25.10.1984
Sameinað þing: 10. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í B-deild Alþingistíðinda. (314)

3. mál, umsvif erlendra sendiráða

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég verð að leiðrétta hv. síðasta ræðumann að því leyti að ég hafi veigrað mér við að ræða þessi mál opinskátt hér í sölum Alþingis. Það sem ég sagði að betur færi að bera saman bækur sínar um í utanrmn. voru upplýsingar frá erlendum ríkjum sem þau veita sem trúnaðarmál til okkar. Ég vil aðeins að þessi leiðrétting komi skýrt fram. Að öðru leyti hef ég ekkert á móti því að ræða opinskátt um þessi efni. En varðandi þá fyrirspurn sem hv. þm. kvað mig ekki hafa svarað, hvort takmarkanir hafi verið gerðar á húsnæðiskaupum erlendra sendiráða hér á landi, þá hefur aðeins eitt mál, að því er ég best veit, komið til úrskurðar dómsmrn. eftir að lögin frá 1980 voru sett. Það voru kaup á húseign fyrir verslunarfulltrúa sovéska sendiráðsins. Dómsmrn. veitti þá heimild, en ég var reyndar andvígur því og gat um það í utanrmn. á þeim tíma. Síðan hafa ekki komið fram beiðnir eða óskir um húsnæðis- eða fasteignakaup af hálfu erlendra sendiráða.