19.03.1985
Sameinað þing: 61. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3666 í B-deild Alþingistíðinda. (3012)

203. mál, kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég held að sú umr., sem hér hefur farið fram, hafi þegar sannað það sem ég sagði áðan. Það er svo óljóst hvað ábyrgir aðilar, eins og ráðh. í ríkisstjórn landsins segja um þessi efni að það stuðlar frekar að því að flækja svörin við spurningunni hver sé stefna Íslendinga í þessum málum.

Ég get nánast verið alveg sammála þeirri túlkun sem hér kom fram hjá hv. þm. Ellert B. Schram og ég er sannfærður um að mikill meiri hluti íslensku þjóðarinnar er þeirrar skoðunar að Íslendingar, sem eru vopnlaus þjóð sem ekki hefur her og ætlar sér ekki að hafa hann, eigi ekki að taka þátt í kjarnorkuvígbúnaðarkapphlaupinu með því að leyfa kjarnorkusprengjur í landinu. Við eigum tvímælalaust að marka okkur þá stefnu að við ættum ekki að leyfa kjarnorkuvopn. Það eru nú þegar til nægilegar birgðir af kjarnorkuvopnum til að útrýma öllu mannkyni mörgum, mörgum sinnum. Hæstv. utanrrh. vék að því áðan að jafnvel þótt lítill hluti af þeim birgðum væri notaður mundi það leiða til fimbulveturs sem útrýma mundi öllu lífi. Þess vegna sé ég ekki að það séu nein efnisleg rök fyrir því að bæta þurfi Íslandi í hóp þeirra landa sem bjóða upp á þann möguleika að geyma þessi vopn.

Það var hins vegar athyglisvert að hæstv. utanrrh. fór ekki hér úr ræðustólnum áðan með þá „formúleringu“ á stefnu sinni sem hann hefur þó oft áður gert, nú síðast fyrir nokkrum vikum hvað eftir annað. Þá sagði hæstv. utanrrh. opinberlega að það væri stefna íslenskra stjórnvalda að hér væru ekki kjarnorkuvopn nema íslensk stjórnvöld samþykktu staðsetningu þeirra. Ég spurði hæstv. utanrrh. að því mjög einfaldlega áðan hvort þetta væri ekki réttur skilningur á stefnu hans og þar með ríkisstj., þar sem hann fer með embætti utanrrh., vegna þess að hæst. forsrh. hefur nokkuð oft lýst yfir öðru.

Mér er einnig ljóst að fyrirrennari hæstv. utanrrh., Ólafur Jóhannesson, lýsti nokkuð oft sömu stefnu og hæstv. utanrrh. hefur lýst utan þings, þessari „nema“stefnu ef það má einkenna hana svo. Mér er það fyllilega ljóst. Það eru engin ný tíðindi, hæstv. utanrrh. Munurinn er hins vegar sá að Ólafur Jóhannesson sagði líka nokkuð oft að stefnan væri að á Íslandi yrðu ekki kjarnorkuvopn. Eins og ég sagði áðan var hann með báðar þessar túlkanir uppi nokkuð til skiptis og hægt að finna þeim báðum stað í hans yfirlýsingum. Að því leyti hefur núv. hæstv. utanrrh. verið meira samkvæmur því sem hann hefur lýst utan þings. Ég vil þess vegna ítreka þá spurningu hvers vegna hann kaus ekki að endurtaka það úr ræðustólnum að það væri hans stefna, og þá væntanlega ríkisstj. einnig, að hér væru ekki staðsett kjarnorkuvopn nema til kæmi leyfi íslenskra stjórnvalda.

Ráðh. kaus hins vegar að lesa upp texta, sem hann hafði meðferðis í ræðustólinn og er greinilega frá einhverjum öðrum vettvangi og ekki skal það gagnrýnt, þar sem ítarlega var reynt að draga úr, rýra og beinlínis andmæla stefnunni um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd og þar sem hæstv. ráðh. lýsti því sem sinni niðurstöðu að Norðurlönd ættu ekki að vera kjarnorkuvopnalaust svæði nema það væri liður í samningum Bandaríkjamanna og Sovétríkjanna, það væru í raun og veru Bandaríkin og Sovétríkin sem ættu að ákveða hvort Norðurlönd og þar með talið Ísland væru kjarnorkuvopnalaust svæði eða ekki.

Mér finnst hæstv. utanrrh. veita Sovétríkjunum ærið mikið forræðisvald yfir íslenskum málum þegar hann setur það fram í skrifuðum texta, sem hann les upp í ræðustólnum, að það eigi ekki að lýsa því yfir að Norðurlöndin og þar með talið Ísland séu kjarnorkuvopnalaust svæði nema Sovétmenn séu reiðubúnir að semja um það í samningum við Bandaríkin og öfugt, Bandaríkin við Sovétríkin. Þar með er búið að lýsa því yfir að það sé ekki Alþingi Íslendinga eða íslensk stjórnvöld sem eigi að taka ákvörðun um hvort Ísland eigi að vera án kjarnorkuvopnanna, heldur séu það risaveldin tvö sem eigi að semja um það sín á milli. Ég er sannfærður um að þessi stefna, sem hæstv. utanrrh. lýsti svo skýrt í hinum skrifaða texta sem hann las upp og var þess vegna greinilega engin tilviljun eða mismæli, á engan hljómgrunn meðal mikils meiri hluta íslensku þjóðarinnar. Ef íslenska þjóðin væri spurð að því hvort hún ætti að ákveða sjálf hvort hér ættu að vera kjarnorkuvopn í nútíð eða framtíð eða hvort ætti að fela Bandaríkjamönnum og Sovétríkjunum að semja um það, þá er ég alveg sannfærður um að yfirgnæfandi meiri hluti íslensku þjóðarinnar og yfirgnæfandi meiri hluti af kjósendum Sjálfstfl. þar með talinn, ég tala nú ekki um Framsfl., væri á þeirri skoðun að við ættum að ákveða það sjálf. Þessi stefna, að afhenda Sovétríkjunum og einnig Bandaríkjunum forræði yfir þessum málum okkar Íslendinga, er hættuleg stefna.

Ég held að það fari ekkert á milli mála, og mér þykir leitt ef einhverjir flm. þessarar till. telja að það skemmi kannske fyrir framgangi hennar í þinginu, að það hefur verið óhjákvæmilegt að draga fram þennan stefnumismun sem hér er uppi. Ég þekki hæstv. utanrrh. það vel og starfaði með honum lengi í utanrmn. að ég er nokkurn veginn alveg sannfærður um að hann mun aldrei láta þann texta sem í þessari till. er nú ganga óbreyttan í gegnum utanrmn. og verða samþykktan hér á Alþingi. Þess vegna væri fróðlegt ef hæstv. utanrrh. vildi svara því hér og nú hvort hann er reiðubúinn, eins og hv. þm. Ellert B. Schram og aðrir þm., að styðja að því að þessi till. verði samþykkt óbreytt eða ef hann vill gera á henni breytingar, hverjar eru þá þær breytingar.

Ástæða þess að ég dreg þetta hér fram er sú að mér finnst hættulegt í umræðum um utanríkismál að ábyrgir aðilar í landinu, ráðh. og þm., haldi svo óljóst á málum að almenningur getur ekki skilið hvað átt er við og það sé hlaupandi frá einu tímabili til annars hvað talið er vera hin ríkjandi stefna eða hvað menn eru nákvæmlega að segja. Það þjónar ekki tilgangi að nota slíkar almennar yfirlýsingar um jafnveigamikið mál og kjarnorkuvopnalaus svæði og kjarnorkuvopn almennt að almenningur lesi út úr því allt aðra túlkun en er ætlunin þess sem hana setur fram.

Ég ætla að taka annað dæmi til að sýna fram á þennan ruglanda í umræðunum, ruglanda sem ýmsir, eins og t. d. núv. hæstv. utanrrh. og fleiri, hafa stuðlað að að hér ríkti. Hann felst í því að það er endurtekið hvað eftir annað að Norðurlönd séu kjarnorkuvopnalaust svæði. Það er t. d. fullyrðing sem hæstv. utanrrh. hefur sett fram hvað eftir annað. Hlustendum er ætlað að lesa út úr þessum orðum þá merkingu að þar með sé öll umræðan um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum eiginlega alveg óþörf vegna þess að Norðurlönd séu nú þegar kjarnorkuvopnalaust svæði, þar séu engin kjarnorkuvopn, það vita allir og málið sé svo einfalt. Þetta hafa ýmsir ráðherrar sagt, bæði í núv. og fyrrv. ríkisstj., m. a. s. ríkisstj. sem ég studdi á sínum tíma. M. ö. o.: þjóðinni er gefið það til kynna að það sé enginn munur á þeim landssvæðum þar sem kjarnorkuvopn eru ekki staðsett þá og þá stundina og því sem í alþjóðlegri umræðu eru kölluð kjarnorkuvopnalaus svæði á lögformlegan og stjórnskipulegan hátt, sem er allt annað en samansafn þeirra landssvæða þar sem kjarnorkuvopn kunna ekki að vera þá og þá stundina. Þetta veit auðvitað hæstv. utanrrh. Engu að síður er það orðalag notað hvað eftir annað sem gefur almenningi til kynna að vegna þess að á Norðurlöndum séu ekki kjarnorkuvopn séu Norðurlönd kjarnorkuvopnalaust svæði. Þau eru það kannske skv. almennri málvitund þegar talað er á þennan hátt, en þau eru það ekki í skilningi hinnar alþjóðlegu, lögformlegu, stjórnskipulegu umræðu um málið. Þegar verið er að tala um Norðurlönd sem kjarnorkuvopnalaust svæði og þær kröfur eru settar fram t. d. af öllum jafnaðarmannaflokkum á Norðurlöndum, þá er auðvitað verið að tala um það í þeim skilningi að það sé gert með lögformlegum hætti. Það er þess vegna sem hæstv. utanrrh. er á réttara róli í þessum efnum þegar hann áður eyddi löngu máli í að sýna fram á að það mætti ekki gera það með lögformlegum hætti nema Bandaríkjamenn og Sovétmenn semdu um það sín á milli.

Ég ætla að nefna annað dæmi um þennan ruglanda. Það var þegar hæstv. utanrrh. í ræðu sinni áðan notaði það sem röksemd fyrir því að ekki væri ætlunin að taka kjarnorkuvopn til Íslands að Íslendingar og aðrar Norðurlandaþjóðir væru aðilar að samningum um takmörkun og útbreiðslu kjarnorkuvopna. Þetta voru rök sem hæstv. utanrrh. nefndi máli sínu til stuðnings um það að Norðurlönd væru kjarnorkuvopnalaust svæði vegna þess, eins og hann orðaði það, að þau ætluðu ekki að taka þátt í dreifingu kjarnorkuvopna. En eins og hæstv. utanrrh. veit mætavel fjallar þessi samningur alls ekki um þetta atriði. Það er einmitt eitt af kjarnaatriðunum sem eru undanskilin í þessum samningi að lönd geta leyft kjarnorkuveldunum að flytja kjarnorkuvopn þeirra inn til sín. Eina skuldbindingin sem

Norðurlöndin hafa undirritað í NPT-samningnum er að þau ætla ekki sjálf að búa til kjarnorkuvopn, ekki framleiða kjarnorkuvopn. En það er engin skuldbinding í þessum samningi um að lönd ætli sér ekki að taka við kjarnorkuvopnum frá einhverjum öðrum ríkjum og það er m. a. s., eins og ég sagði áðan, eitt af kjarnaatriðum þess að það tókst að gera þennan samning á sínum tíma hvað kjarnorkuveldin snertir. Það er m. a. ein ástæðan fyrir því að ríki eins og Belgía og Holland, sem eru jafnmiklir stuðningsmenn NPT-samningsins og Norðurlönd, eru að taka kjarnorkuvopn inn til sín, svo að ekki sé nú minnst á Vestur-Þýskaland þar sem úir og grúir af kjarnorkuvopnum út um allt, en er líka mikið stuðningsríki NPT-samningsins. Þetta er annað dæmi um þann ruglanda sem hafður er uppi í því skyni að túlka umræðurnar þannig gagnvart almenningi í landinu að hún dreifist út um víðan völl, menn komist hjá því að þurfa að taka á kjarna málsins. Auðvitað veit hæstv. utanrrh. þetta allt saman. Auðvitað veit hann að NPT-samningurinn fjallar ekki um þetta atriði.

Ég ætla að nefna þriðja atriðið, sem stundum er notað í þessum umr. og hæstv. utanrrh. nefndi hérna einnig, og það er hugtakið um „norrænt jafnvægi“ sem talið er mjög jákvætt fyrirbæri, nánast liður í norrænu samstarfi, og okkur öllum til góðs eins og hæstv. utanrrh. nefndi áðan. Ég get vel skilið hvers vegna Svíar eru hrifnir af hugtakinu „norrænt jafnvægi“. Það felur í sér að hlutleysisstefna Svíanna er styrki með því að Noregur, Danmörk og Ísland séu í NATO. Svíþjóð fær þannig visst skjól af því að hafa þrjú Norðurlandanna innan Atlantshafsbandalagsins. Ég get líka skilið hvers vegna Norðmenn og Danir hampa þessu hugtaki. Það felur í sér að Íslendingar hafi bandarískar herstöðvar, en Noregur og Danmörk þurfi ekki á því að halda og muni ekki gera það. Norðmenn geta skipulagt sína hernaðarstefnu í krafti þess að Íslendingar taki að sér að hafa bandarískan her, en Norðmenn þurfi ekki að gera það. En ég hef satt að segja aldrei getað skilið hvers vegna íslenskir ráðamenn telja íslenskri öryggisstefnu hag af þessu hugtaki, „norrænt jafnvægi“, vegna þess að það er alveg ljóst að út frá því eru það Íslendingar sem taka á sig langmestu áhættuna. Þeir taka að sér þá áhættu að hafa erlendar herstöðvar sem ekkert hinna Norðurlandanna hefur verið reiðubúið til að gera. Þeir taka að sér að standa í eilífri togstreitu við Bandaríkin um hvers konar vígbúnaði þeir vilji koma fyrir hér sem bæði Noregur og Danmörk sleppa við. Ég hef reyndar alltaf verið þeirrar skoðunar að þetta norræna jafnvægishugtak í öryggismálum væri einhver hættulegasta uppfinning út frá sjónarmiðum Íslendinga og gildir þá jafnt hvort menn eru NATO-sinnar eða herstöðvarsinnar eða andstæðingar hersins eða NATO hér á landi. Þetta er hins vegar mjög sniðugt hugtak fyrir Svía sérstaklega og einnig Norðmenn og Dani, og ætla ég þó ekki að fara að blanda mér í umræðurnar hér á landi um Noreg og Ísland að öðru leyti.

Herra forseti. Það var ýmislegt fleira í ræðu hæstv. utanrrh. sem eykur á þennan ruglanda. Hæstv. utanrrh. sagði m. a.: Við Íslendingar viljum ekki að kjarnorkuvopn séu notuð á hafsvæðum eða miðunum í kringum land okkar — eitthvað á þá leið. Efnislega var það svona þó að ég muni ekki orðin alveg nákvæmlega. Þetta er góð yfirlýsing og út af fyrir sig, ef ég íhuga hana, er ég alveg sammála henni. Ég held að hún sé alveg rétt lýsing á afstöðu Íslendinga. En þá spyr ég: Ef þetta er stefna hæstv. utanrrh., að Íslendingar séu á móti því að kjarnorkuvopn séu á hafsvæðinu kringum landið, hvers vegna er þá hæstv. utanrrh. ekki reiðubúinn að taka höndum saman við okkur hin í því að banna siglingar kjarnorkukafbáta um íslenska 200 mílna efnahagslögsögu? Það sigla kjarnorkukafbátar fram og aftur um efnahagslögsögu okkar, sovéskir kjarnorkukafbátar, bandarískir, breskir. Hæstv. utanrrh. hefur aldrei verið reiðubúinn að gera neina aths. við það. Meira að segja er hann að stuðla að því að hér sé aukinn aðbúnaður í landinu til að geta fylgst með siglingum þessara kjarnorkukafbáta. Hann telur það vera eina af meginástæðunum fyrir gildi herstöðvarinnar hér að hún geti veitt mjög nákvæmar upplýsingar um siglingar þessara kjarnorkukafbáta. Hæstv. utanrrh. hefur ekki heldur verið reiðubúinn að lýsa því yfir að Íslendingar ættu að neita algerlega að taka við þessum 48 kjarnorkudjúpsprengjum sem voru í áætluninni sem smíðuð var innan Pentagon, heldur hefur hann sagt að það þurfi að vera háð samþykki íslenskra stjórnvalda. M. ö. o.: því er haldið opnu á margvíslegan hátt að í hafinu í kringum Ísland séu kjarnorkukafbátar af margvíslegu tagi. Við tökum jákvætt á siglingu þeirra að því leyti að við viðurkennum að þeir þurfi að sigla þarna um, það þurfi bara að hafa eftirlit með því hvar þeir séu og hvernig þeir sigla og við leggjum land okkar undir að þetta eftirlit sé framkvæmt. En að banna siglingarnar sjálfar kemur alls ekki til greina. Með þeirri stefnu erum við að lögfesta að leyfa siglingar kjarnorkuvopnatækja um fiskveiðilögsögu okkar með reglubundnum hætti.

Það væri mjög gagnlegt ef umræðurnar um þessa till., sem hér hefur verið flutt, gætu orðið til þess að hér færu fram umræður um hvað menn geta náð saman um, þær færu fram af hreinskilni og reynt yrði að ná fram stefnumótun sem væri marktæk og hefði skýra merkingu, en væri ekki áframhaldandi liður í því að fela það fyrir almenningi í landinu um hvað þessi umræða snýst.

Herra forseti. Ég er ósammála þeirri stefnu hæstv. utanrrh. að Bandaríkjamenn og Sovétmenn eigi að semja um hvort Ísland sé kjarnorkuvopnalaust svæði eða ekki. Ég er andvígur þeirri stefnu. Það er hættuleg stefna. Íslendingar eiga sjálfir að ákveða hvort hér eru kjarnorkuvopn eða ekki. Það á að vera alfarið og eingöngu á valdi Alþingis og ríkisstj. að móta þá stefnu sem gildir gagnvart staðsetningu kjarnorkuvopna á Íslandi.