25.10.1984
Sameinað þing: 10. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í B-deild Alþingistíðinda. (328)

Umræður utan dagskrár

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það var vissulega sitt hvað athyglisvert sem fram kom hjá hæstv. iðnrh. þegar hann var hér að svara fsp., sem ég lagði fyrir hann, og þó að mikið vantaði á að fram kæmu skýr svör við þessum fyrirspurnum og hann bæri fyrir sig neitunarvald Alusuisse um að veita slík svör hér á þingi mátti þó af svörum hans ráða verulega þýðingamikil atriði sem snerta samkomulagið sem ráðh. ætlar sér að gera og virðist hafa stuðning ríkisstj. fyrir að gert verði.

Það er í fyrsta lagi það, sem ég vil hér til nefna, að orkuverðið samkvæmt þessum samningi væri, ef hann væri kominn í gildi, undir 13 mill, — tæplega 13 mill, sagði ráðh. Ég hygg raunar, án þess að ég vilji staðhæfa það, að orkuverðið væri skv. þeirri verðformúlu, sem gengið er út frá, undir gólfinu sem hæstv. ráðh. nefndi. (Iðnrh.: Viðmiðunin er frá miðju ári. Það er þriðji ársfjórðungur sem miðað er við, ekki síðasti.) Ég er í rauninni að spyrja um orkuverðið í dag og þá er ég ansi hræddur um að það væri í gólfinu sem samningurinn gerir ráð fyrir, 12.5 mill, og ef ekkert gólf væri væri það vel undir því, miðað við það að verð á áli nú mun liggja eitthvað nálægt 100 dollurum á tonn. Hér munar ekki miklu, aðeins broti úr millidal, á því hvort rétt er, en það mun eflaust koma fram ef þessi samningur verður lögfestur og ekki verður þeim mun meiri breyting á álverði.

Í öðru lagi svaraði ráðh. spurningu minni um það hvert væri meðalraforkuverðið að hans mati á fimm ára tímabili á verðlagi ársins 1984. Hvert var svarið? 13.7 mill á kwst. 13.7 mill sem meðalverð á fimm ára tímabili á verðlagi núverandi árs. Þetta eru tölur sem ég tel vera út af fyrir sig leiðbeinandi um það hvert stefni um þetta samkomulag að því er raforkuverðið snertir. Ég tók ekki eftir því að hæstv. ráðh. svaraði þeim lið fyrirspurnar minnar sem snerti hækkun á álverði, hversu mikil hún þyrfti að verða frá því sem nú er til þess að þetta meðalraforkuverð náist, 13.7 mill, nema að talan 100% hafi átt að gilda um það sem flaug fyrir þegar hæstv. ráðh. ræddi um þróun álverðs.

Hæstv. ráðh. vék sér undan með öllu að svara þeirri fyrirspurn minni sem snýr að þróun raungildis raforkuverðsins að fimm árum liðnum miðað við lágmarks- og hámarksákvæði og verðbólgu á dollar og hugsanlega gengislækkun dollarans gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Og hæstv. ráðh. bar fyrir sig að hann hefði enga í rn. sínu til þess að slá á tölvurnar til þess að reikna út þessar prósentur. En ætli það hafi verið það sem í rauninni olli því að hæstv. ráðh. vildi ekki svara fyrirspurninni? Ætli hann hafi ekki viljað láta því ósvarað að þessi samningur, sem hann er með í drögum, er óverðtryggður og ef þær forsendur gengju eftir, sem vikið er að í fyrirspurn minni, merkt 6 á því blaði sem hv. þm. hafa fengið, þá hefðu komið út tölur sem eru ekkert álitlegar miðað við þetta á verðbil. Það sem ég hef fengið út úr tölvunni að þessu leyti er varðandi a-liðinn, ef árleg verðbólga í dollurum verður 5% og álverð þróast með sama hætti, að gólfið færist úr 12.5 mill að fimm árum liðnum niður í 9.8 mill og þakið, 18.5 mill, yrði að fimm árum liðnum 14.5 millidalir. Ef síðan bættist við sú gengisbreyting á dollar gagnvart öðrum gjaldmiðlum sem þarna er gert ráð fyrir, 25% á tímabilinu, þá væri gólfið komið niður í 7.8 mill að raungildi og þakið niður í 11.6 mill. Ég tek það fram að ég hygg að mörgum þyki þetta ekki óeðlilegar forsendur, sem hér eru settar fram til viðmiðunar þegar þetta er metið, 5% verðbólga gagnvart dollar og lækkun dollarans um nálægt 25% á þessu tímabili.

Ég held að það undirstriki hversu háskalega á að ganga frá þessu máli ef samningurinn á að vera án verðtryggingar sem þarna er verið að undirbúa.

Ég vil þá víkja aðeins að því atriði sem snýr að því að ríkisstj. ættar sér og er þegar búin, að því er virðist, að gera það upp við sig að láta Alusuisse takast að kljúfa málið í tvo þætti. Annars vegar að ganga nú frá raforkuverðinu en skilja skattana eftir. Hæstv. ráðh. færði þau rök fyrir máli sínu hvað þessa stefnu snertir að hér mætti bara ekki missa nokkurn dag, það væri svo mikið að hafa upp úr hækkuðu orkuverði, en ég vek athygli hv. þm. á því að það getur nú skipt máli, þeir geta nú verið fljótir að vinnast upp dagarnir ef svo færi að Alusuisse tækist að fá skattareglunum breytt sér í hag og hala þannig inn stórar upphæðir til baka. Það er vafalaust sjónarmið fyrirtækisins og hefur legið að baki þeirri „taktik“ af hálfu Alusuisse í þessum samningaviðræðum, sem gengið hefur upp, að deila málinu upp í tvennt. Og það veit hæstv. iðnrh. eflaust jafnvel og ég að það hefur verið markmið fyrirtækisins sem þar er að ganga upp, en engin tilviljun sem hefur ráðið þar ferðinni.

Ég vil hvetja hæstv. ráðh. til þess að vera alveg sérstaklega á verði, ef hann ætlar að gera málið upp með þessum hætti, þegar kemur að spurningunni um skattareglur. Fyrsti áfangi álversins í Straumsvík er að verða afskrifaður og það skiptir háum upphæðum bókhaldslega á hverju ári fyrir fyrirtækið að afskriftirnar, upp á 10 millj. dala eða þar um bil, falla út úr bókhaldinu til hækkunar á sköttum miðað viðað til skattgreiðslna komi. Hér er því ekkert smámál á ferðinni, heldur mun stærra en þær tölur bera vott um sem hæstv. ráðh. var að bera á borð fyrir okkur til þess að reyna að sanna að það væri sjálfgefið að ganga nú að málinu með þessum hætti tvískiptu, annars vegar að semja um raforkuverð og skilja skattareglurnar eftir.

Það eru mörg önnur atriði sem ástæða væri að víkja hér að, en ég ætla herra forseti. að verða við þeirri beiðni að takmarka mál mitt. Ég vík þó í örstuttu máli að öðrum þáttum áður en ég lýk máli mínu.

Hæstv. ráðh. bar fyrir sig neitunarvald Alusuisse varðandi 3. fyrirspurn mína um það hvað Alusuisse ætlaði að gefa í milli til þess að fá svokallaða réttarsátt og komast undan dómi vegna hækkunar í hafi og þeirra bókhaldsfalsana sem fyrirtækið hefur ástundað um langt árabil. Það hefur verið staðhæft í blöðum að hér sé um að ræða upphæð sem svarar til 3 millj. Bandaríkjadala eða liðlega 100 millj. ísl. kr., sem boðið sé í milli, og það skyldi nú vera að það hafi ekki einnig munað um þetta atriði ef marka mátti orð hæstv. ráðh. í sambandi við aðra þætti þessa máls og þar á meðal raforkuverðið. Þegar hæstv. ráðh. var að skýra afstöðu sína varðandi 2. fyrirspurnina, hvers vegna honum hefði snúist svo hugur, honum sem alls ekki ætlaði að semja um þessi mál, þá var það með þeim orðum að það hefðu komið skyndilega, eftir yfirlýsingu hans 10. maí, þau kostaboð af hálfu Alusuisse að ganga til réttarsáttar um málið og komast hjá dómi og honum hefði snúist hugur. Væntanlega á þetta eftir að upplýsast, en það liggur alveg fyrir, með þeim boðum sem þarna eru og miðað við orð hæstv. ráðh., að Alusuisse hefur í reynd staðið frammi fyrir dómi varðandi hækkun í hafi og sína svikamyllu. Það er fyrst núna á miðju sumri eða svo, á síðustu mánuðum, að hæstv. iðnrh. áttar sig á því að afhjúpun svikamyllunnar á liðnum árum hafi skipt einhverju umtalsverðu máli gagnvart því verkefni, sem hann er við að fást, að fá fram breytingar á samningum okkur í hag, en hann má ekkert segja, einmitt um þetta atriði alveg sérstaklega, því Alusuisse vill eðlilega reyna að fá hvítu skyrtuna, sem fyrirtækið hefur legið á hnjánum fyrir íslenskum ráðh. á undanförnum árum til að fá afhenta, og varð óþarflega mikið ágengt gagnvart sumum hæstv. ráðh. hér fyrr á árum að þessu leyti, en þar undanskil ég hæstv. forsrh., sem sýndi þar gætni, hæstv. fyrrv. forsrh. Gunnar Thoroddsen.

Það vakti athygli mína afdráttarlaust svar hæstv. ráðh. við 4. lið fyrirspurnarinnar. Ég fagna því að það skuli ekki hafa verið gefinn neinn ádráttur um túlkun á aðstoðarsamningi — rekstri um bestu kjaraákvæði. Ég tók eftir því að hv. 2. þm. Reykn. hlýddi á mál mitt, samningamaðurinn Gunnar G. Schram, og ég túlka hans þögn hér í þessu máli, þannig að þessar upplýsingar séu tryggar og efa það ekki að eftir gangi þegar öll mál sem þessu tengjast niður í smáatriði verða upplýst hér á hv. Alþingi innan fárra vikna.

Varðandi 9. lið fyrirspurna minna, um lækkun á raforkuverði, vék hæstv. ráðh. sér allfimlega undan að svara því en hann gat þess að hann hefði upplýsingar frá Þjóðhagsstofnun þess efnis að eftir að hann hafði hækkað raforkuverð hjá Landsvirkjun sumarið 1983 um 56% hefði það þó lækkað um 15.7% síðan. Hann stóð að þeim hækkunum. Það kann rétt að vera og þá er væntanlega miðað við kaupgjald og kaupmátt, en eftir liggur þung byrði sem menn bera í húshitunarkostnaði og orkukostnaði heimila vegna hækkana ríkisstj. á raforku. Ég vona að hæstv. ráðh. sjái til þess að sá ábati sem fæst af þessum samningum skili sér til innlendra notenda, atvinnurekstrar og heimila.

Hæstv. ráðh. sagði varðandi síðasta atriðið sem ég spurði hér um nánast ekki neitt annað en það að Landsvirkjun hefði gert sína útreikninga varðandi orkuverð og það lægi svo í augum uppi hversu hagkvæmt væri fyrir okkur Íslendinga að ráðist yrði í stækkun álversins í Straumsvík á vegum erlendra aðila og viðkomandi virkjanir að hann hefði ekki haft neitt fyrir því að undirbyggja það með öðrum hætti. Það komu ekki neinar upplýsingar um að fjárfesting upp á 15 milljarða ísl. kr. í orkuveri og iðjuveri væri undirbyggð með einhverjum athugunum á vegum hans rn. sem skæri úr um það að hér væri um þjóðhagslega skynsamlega fjárfestingu að ræða af Íslands hálfu og fjárfestingu sem væri þá væntanlega einnig arðvænlegri en aðrir atvinnuþróunarmöguleikar í landinu því það er það sem máli skiptir þegar horft er til stórra fjárfestinga. Þó að hæstv. ráðh. vilji taka hina erlendu fjárfestingu út fyrir svigann vek ég athygli hans á því að umsvifin, bygging álverksmiðju og rekstur og alveg sérstaklega bygging, koma inn í íslenskan þjóðarbúskap sem þensluvaldandi atriði þó að fjármagnið sé reitt fram af erlendum aðilum. Fram hjá því gengur enginn sem horfir á áætlanir í þessu landi. Það er sannarlega athyglisvert að hæstv. ráðh. skuli ganga blindandi, liggur mér við að segja, götu sína í sambandi við orkusölustefnuna, stefnuna sína að það verði útlendingar sem standi að nýtingu íslenskra orkulinda í framtíðinni. Ég undrast það sannarlega ef sú er staðreyndin að þingflokkur Sjálfstfl. í heild sinni skrifi upp á slíka hálfnýlendustefnu, svo ekki sé dýpra tekið í árinni, sem hér er á ferðinni.

Það var að því vikið í blöðum í sumar, það var meira að segja í DV, að ástæða væri til að óttast að fram undan gæti verið fjórði ósigurinn í sambandi við viðureign Íslendinga við Alusuisse og var skrifaður um það athyglisverður leiðari. Ég ætla sannarlega að vona að svo fari ekki, en mér finnst þó að hættumerkin séu býsna mörg í sambandi við þau samningsdrög sem hér liggja þó fyrir með býsna óljósum hætti og það sé því fyllsta ástæða fyrir Alþingi að vera á verði í sambandi við þessi efni. Það væri sannarlega þörf á því fyrir okkur Íslendinga að geta með árangri nýtt okkar orkulindir, þjóðinni til raunverulegra hagsbóta, fyrir íslenskt aflafé og íslenskan sparnað, eins og er stefna Alþb. að gerist, að meiri hluta til. Það er einhver misskilningur, sem fram kom hjá hv. þm Kjartani Jóhannssyni, að Alþb. telji það ekki verðugt verkefni að nýta auðlindir orkunnar í landinu til auðsköpunar fyrir Íslendinga. En við höfum í því marga fyrirvara. Við teljum að við þurfum að læra af fortíðinni á þeirri vegferð og við megum ekki ganga áfram þá braut, sem núv. ríkisstj. er í reynd að feta, að auka enn umsvif fjölþjóðahringa, alþjóðlegra auðhringa, í íslensku atvinnulífi.

Herra forseti. Þessi mál verða eflaust rædd frekar og oft á þessu þingi og ég sé ekki ástæðu til að lengja hér mál mitt. Ég þakka fyrir það tækifæri sem mér hefur gefist til umræðna þó að upplýsingar hafi verið mjög ófullkomnar, sem fengust, af ástæðum sem hæstv. ráðh. hefur greint hér frá.