25.03.1985
Efri deild: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3790 í B-deild Alþingistíðinda. (3123)

331. mál, náttúruvernd

Björn Dagbjartsson:

Virðulegi forseti. Frv. sem hér liggur fyrir hefur verið alllengi í smíðum, enda von, því að hér er um mjög flókinn málaflokk að ræða. Það er eflaust rétt að þörf hafi verið á endurskoðun á fyrri lögum. Þó finnst mér þetta frv. sem hér er um fjallað engan veginn fullkomið og mér segir svo hugur um að það eigi eftir að taka allnokkrum breytingum áður en það verður að lögum.

Frv. var lagt fram dagana fyrir stóra norræna þingið og hefur því e. t. v. ekki verið lesið eins grandgæfilega þess vegna. Við fljótlegan lestur og lauslegan samanburð virðist mér þó að Náttúruverndarráði og þingi séu hér enn ætluð meiri afskipti af atvinnuháttum landsmanna en nú er og þótti þó ýmsum nóg um. Eitt er eftirtektarvert. Það er hve lögin hafa lengst mikið. Það er eytt miklu meira máli í að orðlengja einstakar lagagreinar. Allt finnst mér þetta frv. bera þess augljós merki að það sé samið af Náttúruverndarráði fyrir ráðið, en aðrir hafi þar lítið komið nærri enn þá. Ég treysti því hins vegar að sveitarstjórnir, aðilar vinnumarkaðarins, landeigendur og margir fleiri eigi eftir að fá þetta mál til umsagnar og ég er viss um að það er vilji hæstv. ráðh.

Áður en málið fer í nefnd langar mig að koma nokkrum atriðum á framfæri sem auðvitað eru valin af nokkurri fljótaskrift, en gæti orðið til hliðsjónar hæstv. n. við umfjöllun.

Það er þá í sambandi við 5. gr. að mér virðist óljóst hvort allir sem boðaðir eru á Náttúruverndarþing hafi þar atkvæðisrétt eða jafnvel málfrelsi. Það hefur komið fyrir að mönnum hefur verið synjað þar um málfrelsi og það er náttúrlega slæmt til þess að vita að menn séu boðaðir á þing án þess að hafa þar málfrelsi.

Við 6. gr., þar sem hæstv. ráðh. minnti á sérstakan umboðsmann ráðsins, virðist mér nokkuð óljóst um hlutverk hans og réttindi og skyldur.

Í 7. gr. segir aðeins að Náttúruverndarráð skuli hafa samráð við samtök áhugamanna og stofnanir, sem fjalla um náttúruvernd og útilíf, en ekki að ráðið hafi samband og samráð við aðra hagsmunaaðila, eins og fulltrúa atvinnulífsins, sem mér virðist þó vera sjálfsagt.

Í 11. gr. er ekki tekið sérstaklega fram að sjór og grunnsævi, eins og ósar og sjávarlón, séu með í þessum lögum og svo vantar þar skilgreiningu á því hvað spilling er.

Skv. 32. gr. virðist Náttúruverndarráði heimilt upp á sitt eindæmi að friðlýsa tegundir og þarf einungis staðfestingu menntmrh. Það virðist sem sagt ekki nóg með það að t. d. seli og hvali mætti þá friðlýsa með samþykkt á tillögum Náttúruverndarráðs eftir staðfestingu menntmrh., heldur einnig þorsk og aðrar tegundir. Og ég get ekki séð að það þurfi að hafa samráð við einn eða neinn um þetta mál.

Eins og sagði áður þá eru þessi nýju lög, ef samþykkt verða, mun lengri og ítarlegri en þau eldri en samt sem áður ekki ljósari að sumu leyti. Ég gæti trúað að það yrði flóknara að framfylgja þeim en þeim eldri og þau munu örugglega útheimta meiri löggæslu en þau lög sem nú gilda. Það eru í gildi lög um dýravernd og fuglavernd og það væri ekkert óeðlilegt, að mér virðist, að innlima þau í þessi lög með nauðsynlegum breytingum.

Virðulegi forseti. Þetta var það sem ég vildi segja í bili. Eins og hv. þm. hafa eflaust tekið eftir munu ýmsir hafa ýmislegt við þessi lög að athuga. Mér dettur í hug nýleg blaðagrein sem ég rakst á eftir Ara Trausta Guðmundsson jarðfræðing. Hann fjallaði þar um ferðir áhugamanna á fjórhjóladrifsbílum um hálendið. Ef ég man rétt þá fannst honum óeðlilegt og ónauðsynlegt að vera með öll þess boð og bönn. Hann héli því fram að fræðsla og kynningarstarfsemi mundi fá þar meiru áorkað. Ég er honum sammála um það atriði. Því að hvernig í ósköpunum á venjulegt fólk að geta farið eftir stöðugum stígum sem lagðir eru, þó að þetta fólk gæti lesið yfir allar reglur sem um þetta giltu? En flestir sem um landið ferðast reyna sitt besta til að fara að öllu með gát.

Virðulegi forseti. Eins og áður sagði vildi ég aðeins koma þessum athugasemdum á framfæri áður en málið færi í nefnd.