25.03.1985
Efri deild: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3788 í B-deild Alþingistíðinda. (3122)

331. mál, náttúruvernd

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð um þetta frv. og þó kannske öllu frekar um mál þessu skylt í tengslum við þetta, þessa þörfu endurskoðun laga um náttúruvernd, sem unnin hefur verið af þeim sem gleggst þekkja hér til og í samráði við þá sem hafa fylgst með framkvæmd núgildandi laga og fundið þá agnúa sem þar hafa helst orðið til trafala.

Ég tek eftir því hins vegar og vildi víkja að því að hér kemur fram að frv. sé samið að tilhlutan Náttúruverndarþings og í samráði við Náttúruverndarráð. Það er vitnað í fyrri Náttúruverndarþing, allt frá 1975 og síðast 1981. En ef ég man rétt þá var síðasta þing haldið fyrir u. þ. b. ári og ég hélt að nær fullbúið frv. hefði verið til umfjöllunar á því þingi. Og mig minnir einhvern veginn, það getur þó verið misminni hjá mér, að athugasemdir ýmsar hafi komið fram við það frv., máske ekki stórvægilegar, en þó um ýmis atriði þar til áherslu og áréttingar. Þetta þykist ég muna þó að ég hafi samþykktir þingsins ekki hér tiltækar. Ég vildi a. m. k. að það yrði aðgætt í nefnd hversu þær athugasemdir sem Náttúruverndarþingið síðasta, 1984, gerði hefðu komist til skila í núverandi frv. þó ég efist ekkert um að þær hafi gert það í meginatriðum.

Hæstv. ráðh. hefur rakið helstu breytingar og áréttingar þessa frv. svo að mínar hugleiðingar verða hér frekar almenns eðlis og snerta raunar víðtækara málasvið. Ég tek undir það að gildi löggjafar sem skýrastrar og ítarlegastrar um meginatriði náttúruverndar er ótvírætt. Og þakka ber hæstv. ráðh. fyrir framlagningu þessa máls sem hlýtur að eiga greiða leið hér í gegnum þingið þó að nokkuð sé liðið á það.

Það kom fram í máli hæstv. ráðh. að til árekstra hefði vissulega komið milli ýmissa hagsmunaaðila og þeirra aðila sem ættu að sjá um framkvæmd náttúruverndarlaga. Vitanlega hafa lögin um náttúruvernd og framkvæmd þeirra oft stangast á við hagsmuni og hagsmunaaðila ýmiss konar. Af því tilefni hafa ýmsir gert sér leik að því að gera lögin tortryggileg og telja þau eins konar haftalög á frelsi manna til að umgangast landið, þar með taldar eignir sínar, með eðlilegum hætti. Árekstrar af þessu tagi eru vel þekktir enda tillitsleysi okkar við umhverfi, gróður og náttúru landsins allt of áberandi og hefur verið í tímans rás. Sjálfsþurftin kallaði hér oft áður á ýmiss konar spjöll og eyðingu. En sá tími er löngu liðinn og er það vel.

Langflestir gera sér það ljóst sem betur fer að rask og eyðing verður ekki aftur tekin og hvarvetna þarf að taka tillit til langtímasjónarmiða sem snerta gæði landsins, fegurð þess og verðmæti þessara eiginda þess. Mér sýnist við fljótan yfirlestur að ljóst sé að þessi langtímasjónarmið séu í öndvegi í þessum lögum og enn frekari áréttingar á ýmsu gerðar frá því sem lögin um náttúruvernd fjalla um í dag. Ég kom hins vegar aðallega hér upp til þess að benda á að þegar við fjöllum um frv. af þessu tagi, um þetta afmarkaða mikilvæga svið, þá verður okkur ósjálfrátt hugsað til þeirrar vöntunar sem er á lagastoð og lagasamræmingu í ýmsum öðrum náskyldum greinum.

Ekki skal hér höfð uppi löng tala um þau mál sem einu nafni flokkast undir umhverfismál. Í meðförum Alþingis er tillaga um þetta efni, alla þætti sem þar skipta máli, sem hv. 5. þm. Austurl. hefur flutt ásamt okkur fleirum. Sú till. er til umfjöllunar. Umhverfismálafrv. var flutt í Nd. í fyrra af hv. 2. þm. Reykn. Gunnari G. Schram og fleirum og fsp. til hæstv. félmrh. um þessi mál hefur nýlega verið rædd á þingi og greinilegt af því að enn mun bið á heildarlöggjöf um þessi málefni öll. Nú er það vitað að umhverfismálalöggjöf tekur til margra ólíkra þátta, sem þá mynda eina samofna heild ef vel tekst til um löggjöfina, og þá koma vitanlega lög um náttúruvernd almennt inn í þá heildarlöggjöf.

Ég vil við þetta tækifæri nefna aðeins örfá áhersluatriði úr till. þeirri sem hv. 5. þm. Austurl. er flm. að, en hann mun að öðrum hv. þm. ólöstuðum einna kunnugastur öllum þessum málum. Þar er um að ræða atriði um yfirstjórn, hvernig æðsta stjórn í ráðuneytunum sé yfir þessum málum eða þá í einu ráðuneyti sem fari með öll umhverfismálin. Þar er komið inn á mál sem snertir reyndar náttúruverndina, mengunarlöggjöfina, aðkallandi mál og brýnt að á verði tekið. Gróðurvernd sem að vísu hefur verið tekið á með landgræðsluáætluninni en lagastoð hvergi nærri slík sem þyrfti. Nýting og verndun dýrastofna þar sem vistfræðileg viðhorf þurfa að fléttast inn í hagkvæmnissjónarmiðin á eðlilegan máta. Verndun fossa og fallvatna sem er nauðsynlegt innlegg í okkar orkunýtingu almennt. Ferðamál og umhverfisvernd eru þar veigamikill þáttur og í tengslum við þau umhverfisfræðsla í skólum landsins. Skipulagsmálin koma hvarvetna inn í þessa mynd og svo mætti áfram telja.

Ég ætla sem sagt ekki að lengja umr. um þetta ágæta mál hér og nú. En þegar fyrir framan okkur er ágætt frv. um einn veigamikinn, máske einn veigamesta þátt umhverfismálanna í heild sinni, þá fer ekki hjá því að saknað sé annarra þátta og heildarlaga um málið allt, sem brýn þörf er á að fá sem fyrst. Það er hins vegar ljóst að þetta mál er ekki í verkahring hæstv. menntmrh. og væri nær að beina þessu máli til einhverra annarra. Það ber hins vegar að fagna þessu skrefi sem nú er tekið, án þess að efnislega sé út í þær breytingar farið sem sýnast mjög til bóta og í samræmi við reynslu og framkvæmd fyrri laga, og nauðsynlegar af þeim sökum til auðveldunar allri frekari útfærslu og aðgerðum í anda löggjafarinnar, sem verður þá til þess vonandi að árekstrar verða ekki eins miklir milli „hagsmunaaðila“ ýmissa, hagsmunaaðila sem þykjast vera varðandi landið og eignarréttinn á landinu og þeirra sem vilja framkvæma lögin um náttúruvernd undanbragðalaust.