19.03.1985
Sameinað þing: 61. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3681 í B-deild Alþingistíðinda. (3024)

Umræður utan dagskrár

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það hlýtur að vekja athygli, ekki aðeins þingheims heldur alþjóðar, að þeir tveir ráðh. Sjálfstfl. sem öðrum ráðh. fremur fara með málefni kennara, sem varða þessa deilu, hæstv. fjmrh. og hæstv. menntmrh., láta ekki svo lítið að taka þátt í þessari umr. til að varpa ljósi á sínar skoðanir í þessu máli og svara þeim fsp. sem er beint til þeirra á Alþingi. Hæstv. fjmrh. neitaði því í síðustu viku að svara á Alþingi um deiluna, en hann tjáir sig í blöðum í dag. Þetta tel ég lítilsvirðingu gagnvart Alþingi af hálfu hæstv. ráðh. og trúi því ekki að hann ætli að láta þessa umr. líða hjá án þess að hann skýri sitt mál og þá afstöðu sem hann hefur látið koma fram í fréttatilkynningum af hálfu síns rn.

Sama gildir um hæstv. menntmrh. sem lagði traust sitt á það á fimmtudaginn var að kennarar mundu koma til starfa í skólum landsins á næstu dögum, en horfir nú framan í það að svo hefur ekki orðið og það ástand sem var dökkt fyrir fáum dögum er orðið svart í dag og æ fleiri nemendur taka nú pokann sinn, taka skólatöskuna og ganga heim og leita sér annarra starfa en námsins sem ekki er í boði nema í mjög skertum mæli innan skólanna.

Hæstv. fjmrh. gerði þá yfirlýsingu, sem kemur fram frá fjmrn. í dag, að boðið hafi verið nóg í þessari deilu, að sinni. Hann gerir þá yfirlýsingu að sinni að það sé nóg að bjóða kennurum, sem eru að hefja störf, 1700 kr. leiðréttingu á sínum kjörum á mánuði.

Það er ekki von að vel fari ef sá sem situr í forsæti ríkisstj. kemur hér fram og brýnir sig með þeim hætti sem við urðum vitni að hér áðan, taldi ríkisstj. sína liggja undir ámæli frá löghlýðnum borgurum og vitnaði til orða einstaklinga sem aðild eiga að þessari deilu máli sínu til sönnunar að ríkisstj. hafist ekki að. Forusta Hins ísl. kennarafélags stóð ekki að þeim fundi sem til var vitnað á Hótel Sögu um daginn mér vitanlega. Hún hefur ekki skrifað upp á þann miða sem hæstv. ráðh. var að vitna til til réttlætingar á aðgerðarleysi ríkisstj. í þessu máli.

Því verður ekki trúað að hæstv. ráðh. menntamála og fjármála komi ekki hér til að standa fyrir sínu máli. Því verður ekki trúað að ríkisstj. ætli að sitja við sinn keip að horfa upp á þetta neyðarástand fara versnandi dag frá degi án þess að hafast að.