skulum sjá hver það var sem reyrði þennan hnút. Hvenær hefur þessi hnútur myndast? Það er svolítið athyglisvert að líta á þróun kjara kennara s.l. 20 ár. Þau hafa tvisvar sinnum náð stærstum stökkum fram á við. Hvort tveggja var í stjórnartíð sjálfstæðismanna. Hvort tveggja var þegar stjórn var undir forsæti sjálfstæðismanna og sjálfstæðismaður fjmrh. Með allri virðingu fyrir okkar kæra hæstv. forsrh. er hér um staðreyndir að ræða. Og nú eru allar horfur á því að senn batni margir hlutir. Hæstv. forsrh. hefur í sinni ræðu nú áðan um samþykkt ríkisstj. gefið yfirlýsingu um hvert þessi mál stefna nú. Í lok viðreisnaráratugarins náðu kjör kennara verulega stóru stökki fram á við. Þetta gerðist aftur árið 1977. Þá var framsóknarmaður í sæti menntmrh. og þá var sjálfstæðismaður í sæti forsrh. og sjálfstæðismaður fjmrh.

En það er svolítið athyglisvert að þegar flokkur hv. fyrirspyrjanda hefur verið í stjórn hafa kjör kennara hrapað óðfluga niður á við. Svo talar hann um þann hnút og þá kreppu sem kjör kennara eru komin í og hve þau hafi orðið slæm á síðustu árum. Þau versnuðu mest í stjórnartíð fyrirspyrjanda sjálfs. En þá lyfti hv. þm. ekki litla fingri til að laga þessa hluti. Er það von að hann undrist?

Ég vil áður en ég fer úr þessum ræðustóli, hæstv. forseti, leggja á það áherslu að það hefur verið unnið mjög mikið í menntmrn. í samstarfi við fulltrúa kennara, bæði formlega og óformlega, að því að greiða fyrir málefnum kennara. Þetta vita þeir sem þátt hafa tekið í því og þetta vita forustumenn kennaranna. Ég hef um það ályktanir í höndunum frá samtökum kennara þar sem því er lýst yfir hve þessir hópar og þessi samtök séu þakklát fyrir þetta starf. Slíkt starf var ekki unnið í stjórnartíð hv. fyrirspyrjanda. Það er hins vegar nýtt að þetta sé gert á þennan veg í samstarfi við þau samtök sem hér eiga í hlut. Það er gert vegna þess að þeir, sem nú eru í ríkisstj., telja málum betur borgið, kjaramálum svo vel sem öðrum, í samstarfi milli manna en í stríði milli manna. Að því hefur verið unnið. Það er von að hv. fyrirspyrjanda þyki það skringilegt þegar hann er í þessum tindátaleik sem hann hefur verið í hér og einu sinni áður í sambandi við fsp. um sama efni hér á Alþingi, sem var reyndar þingleg fsp., en hvað um það. Þó að hv. fyrirspyrjandi sé í slíkum leik fagna ég því tækifæri sem ég hef til að upplýsa ýmislegt um þetta mál.

Mér finnst eðlilegt að spurt sé um þessa hluti á Alþingi að því er efnisatriðin varðar og eðlilegt að menn hafi af því áhyggjur hvernig fara muni. Í hópi þm. eru fjölmargir foreldrar nemenda í framhaldsskólum. Ég veit að þeir hafa ekki síður áhyggjur af þessu en margir aðrir. Ég veit líka að hv. þm. vilja að farið sé að lögum í landinu. Þeir vilja upp til hópa a.m.k. að menn gangi til starfa sinna í samræmi við lög og reglur þær sem Alþingi hefur sett og þeir vita væntanlega að löggjöfin á Alþingi er m.a. til þess að setja niður deilur manna og koma í veg fyrir deilur og stríð milli manna. Þess vegna er það sem við viljum að farið sé að lögum. Þess vegna teljum við það mörnum til hnekkis að gera það ekki. Þess vegna teljum við það enn alvarlegra þegar í hlut á hópur sem annast uppeldi og mótun æskulýðsins í landinu. Í því sambandi hlýt ég að geta eins sem ég hef orðið vör við í bréfaflóði sem borist hefur menntmrn. nú á síðustu vikum, eins og reyndar oft endranær.

Fjölmörg bréf frá nemendum framhaldsskóla og nemendahópum, hundruðum saman, undirskriftir nemenda hundruðum saman undir yfirlýsingar hafa borist. Þessar yfirlýsingar eru svo málefnalegar og ábyrgar og skynsamlegar að í öllu þessu ástandi, sem óneitanlega er ekki sérstaklega fallið til að vekja manni bjartsýni um andann í skólunum, vekur það manni samt bjartsýni að sjá hve skynsamt ungt fólk hér á hlut að máli og að þetta unga fólk skuli af skynsemi og ábyrgð leggja fram óskir sínar og tillögur með þeim hætti sem það hefur gert.

Þrátt fyrir þetta er það svo að þær ályktanir, sem fjölmiðlar birta oft, eru þær sem eru í neikvæðara lagi. En þetta liggur fyrir. Hér er um að ræða ályktanir frá mörg hundruð nemendum á Akureyri, ályktanir frá um á annað hundrað nemendum á Laugarvatni, ályktanir frá mörg hundruð nemendum í Menntaskólanum í Reykjavík og svo má lengi telja. Nemendur þessara og margra fleiri skóla hafa haft frumkvæði að miklu málefnalegri málsmeðferð en hinir fullorðnu hafa gert. Það er kannske ekki ný saga fyrir foreldra að við lærum margt af unga fólkinu. Mér sýnist málin horfa þannig núna að margt hafi eldra fólkið af hinu yngra að læra.

Nú veit ég að það eru nemendahópar einhverjir, ég veit ekki hve stórir, sem vilja leggja sitt af mörkum í kjarabaráttu kennara sinna og það er ekkert við því að segja. Auðvitað styðja þeir það sem þeir telja að sé barátta fyrir bættum kjörum kennara. Þeir vilja bæta kjör sinna kennara. Það er ósköp eðlilegt og sjálfsagt. Hins vegar þegar nemendur vilja styðja kennara sína með þeim hætti að mæta ekki í skóla ef þeim býðst kennsla þykir mér fórnin vera orðin of stór, ef nemendur eiga að afsala sér kennslu í þeirri trú, að það sé til framdráttar kjarakröfum kennara. Þá tel ég að það væri drengilegt að skýra nemendunum frá því að slíkt er ekki hluti af kjarabaráttu kennara, því að fjarvistir kennara nú, eins og ég sagði áðan. breyta engu um hraða málsins eða niðurstöðu að því er ég held — alls ekki um hraða málsins, það er ljóst.

Auðvitað vitum við ekki í dag um niðurstöðu máls sem er í Kjaradómi. En það er a.m.k. ekki til að flýta fyrir og manni þykir það heldur ekki mjög líklegt að það verði til að bæta niðurstöðu máls að sú stétt, sem er að berjast fyrir kjörum sínum, gangi á svig við lög landsins. gangi gegn lögum landsins í baráttuaðferðum sínum. Það er erfitt að halda uppi agareglum í skóla. skólareglum, og ætlast til að nemendur fylgi þeim þegar kennarar hafa það svona. Sem betur fer fer þeim fækkandi kennurunum sem svo haga sér og það fjölgar í þeim hópi sem sinnir skyldustörfum vegna þess að þeir bera hag nemenda sinna einlæglega fyrir brjósti.

Ef svo hins vegar einhverjir kennarar kunna allt að einu að vilja hverfa úr störfum í vor þá er ekkert við því að segja. Svo verður að vera. En þeir þyrftu þá að ljúka sínum kennsluferli með öðrum hætti en nú virðist blasa við.

Ef ég að lokum vík í mjög stórum dráttum að þeim úrræðum sem kæmu til greina nú í skólahaldinu, þá eru þau þessi — og ég verð að taka fram strax að þar er enginn kostur góður vegna þess á hvaða stigi skólaárið er.

Þegar svo áliðið er skólaársins er mjög erfitt að koma inn í kennslu sem fram hefur farið allan veturinn með þeim hætti að nemandinn nái þeim árangri sem að var stefnt. Það sem menn hafa verið að athuga er í fyrsta lagi ráðning forfallakennara. Ég tel að ekki sé forsvaranlegt annað en að athuga þann möguleika. Kennurum. sem fjarverandi hafa verið, hefur verið gefinn ákveðinn frestur til að átta sig. Nú er liðinn svo langur tími að óforsvaranlegt er að mínu mati annað en að kanna þennan möguleika, ráðningu forfallakennara. Skólastjórar hafa frumkvæði um slíkt eins og um ráðningu manna til sinna skóla. Þeim hefur verið gerð grein fyrir að þeir hafi að sjálfsögðu heimild til ráðningar forfallakennara. Það verður að liggja fyrir í hvaða greinum þetta þarf og hve marga o.s.frv. Það atriði hefur nokkuð breyst núna frá degi til dags, en þetta liggur væntanlega fyrir fljótlega. Skólastjórar. skólameistarar og rektorar, sem ég hef hitt reglulega þennan tíma, voru á fundi núna í dag og ráða ráðum sínum m.a. um þetta. Komi óskir frá þeim um að menntmrn. auglýsi fyrir þá eftir forfallakennslu er sjálfsagt að verða við því. Það er það minnsta sem hægt er að gera til að reyna að hjálpa einhverjum nemendum sem hjálp þurfa til þess að ná því námi sem þeir stunda núna á þessari önn.

Í öðru lagi getur komið til þess að lengja þurfi kennslutímann nokkuð. Þetta fer líka eftir því hvernig gengur að ráða forfallakennara eða hve stór hópur kennara verður enn þá fjarverandi nú eftir nokkra daga.

Loks má velta því fyrir sér hvernig skást sé að ljúka skólaárinu við þessar aðstæður. Til greina kæmi að draga úr umfangi prófanna. leggja áherslu á að prófa í lokaáföngum og prófa þá sem eru að útskrifast. Vitnisburði í öðrum áföngum mætti byggja á vinnu nemandans á þeim tíma sem kennsla hefur verið í skólanum. En slíkur vitnisburður gefur auðvitað ekki þá mynd sem vitnisburður eftir heilt skólaár mundi gefa. Þá yrði próf að miðast við það efni sem farið hefur verið yfir á önninni án tillits til kennsluáætlana og leitast verði við að jafna þennan mismun sem fram kann að koma hjá nemendum í byrjun næstu annar. Þetta er þó allt saman háð því hvenær kennararnir koma aftur til vinnu. að hvaða marki þarf að beita þessum ráðum. Þetta verður líka að metast í hverjum skóla fyrir sig vegna þess hversu misjafnt þetta er bæði eftir árgöngum, önnum og kennslugreinum.

Þessi atriði vildi ég nefna, hæstv. forseti. og tel mig þá hafa gert grein fyrir hve alvarlegt ástand er í skólum landsins. Ríkisstj. tel ég að hafi gert allt sem hún hefur getað við þessar aðstæður sem nú eru til að koma til móts við kröfur kennara. Var það viðurkennt opinberlega. bæði af formanni og varaformanni Hins íslenska kennarafélags, nú í gær í fjölmiðlum að ríkisstj. hefði gengið verulega til móts við kennara. Ég veit að flestir eru farnir að skilja að við þær aðstæður. þegar samið er við svo mörg félög, var ekki unnt að ganga öðruvísi frá málum í bili en með viljayfirlýsingu í þá veru sem gert var.

Þess vegna er það afar einkennileg röksemdafærsla og að það skuli heyrast í sölum Alþingis að einn hv. þm. skuli telja að það að tiltekinn hópur manna úr einni mikilvægri starfsstétt landsins yfirgefur störf sín í trássi við lög landsins sé ekki þeim sjálfum að kenna. Það er enginn sem framkvæmir það nema þeir sjálfir. Það er enginn sem framkvæmir þá gerð nema þeir sjálfir. Það er þeirra eigin ábyrgð og þeirra eigin samviska sem verður þarna að koma til skjalanna. Þeir vita, ef þeir lesa samþykkt ríkisstj. frá því í fyrradag, hver skoðun ríkisstj. er. Þeir vita. ef þeir vilja taka mark á lögum landsins í hinu mikilvæga uppeldisstarfi sínu, hvernig þessum málum er háttað, hvaða tímafrestir eru settir í lögum og hvaða tímafrestir eru settir hjá hinum óháða dómstóli sem nú fær málið til meðferðar. Ég vona af heilum hug að kennarar snúi sem allra fyrst aftur til sinna starfa og að í störf þeirra sem ekki gera það fáist hæfir og góðir kennarar.