26.03.1985
Sameinað þing: 65. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3878 í B-deild Alþingistíðinda. (3222)

365. mál, vegáætlun 1985--1988

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil hafa nokkur orð um till. þá til þál. sem hér er til umr. og varðar vegáætlun fyrir árin 1985–1988. Ég vil snúa mér fyrst að því sem miður fer, að mínu viti, í þessari ályktun. Það er að sjálfsögðu, eins og hér hefur þegar fram komið og verið rakið af hálfu margra ræðumanna, að nú miðar okkur ekki nokkuð á leið heldur aftur á bak í þeirri viðleitni að hækka framlög til þessa málaflokks upp í það hlutfall af okkar þjóðartekjum sem menn sömdu með sér hér á einni tíð. Við hljótum að harma það, eins og menn gera gjarnan hér á hinu háa Alþingi að harma hlutina þegar mönnum miðar aftur á bak eins og óneitanlegt er í þessu tilfelli. Það er nógu slæmt að una því að þjóðartekjur skerðist og framkvæmdagildi þess hlutfalls í krónum talið minnki þó það bætist ekki við að á sama tíma og þjóðartekjur hafa dregist saman komi til viðbótar skerðing á því hlutfalli af þessum sama stofni, þjóðartekjunum, sem um ræðir.

Ég er þeirrar skoðunar að það verði erfitt verk að ná upp í 2.4% í einum áfanga á einu ári hlutfallinu, jafnlágt og það virðist eiga að verða á þessu ári, árinu 1985 en sú leið er valin í þessari till. g geri því skóna að það stafi af því að vegna þeirrar miklu skerðingar sem verður á fjárveitingunum á þessu ári sé óhjákvæmilegt að binda þetta hlutfall við 2.4% þegar á næsta ári ef langtímaáætlunin sem slík eigi ekki að hrynja. Það er ekki síst á þeim grunni sem ég vil mótmæla þessu hlutfalli og þessari fjárhæð, sem á að verja í þetta í ár, því að ég fel að með því sé langtímaáætluninni stefnt í hættu og þeirri samstöðu sem um hana hefur náðst. Ég byrja á þessu, herra forseti, vegna þess að þetta skiptir auðvitað mestu máli í allri umfjöllun um vegamál og samgöngumál, þ. e. það atriði hversu miklum fjármunum við treystum okkur til að verja úr sameiginlegum sjóðum og af skattfé til þess að standa undir framkvæmdum í þessum efnum. Öll önnur umræða hlýtur að verða afleidd af þeirri staðreynd sem við göngum út frá í þessu efni.

Það var margt athyglisvert sem kom fram í ræðu hæstv. samgrh. Sérstaklega þótti mér fróðlegt að heyra ummæli hans um bundið slitlag og þær hugmyndir sem nú eru uppi um að leggja fjögurra metra breitt slitlag til að reyna að hraða því að fáfarnari vegir komist í varanlegt form með þessum hætti. Ég hef sjálfur verið áhugamaður um þetta og ekki síst vegna þess að mér svíður það að horfa á fjármunina rjúka út í loftið eins og þeir gera yfirleitt þegar gengið er frá nýjum vegum með því að vinna með ærnum tilkostnaði á þá efni; leir, mala ofan í hann grjót, blanda þessu saman og keyra síðan út. Fróðir menn halda því fram að munurinn á því að leysa þetta í eitt skipti á varanlegan hátt með bundnu slitlagi og hinu að keyra út unnið efni, sem ekki er bundið, sé sáralítill. Þeim mun blóðugra er að henda peningunum í þessi verk á þennan hátt, svo að ekki sé minnst á viðhald og annað sem inn í þetta spilar.

Ég birti það hér án ábyrgðar að einn af starfsmönnum vegagerðar úti á landi hefur fullyrt það við mig að þegar hann skoði þær tölur sem hann hefur undir höndum í þessu sambandi, þá sé kostnaður af þessari efnisvinnslu, mölun og úfkeyrslu allt að 60–80% af því sem komast mætti af með við bundið slitlag fjögurra metra breitt. Sjá menn þá í hendi sér hversu ákaflega óhagstætt er að þurfa að halda áfram við þetta í svipuðum hlutföllum og verið hefur.

Ég hygg að það þurfi að koma verulega til skoðunar á næstu árum að breyta þessum hlutföllum og færa meira fé yfir í að ganga varanlega frá yfirborði veganna. Það mun skila sér á lygilega stuttum tíma, bæði vegna minna viðhalds og fleiri atriða svo að ekki sé nú minnst á afnotagildið og þjóðhagslegan sparnað í þessu sambandi.

En herra forseti. Sá kafli í ræðu hæstv. samgrh. sem vakti einna mesta athygli mína var kaflinn sem hann flutti um jarðgangagerð á Íslandi. Ég hef flutt hér á hinu háa Alþingi, sem nú starfar, þáltill. um þetta mál, sem sé þá, að unnin verði upp langtímaáætlun um gerð jarðganga á Íslandi og hún verði felld inn í aðra áætlunargerð um samgöngumál og vegamál. Ég leyfi mér að túlka ummæli hæstv. samgrh. í meginatriðum svo, að hann sé að verulegu leyti efnislega sammála þeirri till. Annað gat ég ekki heyrt á hans máli en hann teldi þörf á því að vinna slíka skipulagsvinnu og hafa hliðsjón af henni í framtíðinni. Ég fagna því að sjálfsögðu ef bæst hefur liðsmaður í hóp þeirra sem áður höfðu tjáð sig fylgjandi þessari till. og hann ekki af léttari endanum, sjálfur hæstv. samgrh. Ummæli hv. þm. Karvels Pálmasonar hnigu í sömu eða svipaða átt og ég fagna einnig þeim stuðningi.

Till. þessi hefur þegar gengið til nefndar og er þar væntanlega til vandlegrar yfirvegunar og unnið þar af röggsemi, eins og yfirleitt er í hinum háu stofnunum Alþingis. Ég vona að áður en þessi þáltill. um vegáætlun verður samþykkt takist að fregna af því hvernig till. minni miðar og hvaða horfur eru á því að fá hana samþykkta á því Alþingi sem nú situr.

Ég þarf ekki að rekja hversu brýnt er, að mínu mati, að fara í þessa vinnu. Samgrh. lýsti því sjálfur á hvaða stigi þetta væri í meginatriðum, þ. e. að búið er að gera lauslega könnun á kostum í þessu sambandi bæði á Austfjörðum og Vestfjörðum. Talsvert meiri vinna hefur farið fram í sambandi við jarðgangagerð í Ólafsfjarðarmúla. Ég held að þessi verkefni séu þannig á vegi stödd að kominn sé tími til þess að taka ákvarðanir af því tagi sem gert er ráð fyrir í till. minni, þ. e. að marka sér stefnu til að vinna út frá í þessum efnum. Það er til mikillar fyrirmyndar hvernig stefnumörkun hefur verið, að mínu viti, í þessum málaflokki, þ. e. í vegamálum, og ég á þar við gerð og samþykkt langtímaáætlunar, og væri betur að hið opinbera og hið háa Alþingi ynnu á svipaðan hátt á fleiri sviðum og næðu hliðstæðri samstöðu um verkefnaskiptingu og fjárveitingar og hér hefur gerst.

Jarðgangagerð og þau samgönguvandamál sem henni er ætlað að leysa á einstökum stöðum í landinu hlýtur að koma inn í þessa umr. Ég er þeirrar skoðunar, ég hef a. m. k. trú á því, að við Íslendingar séum það félagslega hugsandi að við getum náð saman um að leysa með sérstöku átaki vandamál þeirra byggðarlaga sem búa við alveg sérstakar aðstæður. Mér finnst það hljóti að vera keppikefli og markmið í sjálfu sér að koma öllu landinu, öllum byggðarlögum í sæmilegt ástand hvað þetta varðar áður en við förum að margfalda breiddir akvega og auka þægindi þeirra sem þegar búa að mörgu leyti við ágætar samgöngur þó að ég sé ekki að draga úr því að einnig þar þarf að halda framkvæmdum áfram. Ég held að fyrsta boðorðið í þessum efnum hljóti að vera að tengja byggðir landsins saman á þann hátt að það nýtist árið um kring.

Menn hafa talað mikið um það, sem er almenn trú í þessu landi, að jarðgangagerð sé alveg óhemju dýr, það sé nánast mannsmorð eða svipað og að nefna snöru í hengds manns húsi að tala um hana þegar verið er að fjalla um samgöngumál og fjárfestingar til þeirra mála og það sé óheyrilegt ábyrgðarleysi að gera því skóna að fjöllin verði boruð sundur og saman, eins og sumir orða það í mín eyru. Ég held að menn grundi þessar skoðanir sínar á ákaflega litlum rökum. Í öllu falli eru þau að verulegu leyti úrelt. Það eru uppi breyttir tímar. Samgrh. vék nokkuð að því að breytingar hafi orðið með tilkomu nýrrar tækni og meiri þekkingar. Ég hef fullyrt úr þessum virðulega ræðustól og gef gert það enn að ýmis þau vandamál sem við áttum við að stríða í brautryðjendastarfi okkar, þegar fyrst voru lögð hér jarðgöng sem eitthvað munar um, yrðu núna auðleysanleg með nýtilkominni tækni og það sé aldeilis ósannað að kostnaður við þetta verk sé ekki talsvert lægri en menn hafa haldið fram í blöðum og öðrum fjölmiðlum og jafnvel hér á hinu háa Alþingi. Það á að reynast létt verk að ganga sæmilega úr skugga um hver sé hinn raunverulegi tilkostnaður í þeim efnum. Það er t. a. m. verið að vinna að jarðgangagerð í sambandi við virkjanir og þar fæst reynsla og þar fæst viðmiðun um það hvernig þessum verkum miðar við alíslenskar aðstæður. Ég held að það gangi vel. Þær fréttir sem ég hef þaðan eru þær að þrátt fyrir að byrjað hafi verið við mjög erfiðar aðstæður og vitað hafi verið fyrir að a. m. k. fyrsti hluti jarðganganna við Blöndu yrði í erfiðu bergi hafi gengið bærilega að leggja göngin. Það sannar ágæti hinnar nýjustu tækni. Það hefur gengið áfallalítið og án meiri háttar óhappa að vinna við göngin sem kallast vel að staðið við þær erfiðu aðstæður sem þar eru, eins og ég vék að.

Ég er ásamt öllum öðrum þm. Alþb. flm.brtt. við þessa þáltill. þar sem við leggjum til að fjárveitingar til nýframkvæmda verði hækkaðar. Ég þarf ekki að fara fleiri orðum um það. Við gerum þetta, eins og ég áður sagði, m. a. vegna þess að við höfum ekki trú á því að hlutfallið fari upp á við, ef menn leyfa sér að fara jafnneðarlega á þessu ári og áformað er, og því sé betra að reyna að taka jafnari skref auk þess sem framkvæmdagetan á þessu ári líður stórlega fyrir það ef þetta hlutfall verður látið fram ganga.

Ég hef á því fullan hug og kann að skoða hug minn um að flytja þess utan brtt. við þau þrjú síðari ár sem hér eru til meðferðar, þ. e. árin 1986–1988, og þær mundu þá hníga í þá átt að taka ákveðna fjárhæð af þeim 2.4% sem áformað er að verja af þjóðartekjum til þess að hraða hinni svonefndu Ó-vegaáætlun og ýta undir möguleika á því að hefja samfellda vinnu við að leysa vandamál þeirra byggðarlaga sem horfa til jarðgangagerðar í þessu sambandi. Það er a. m. k. von mín að með því að stilla þeim verkum þannig upp, eins og ég hef gert tillögur um í áðurnefndri þáltill., megi takast að efna til samstöðu um þann verkaflokk og um að verja einhverju ákveðnu hlutfalli í þessu skyni. Það þarf ekki að vera hátt. Ég hygg að 0.1% af þessum 2.4% dygðu til þess að halda uppi nokkurn veginn samfelldri áætlun um jarðgangagerð og halda úti einum vinnuflokki allt árið í þessum efnum. Ég hygg að það væri raunhæft markmið í sjálfu sér að setja upp að eitt gengi og ein vélasamstæða ynni sem mest samfellt við slíka áætlun. Ef þetta væri gert skv. samþykktri langtímaáætlun sæju menn þó að eitthvað miðar áfram og þá væru menn líka búnir að semja um ákveðna framkvæmdaröð og þyrftu ekki að karpa um hver kæmi öðrum framar. Með því móti mundu menn ekki stíga skóinn hver niður af öðrum, heldur leggjast allir saman á það að ýta verkinu áfram. Þannig vildi ég helst sjá þetta gerast, herra forseti. Það kemur að því að ég legg slíka till. fram.

Það þarf ekki að fara um það orðum hér hversu mikilvægur málaflokkur það er sem við höfum til umfjöllunar í hálftómum sölum virðulegs Alþingis þar sem eru vegamál og samgöngumál. Á það verður þó aldrei of oft lögð áhersla, að mínu viti, að þau mál eru eitt þýðingarmesta atriðið hvað varðar jafnan rétt og jafna aðstöðu íbúanna í þessu landi, þ. e. að gera samgöngur sem víðast á landinu sem jafnbestar, því að fátt hefur meiri áhrif á þróun mannlífs og athafnalífs í byggðarlögum en einmitt samgöngurnar þangað. Það þekkja þeir sem búið hafa í afskekktum byggðarlögum, sem búa við skertar samgöngur, alla þá gífurlegu erfiðleika sem það skapar og þau miklu áhrif sem það hefur á allt mannlíf. Ég held að nú á dögum uni fólk því hreinlega ekki til lengdar að búa við mjög lakar samgöngur. Maður finnur ákaft fyrir því t. d. í byggðarlögum eins og Ólafsfirði, þar sem við sérstök vandamál er að etja af þessu tagi, að samgönguerfiðleikarnir liggja eins og köld hönd á allri framþróun í þeim byggðarlögum og bættar samgöngur eru gjarnan það framfaramál sem íbúar þar nefna númer eitt, aðspurðir um hvað þeim megi nú helst til framdráttar og bjargar verða.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég endurtek það að ég, eins og við gerum gjarnan sem heitum þessu nafni, harma að hlutfallstalan hefur lækkað svo mikið. Ég vona að brtt. okkar þm. Alþb. fái hér sem víðtækastan stuðning.