20.03.1985
Efri deild: 51. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3698 í B-deild Alþingistíðinda. (3035)

98. mál, sóknargjöld

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Eins og ég kynnti við 2. umr. þessa frv. tel ég rétt að það komi fram athugasemdir við frv. til l. um sóknargjöld sem tekjudeild fjmrn. hefur komið á framfæri við mig. Skv. 1. gr. frv. skal gjaldskyldan ná til allra manna sem á er lagt útsvar skv. lögum nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga. Skylda til greiðslu sóknargjalda mundi skv. því ná til allra manna sem bera takmarkaða skattskyldu hér á landi skv. 3. gr. laga nr. 71/1981, sbr. 3. mgr. 22. gr. laga nr. 73/1980.

Hér er um að ræða menn sem afla launatekna sinna fyrir störf sín hér á landi um takmarkaðan tíma á árinu en eiga ekki skattalega heimilisfestu hér á landi, svo og menn sem héðan njóta ákveðinna tekna en eiga hvorki heimilisfestu né lögheimili hér á landi. Óeðlilegt virðist að ætla þessum mönnum að greiða sóknargjöld hér á landi þótt þeir beri takmarkaða útsvarsskyldu eins og verið hefur.

Þá er í 3. málsgr. 1. gr. að finna heimild til lækkunar eða niðurfellingar sóknargjalda ellilífeyrisþega, öryrkja eða annarra sem ástæða þykir til. Er þessi heimild í höndum sóknarnefnda. Sambærileg heimild er í 3. málsgr. 6. gr. og er hún miðuð við að ósk komi frá gjaldanda og sérstaklega standi á fyrir gjaldanda. Sýnist algjör óþarfi að tvítaka í lögunum þessar niðurfellingarheimildir sóknarnefnda nema því aðeins að þeirri fyrrnefndu sé ætlað að vera fyrirframákvörðun sóknarnefnda áður en kemur að álagningu en hinni síðari eftiráheimild eftir einstaklingsbundnum beiðnum.

Sé þessi skilningur lagður á ákvæðin verður að telja fyrirframheimildina mjög vafasama. Er langeðlilegast að löggjafinn setji meginreglur um gjaldskylduna og þær séu eins um allt land. Verður því að telja eðlilegt að 3. málsgr. 1. gr. falli niður eða í hennar stað komi ákvörðun löggjafans um hvaða hópar skuli undanþegnir gjaldinu. Í þessu sambandi er rétt að benda á að þeir, sem eru 67 ára og eldri, eru undanskildir gjaldinu skv. gildandi lögum. Þá væri rétt að taka af öll tvímæli í sjálfum lagatextanum að miðað sé við 16 ára aldur á tekjuárinu, en það kemur nú aðeins fram í athugasemdum.

Skv. 4. gr. er trúfélögum utan þjóðkirkjunnar veitt allt annars konar svigrúm en þjóðkirkjusöfnuðum til gjaldtöku af safnaðarbörnum. Sýnast sértrúarsöfnuðir bundnir af ákvörðunum þjóðkirkjunnar um lágmarksgjaldtöku. Þá virðist einnig ljóst að gjaldskylda einstakra meðlima í utanþjóðkirkjusöfnuðum getur orðið mjög mishá þar sem hún kann að ráðast af búsetu þeirra og ákvörðunum þjóðkirkjusafnaða á hverjum stað. Sem dæmi mætti nefna að kaþólskur einstaklingur sem byggi í umdæmi þjóðkirkjusafnaðarins þyrfti að greiða 0.8% af útsvarsstofni til kaþólsku kirkjunnar ef viðkomandi þjóðkirkjusöfnuður ákvæði hækkun sóknargjalda skv. 3. gr. meðan annar kaþólikki slyppi e. t. v. með 0.2% gjöld til sinnar kirkju vegna þess að sóknarnefnd þjóðkirkjunnar í hans umdæmi beitti lágmarksgjaldtöku skv. 2. gr. Þá er einnig athyglisvert að utanþjóðkirkjusöfnuðir eru ekki bundnir af neinum hámörkum varðandi gjaldtöku andstætt þjóðkirkjusöfnuðunum.

Verður ekki betur séð en að ef sértrúarsöfnuður ákvæði að leggja skuli hærra gjald, t. d. 30% á útsvarsstofn, þá væri skattstjóri skyldugur til að leggja þann skatt á, sbr. 6. gr., og innheimtumanni skylt að innheimta skv. 7. gr. Hér sýnist því full þörf á að setja hámark með sama hætti og meiri hluti menntmn. leggur til varðandi utansafnaðamenn í 5. gr.

Um 6. gr. segir: „Í 3. málsgr. er sóknarnefndum heimilað að lækka eða fella niður sóknargjöld eftir umsókn og eru engin efnisskilyrði sett fyrir niðurfellingunni. Er sóknarnefndum hér með veitt mun víðtækara vald til gjaldaniðurfellingar en skattstjórum skv. 66. gr. laga nr. 75/1981 og sveitarstjórnum skv. 27. gr. tekjustofnalaga. Hefur hingað til verið talið eðlilegt að setja slíkum niðurfellingarheimildum ákveðinn lagaramma til að tryggja samræmi í niðurfellingum og að efnislegar ástæður séu að baki niðurfellinganna. Verður ekki séð að þessi þörf sé fremur fyrir hendi að því er sóknargjöld varðar en tekjuskatt, eignarskatt og útsvör.“

Í þessu sambandi er rétt að benda á að lækkanir skattstjóra skv. 66. gr. laga nr. 75/1981 munu sjálfkrafa hafa áhrif til lækkunar sóknargjalds þar sem þær lækka útsvarsstofninn. Hins vegar munu lækkanir sveitarstjórna skv. 27. gr. tekjustofnalaganna ekki hafa sjálfkrafa áhrif á sóknargjöld. Þá er einnig rétt að vekja athygli á því að utanþjóðkirkjumenn, hvort sem þeir greiða til síns trúfélags eða Háskóla Íslands, eiga engan kost á niðurfellingu eða lækkun skv. þessari gr.

Um 7. gr. segir: „Fyrirsjáanlegt er að það mun valda verulegum erfiðleikum í framkvæmd að haga innheimtu á þann hátt sem ráðgert er í greininni. Álagningarskrár skattstjóra skv. 6. gr. verða ekki sjálfkrafa innheimtuskrár hjá neinu einstöku innheimtukerfi heldur geta dreifst á hina og þessa innheimtuaðila. Mun þessi dreifing geta valdið framkvæmdaerfiðleikum auk þess sem hún torveldar mjög allan samanburð á álögðum gjöldum og þeim gjöldum sem til innheimtu eru. Þá er ljóst að vinnslukostnaður verður mun hærri en ella. Langbrotaminnsta leiðin væri að fela tilteknu innheimtukerfi, t. d. innheimtumönnum ríkissjóðs eða sveitarstjórna, innheimtu allra sóknargjalda.“

Þá er gerð athugasemd við lokamálslið 1. málsgr. 7. gr. varðandi frjálsa samninga um innheimtulaun. Þau ættu að vera samræmd og lögákveðin, þ. e. tiltekinn hundraðshluti sem ætlað er að standa undir álagningar- og innheimtukostnaði.

Um 9. gr. segir: „Hér er lagt til að kirkjumálaráðherra setji nánari reglur um framkvæmd gjaldálagningar. Álagning gjaldanna er í höndum skattstofanna er heyra undir fjmrn. og eru um öll önnur gjöld háðar verklagsreglum ríkisskattstjóra. Mun það ekki einfalda framkvæmd mála í skattakerfinu að fela öðrum aðilum að setja framkvæmdareglur um þetta eina efni.“

Um 10. gr. segir: „Lögunum er ætlað að öðlast gildi við álagningu 1985 vegna tekna ársins 1984. Sýnist allt of skammur tími til stefnu til að undirbúa framkvæmd skv. þeim nú í sumar. Má í því sambandi benda á að frestir til tilkynninga skv. 6. gr. renna út hinn 30. mars. Þar sem frv. er um margt snúið í framkvæmd er líklegt að gildistaka þess nú þegar kunni að valda því að álagning opinberra gjalda dragist fram á haustið. Er þetta áhyggjuefni bæði ríkisskattstjóraembættisins og SKÝRR. Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á því að álagningarvinnan 1985 er þegar vel á veg komin og því ljóst að frv. þetta, verði það að lögum, setur þar strik í reikninginn.“