26.03.1985
Sameinað þing: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3848 í B-deild Alþingistíðinda. (3202)

376. mál, réttarstaða fólks í óvígðri sambúð

Fyrirspyrjandi (Maríanna Friðjónsdóttir):

Herra forseti, virðulegi þingheimur. Fyrir þinginu liggur fsp. til dómsmrh. á þskj. 604 sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hvað líður störfum nefndar sem skv. ályktun Alþingis frá 17. febrúar 1981 átti að gera tillögur um hvernig réttindum fólks í óvígðri sambúð yrði best fyrir komið sérstaklega með tilliti til eignar- og erfðaréttar?

Hyggst ráðh. leggja fram frv. á yfirstandandi þingi sem tryggi réttarstöðu þessa fólks?“

Nú eru rúmlega fjögur ár liðin frá því að þessi þáltill., sem Alþfl. lagði fram, var samþykkt hér í þingsölum og enn bólar ekkert á niðurstöðum nefndarinnar. Í óvígðri sambúð ríkir í reynd margháttuð réttaróvissa, ekki síst með tilliti til eignar- og erfðaréttar. Hjónabandið er hins vegar sem stofnun verndað af löggjafanum á margan hátt. Um það gilda ítarleg lög, t. d. um stofnun og slit hjúskapar, lög um réttindi og skyldur hjóna, svo og sérstök ákvæði í erfðalögum svo að nokkur atriði séu nefnd. Óvígð sambúð nýtur hins vegar lítillar réttarverndar jafnvel þótt hún sé algengt form á sambúð karls og konu.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands frá árinu 1983 má telja að um 10% allra þeirra sem eru í sambúð á annað borð séu í óvígðri sambúð. Þó er víst að fjöldinn er enn meiri því að Hagstofan getur einungis stuðst við upplýsingar sem fólk gefur ef það tilkynnir óvígða sambúð eða ef það hefur sameiginlegt lögheimili og barn á framfæri. Það er óviðunandi hve mikil óvissa ríkir um réttarstöðu fólks í óvígðri sambúð. Má að því víkja að á árinu 1983 voru lögfest fyrir Bæjarþingi Reykjavíkur á milli 90 og 100 mál er risu vegna óvígðrar sambúðar.

Oft er það svo að óvígð sambúð stendur jafnvel áratugum saman og eignamyndun hefur orðið veruleg á þeim tíma. Eignamyndunin er sameiginlegt framlag beggja sambúðaraðila ýmist beint eða óbeint. Síðan rísa upp við sambúðarslit mikil vandamál, sérstaklega ef aðeins annar aðilinn er þinglýstur eigandi eignanna. Er þá oft farin sú leið að í stað þess að senda annan aðilann — í mörgum tilvikum konuna — slyppa og snauða út á götuna eru henni dæmd ráðskonulaun eða sambærileg þóknun fyrir störf hennar í þágu heimilisins. En það liggur í augum uppi að ef um mikla eignamyndun hefur verið að ræða á sambúðartímanum getur sú fjárhæð verið hverfandi lítil í samanburði við það að um helmingaskipti á eignum væri að ræða eins og tíðkast um sambúðarslit hjóna. Einnig má benda á að í óvígðri sambúð skapast engin erfðatengsl milli sambúðarfólks og því nýtur sá er lengur lifir ekki erfðaréttar nema sérstök erfðaskrá hafi verið gerð. Þeir sem búa í óvígðri sambúð eiga því ekki gagnkvæman erfðarétt og ekki rétt til að sitja í óskiptu búi. Erfðaréttinn verður að tryggja með erfðaskrá og er ekki víst að fólk gæti að því að gera þær ráðstafanir í tíma, jafnvel þótt fullur vilji hafi verið fyrir slíku.

Af því sem hér hefur verið rakið má ljóst vera að brýnt er að ekki dragist úr hömlu að leggja fram tillögur um úrbætur á því hvernig réttindum og skyldum í óvígðri sambúð verður best fyrir komið. Því spyr ég hæstv. dómsmrh. hvort hann hyggist leggja fram frv. á yfirstandandi þingi sem tryggi réttarstöðu þessa fólks.