26.03.1985
Sameinað þing: 65. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3876 í B-deild Alþingistíðinda. (3221)

365. mál, vegáætlun 1985--1988

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Mér heyrist menn vera farnir að flytja framboðsræður hver um annan þveran og undirbúa sig í kosningaslag. Ekki skal ég falla í þá gryfju að gera slíkt því að ég sé ekki að þess sé að vænta að hæstv. ríkisstj. sé að gefa upp andann. Mér sýnist, hvað sem aðrir segja, að hún ætli sér að sitja og sitja enn um sinn. Það er mín spá þó að ég vildi svo gjarnan að það kæmu betri tímar með betri mönnum.

En út af því sem hv. síðasti þm. sagði um samanburð á samgrh., þá vil ég miklu heldur hafa núverandi ráðh. en forvera hans og það má hafa eftir mér hvar og hvenær sem er, en það var einmitt hv. þm. sem síðast talaði sem studdi forvera núv. samgrh. í síðustu ríkisstj.

Ég skal ekki, herra forseti, tala lengi þó að vissulega sé nú til umr. eitt af stærri a. m. k., ef ekki stærstu, málum sem snúa að okkur dreifbýlisfólki og ástæða væri vissulega til þess að gefa meiri gaum og ræða meira en gert er á Alþingi. Það gefst væntanlega til þess tækifæri síðar við umfjöllun um þáltill. að ræða málið frekar.

Ég tek að sjálfsögðu undir þakkir til hæstv. samgrh. fyrir allar upplýsingar sem hann gaf í sambandi við vegamál, vegaframkvæmdir og annað slíkt. Hins vegar hlýt ég að harma það, eins og raunar aðrir sem hér hafa talað, að hann skyldi verða undir í baráttunni fyrir því að halda fram þeim markmiðum fyrir árið í ár sem hv. Alþingi var sammála um að stefna skyldi að. Ég veit að hæstv. samgrh. er jafnóhress með þetta því að ég hygg að hann sé óvanur því að lenda undir. Ég dreg ekki í efa að hann hefði gjarnan viljað halda 2.4% markinu þó að greinilegt sé að það muni ekki takast í ár.

Ég tók eftir því að hæstv. ráðh. sagði í framsöguræðu sinni áðan að hann hefði stillt upp næstu þremur árum með hliðsjón af langtímaáætlun. Ég held að nauðsynlegt sé að fá alveg á hreint og það sem allra fyrst hvort það er ekki ótvírætt af hálfu hæstv. ríkisstj. og meiri hl. Alþingis að langtímaáætlunin, þ. e. 2.4%, gildi á árinu 1986 og það sem eftir er þess tímabils sem hér er verið að ræða um. Ég held að nauðsynlegt sé að fá þetta fram vegna þess að það er tiltölulega nýtt fyrir mér að heyra hæstv. ráðh. vera svona hógværan í orðavali, að stilla upp þessu eða hinu. Það gefur til kynna, a. m. k. í mínum huga, að ekki liggi alveg ótvírætt fyrir af hálfu hæstv. ríkisstj. að t. d. á árinu 1986 eigi að miða við 2.4% eins og langtímaáætlunin gerir ráð fyrir. Það er nauðsynlegt, að mínu viti, að það komi fram sem fyrst. — Nú er verst að hafa ekki hæstv. fjmrh. til þess að fá hjá honum vilyrði varðandi þetta.

Hæstv. samgrh. vék líka að einu máli sem er fullkomin ástæða til að fá úr skorið áður en sú áætlun sem hér liggur fyrir verður afgreidd. Það er í sambandi við afborganir lána sem tekin hafa verið af öðrum en ríkissjóði. Ef ég hef tekið rétt eftir nefndi hæstv. samgrh. að þarna væri um að ræða 14 millj. kr. á árinu 1983. Einhver skuld hlýtur að vera til 1984. Það væri ekki óeðlilegt að ætla að þarna væri um að ræða 30–35 millj. kr. sem enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um að ríkissjóður standi skil á. Úr þessu verður auðvitað að skera og ekki skal ég liggja á mínu liði, hæstv. ráðh., í fjvn. að knýja fram að við þetta verði staðið. (Samgrh.: Þakka þér fyrir.)

Í öðru lagi tók ég ekki eftir því að hæstv. ráðh. nefndi það, en mér býður svo í grun, að um einhvern halla væri að ræða frá liðnu ári eða liðnum árum að því er varðar vegaframkvæmdir og þá sér í lagi líklega viðhaldið. Það er ekki laust við að ég óttist að fjmrn. sé ekki allt of vinsamlegt þegar að því kemur að standa skil á slíku sem þó var samþykkt á sínum tíma, og a. m. k. af hálfu fjvn., að gert yrði. Ekki veit ég hversu háar þær upphæðir eru, en ég hygg að þarna kunni að vera um nokkuð miklar fjárhæðir að ræða sem eru halli frá árinu 1984 og einhver trúlega líka frá fyrri árum.

Hv. þm. Helgi Seljan vék að því áðan að það skyti nokkuð skökku við hversu menn ætluðu að vera miklu jákvæðari á næsta ári í fjárveitingum til vegaframkvæmda en menn eru í ár. Það virðist yfirleitt vera svo, líklega sama hvaða ríkisstjórn á í hlut, að menn ætla alltaf að gera betur á næsta ári en því sem þeir eru um að tala í hvert skipti. Ég hygg að það eigi ekki einvörðungu við um þessa hæstv. ríkisstj., en vissulega er hvimleitt að í þessu sem og öðru skuli ekki vera staðið við gefin fyrirheit og þær yfirlýsingar og áætlanir sem búið er að gera, þannig að þeim megi a. m. k. nokkurn veginn treysta.

Ég tek undir það með hæstv. samgrh., og hef raunar gert það og gerði það síðast þegar vegáætlun var rædd, að ástæða sé til að taka fjármagn að láni til vegaframkvæmda þó um sé að ræða erlent fjármagn. Ég held að ég hafi sagt það við hæstv. samgrh. þegar þessi mál voru hér síðast til umr. að hvað sem liði öllum viðvörunum míns flokks í sambandi við erlendar lántökur, sem ég tek að sjálfsögðu undir, mætti hann eiga mig vísan vildi hann auka verulega framkvæmdir í vegamálum þó með erlendum lántökum væri. Ég tel að það séu svo arðbærar framkvæmdir og svo nauðsynlegar, ekki hvað síst fyrir okkur sem byggjum hinar dreifðu byggðir, að það sé fullkomlega réttlætanlegt að taka lánsfé til slíkra framkvæmda og það skili sér fljótlega aftur.

Þá fundust mér athyglisverðar þær upplýsingar hæstv. ráðh. hve mikill væri beinn kostnaður, 5–6 millj. kr., af að innheimta þungaskatt. Ég held að ég hafi tekið rétt eftir því að beinn kostnaður sé milli 5 og 6 millj. fyrir utan það sem einstaklingar þurfa að greiða, við að innheimta þetta gjald. Ef ástæða er til að ætla að hæstv. ráðh. sé að fara úr stólnum ætti hann nú að taka sig til og hrista þetta af sér áður en hann yfirgefur samgönguráðherrastólinn, kippa þessu í liðinn og breyta til.

Það er fjölmargt sem ástæða væri til þess að ræða í sambandi við vegáætlun, en ég skal ekki, herra forseti, bæta miklu við þau orð sem ég hef þegar sagt. Ég vil þó aðeins víkja að útboðsmálunum sem hér hefur líka borið á góma.

Ég hygg að það kunni að vera rétt að hægt sé að afkasta meira fyrir minni fjárhæðir með útboðum. Þó kunna á því að finnast ýmsar hliðar. Ég tel nauðsynlegt að ganga úr skugga um hvort þær fullyrðingar, sem margir hafa haldið fram um hagkvæmni útboða í framkvæmdum, eru réttar. Í ljósi þess er sú þáltill., sem hv. þm. Helgi Seljan vék að áðan, fram borin. Ég held að æskilegt sé allra hluta vegna, allra aðila vegna, að fá úr því skorið hvort hér er um að ræða hagkvæmni og þá hversu mikla. Ég hef hins vegar verið mjög uggandi yfir því að útboð leiddu til verkefnaleysis ýmissa aðila sem hafa með nokkrum tilkostnaði a. m. k. byggt sig upp til þess að inna þessi verkefni af höndum — þá á ég við í heimahéraði. Ég held að nauðsynlegt sé, a. m. k. við smærri verkefnin, að huga að þætti heimamanna í slíkum framkvæmdum. Ég held hins vegar að það sé rétt, sem hæstv. samgrh. sagði, a. m. k. þar sem ég þekki til, að í stærri verkefnunum og kannske hinum smærri líka hafi tekist nokkuð þokkalegt samstarf milli verktaka þó utanaðkomandi væri, og heimaaðila. En ekkert tryggir til frambúðar að svo verði þó að svo hafi gerst á því svæði sem ég þekki kannske hvað best til. Kannske er þetta með öðrum hætti annars staðar og þar hafi ekki tekist slíkt samstarf. En það er nauðsynlegt að huga vel að því að heimaaðilum sé gert kleift að koma inn í þessa mynd að því er varðar framkvæmdir og jafnvel viðhald vega.

Ég hlýt líka að taka undir þau orð hæstv. samgrh. að það beri að fara að huga að undirbúningi jarðgangagerðar hér á landi. Það hlýtur að vera framtíðin. Það kann að vera að við þurfum einhver ár að bíða eftir slíku. Vonandi verða þau sem fæst. En enginn vafi er á því að jarðgöng munu tengja saman hinar dreifðu byggðir hjá okkur í náinni framtíð. Þetta er auðvitað gífurlega dýrt fyrirtæki og því fyrr sem farið er að huga að slíku, því betra. Um þetta hygg ég að allir hljóti að vera sammála.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa öllu fleiri orð um þetta nú. Mér gefst tækifæri til þess í fjvn. að fá frekari upplýsingar um ýmsa þætti sem að þessu lúta. Bæði ég og aðrir hv. þm. vildum gjarnan fá miklum mun meira til ráðstöfunar í þessum verkþætti en hér um ræðir. Ég efast ekkert um að svo er einnig um hæstv. samgrh. Dragbítar eru auðvitað alltaf einhvers staðar. Þá er að finna innan núverandi stjórnarsamstarfs ekkert síður en áður hefur verið. Þeir dragbítar hafa orðið til þess að við búum nú við skarðari hlut en ætlað var þegar gengið var frá langtímaáætluninni. Allir voru þó um það sammála sem þá var gert. Vonandi tekst í góðu samstarfi og með þrautseigju að vinna bug á þessum dragbítum. Ekki skal standa á mér að halda með hæstv. samgrh. á atgeirnum og ýta við því liði, þeim þröskuldum, sem standa í vegi fyrir því að við getum haldið uppi þeirri áætlun sem Alþingi samþykkti samhljóða og okkur ber skylda til að standa við.