27.03.1985
Efri deild: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3912 í B-deild Alþingistíðinda. (3238)

347. mál, aðgerðir til að bæta hag sjómanna

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. sem hæstv. forsrh. mælti fyrir í Nd. Það er einnig afar brýnt að þetta mál verði tekið fyrir af sjútvn. samhliða því frv. sem ég áður mælti fyrir. Frv. þetta fjallar í fyrsta lagi um lækkun á svonefndum kostnaðarhlut útgerðar, í öðru lagi um sjómannafrádrátt og í þriðja lagi um aðgerðir til lækkunar á olíuverði.

Frv. þetta tengist niðurstöðu í sjómannadeilunni og því mikilvægt að það fái framgang hið fyrsta hér á Alþingi.

Um þetta frv. var góð samstaða í Nd. Frv. fylgja upplýsingar um samkomulag í sjómannadeilunni. Ég sé því ekki ástæðu til að hafa um það fleiri orð hér við 1. umr. en vænti þess að hv. sjútvn. reyni að greiða fyrir því að málið nái fram að ganga fyrir páskaleyfi.

Ég vil að lokum leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.