20.03.1985
Efri deild: 51. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3707 í B-deild Alþingistíðinda. (3040)

98. mál, sóknargjöld

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég á sæti í þeirri nefnd sem um þetta mál hefur fjallað og var viðstaddur þegar á fund nefndarinnar kom sérfræðingur fjmrn. og málið var rætt þar fram og til baka. Mér kemur það því nokkuð spánskt fyrir sjónir að nú, þegar 2. umr. lýkur, skuli hæstv. fjmrh. koma hingað með margvíslegar athugasemdir. Allt getur þetta átt sér sínar eðlilegu skýringar og ég ætla ekki að fara að nefna neinn blóraböggul hér eða kenna neinum um. En engu að síður eru þetta ekki mjög góð vinnubrögð.

Efnislega skal ég ekki lengja þessa umr. Ég stend að nál. meiri hl., skrifa undir það, er þó að vísu þeirrar skoðunar að hækkunin upp í 0.8% sé fullmikil og hefði jafnvel getað hugsað mér að flytja brtt. um að sú prósentutala væri eitthvað lægri. En úr því sem komið er er ekkert annað að gera en afgreiða þetta mál héðan úr Ed. til 3. umr. og að nefndin taki það strax til meðferðar að nýju og ræði þær athugasemdir sem fram hafa komið af hálfu fjmrn., taki þær til greina eftir því sem nefndinni þykir ástæða til og greiði síðan veg málsins þannig að það geti komið til 3. umr. í þessari hv. deild eins skjótt og verða má. Ég held að með góðu samkomulagi allra, sem hlut eiga að máli, ætti það að geta orðið strax eftir helgi.