25.10.1984
Sameinað þing: 10. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í B-deild Alþingistíðinda. (329)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umr. úr því sem komið er. Hv. 3. þm. Reykn. Kjartan Jóhannsson rakti afstöðu Alþfl. til þessara mála og kom þar auðvitað fram að Alþfl. hefur haft ábyrga afstöðu til þeirra. Ég hef ekkert sérstakt út á það að setja þótt hann gagnrýni vinnubrögð mín. Við það verð ég að búa þar til ég get gert grein fyrir öllu málinu. Þá á ég helst von á því að viðhorfið muni breytast. Hann minntist sérstaklega á það sem einhvers staðar höfðu komið upplýsingar um, þá kröfu sem sett hafði verið löngu fram af Alusuisse um að minnka kaupskyldu á orkunni. Það er rétt að það hafði einhvers staðar flogið fyrir að það kynni svo til að bera að hagkvæmt væri fyrir Landsvirkjun að geta minnkað afhendingarskyldu sína. Ég lagði þetta aldrei nokkru sinni að jöfnu. Ég gat ekki fellt mig við þessa minnkuðu kaupskyldu vegna þess að ég taldi það stórum óhagkvæmara fyrir okkur. Það fór því ekki milli mála að það gat ekki orðið samkomulag um að verða við þessu. Hins vegar var þessu haldið mjög stíft fram, og ég trúi að það hafi verið í plöggum sem þingflokkunum voru afhent sem þessarar kröfu er getið.

Hv. þm. segir að hann sjái ekki ástæðu til að álíta að álverð muni hækka umfram verðbólgu. Þetta er þvert á þær spár sem þeir vísindamenn eða þekkingarmenn á þessu sviði halda fram sem við höfum hallað okkur að og keypt visku hjá. Þeir benda á það að vegna hins gífurlega hækkaða orkuverðs víða um lönd þá sé nú álverum lokað í stórum stíl. T.a.m. hefur álverum í Japan verið lokað og menn vita það að á næsta ári verður innflutningsþörf Japana á áli 1 millj. tonna, hvorki meira eða minna. Og menn sjá t.d. þessar lokanir á áliðjuverum Alusuisse í Bandaríkjunum sem ég gat um. Síðari hluta síðasta árs og fyrri hluta þessa árs benti allt til að álverð ætlaði að hækka að þeim mun að þeir gætu rekið þau fyrirtæki, en annað hefur orðið ofan á. Menn álíta sem sagt að þetta muni ekki fylgja verðbólgunni né meðaltalsverði annarrar vöru, heldur muni spretta úr spori óðar en líður. En spár eru spár og ekki get ég ábyrgst neitt í þessum efnum.

Hv. 11. þm. Reykv. margtekur fram, bæði í fsp.tímanum fyrir tveim dögum og eins núna, að ég hafi lýst því yfir að ég hafi látið stjórnarandstöðuna fylgjast grannt með þessum málum. Það er eins og vant er þegar menn hafa ekki skrifað það sem þeir segja, þá treysta þeir sér nú ekki til að mótmæla þó að þeim finnist að rangt sé haft eftir. En ég sagði — og fékk mér nú ræðuna ritaða — þetta: Stjórnarandstaðan hefur verið látin fylgjast með eins og kostur er. Á þessu orðalagi er alveg grundvallarmunur: að ég hefði látið, eins og hv. þm. margtók fram, stjórnarandstöðuna fylgjast grannt með þessu máli eða, eins og ég sagði hér, að hún hefði verið látin fylgjast með eins og kostur er. Ég þarf ekkert að lýsa því í hverju þessi munur er fólginn, vegna þess hversu hendur manns hafa verið bundnar vegna mjög harkalegrar kröfu um þagnarskyldu í sambandi við þessa samningagerð. Auðvitað var um það að velja hvort maður ætti að gangast undir hana. En sú varð niðurstaðan að sérstök klásúla er í samningunum, sem munu koma fyrir manna sjónir hér á hinu háa Alþingi, þar sem menn féllust á að birta ekkert nema báðir aðilar samþykktu. Ég minnist þess nú ekki að neitt hafi komið upp á sem hefði hlotið neitun mína að kæmi fram opinberlega, en þannig er nú höfuðstyggð viðsemjenda okkar í þessum málum. Vil ég ekkert fara fleiri orðum um hvers vegna þeir að ýmsu leyti hafa reynst afar höfuðstyggir, fulltrúar Swiss Aluminium í samningaviðræðum endilöngum.

Hv. 11. þm. Reykv. margtekur fram að við seljum orkuna samkvæmt þessum samningi langt undir kostnaðarverði. Það er auðvitað grundvallarmisskilningur sem í þessu er fólginn. Það er hægt að gera margvíslega útreikninga, eftir því hvaða forsendur menn gefa sér, á því hvað orkan frá Búrfelli t.a.m. kostar Ég hef séð tölur um það að ef þetta orkuverð yrði reiknað út aleitt við stöðvarvegg, þá hafi menn reiknað orkuna þar niður í 5.9 mill, en með öðru sameiginlegu í rekstri Landsvirkjunar upp í rúm 9 mill. En það er alveg áreiðanlegt að við þurfum engu að bæta við okkur í orkuframkvæmdum, eins og allir mega sjá, við þennan orkusölusamning. Þetta er aðeins hækkun á þeirri orku sem við höfum afhent og seljum, þannig að það eru engar fjárfestingar sem koma til. Því er það að af þessu er verulegur ávinningur. Og ég veit að þegar hv. þm. kynnir sér það betur þá sér hann hvað átt er við í því sambandi.

Allt annað mál er það, þegar við þurfum að byggja nýtt orkuver, eins og við þurfum að gera til þess að sinna orkusölu til nýja áfangans ef af verður í Straumsvík. Þar er allt annað uppi á teningnum. Þar erum við með útreikninga um 18 mill, eins og fram hefur komið að þurfi að kosta til þess að hafa vel fyrir framleiðslukostnaði hinnar nýju Blönduvirkjunar. Þessu þurfa menn að gera sér grein fyrir.

Og aðeins að lokum vegna þess að hv. 5. þm. Austurl. dró í efa að það væri rétt, sem ég sagði, að orkuverðið samkvæmt þessum samningi og þeim formúlum sem til grundvallar liggja væri yfir 12.5, þá eru þetta tæp 13 mill. E.t.v. er ástæðan sú að útreikningur fer fram miðað við ársfjórðung næst á undan, sem sagt sá útreikningur sem mundi liggja til grundvallar útreikningi á verði frá 1. okt. til áramóta er verð áls, þessara fjögurra þátta, frá 1. júlí til 1. okt. og það hefur hrapað það mikið á þessu tímabili. Aftur á móti í janúar verður það komið í botninn vegna þess hve langt það hefur hrapað á þessum tíma og mun áreiðanlega ekki breytast til áramóta héðan í frá. Sú er áreiðanlega orsökin til þess að þessi litli mismunur er í þessu efni.

Ég er ekki sammála hv. þm. um það að við höfum glatað stöðu okkar í skattamálinu og ég frábið mig því að ég hafi verslað með skattamálin vegna orkuverðsins. Yfirleitt hlýt ég að frábiðja mig því að ég vilji hlífa þessum auðhring í einu eða neinu. Ég reyni að komast eins lifandi langt og ég er maður til. Svo verðum við að meta málið allt þegar það getur legið fyrir, þar á meðal sættirnar, þar sem ég á ekki kost á því eins og sakir standa að taka það mál til umr., eins og ég þó gjarnan kysi vegna þess sem að mér er sveigt í því sambandi. Ég mun áreiðanlega geta leitt það vætti í þann dóm af minni hálfu sem ég tel að muni nægja mér.

Nefndar voru hér aðrar viðmiðanir í veröldinni eins og dómurinn í deilumáli Pechiney og Grikkja. Menn þyrftu að þekkja öll málin áður en þeir byrja að slá um sig með slíkum fullyrðingum. Framleiðslukostnaðarverð á raforku í Grikklandi er 42–44 mill, hvorki meira né minna. Vesalings mennirnir eru samkvæmt þessum dómi neyddir til að selja raforku meira en helmingi lægra en kostnaður framleiðslunnar. Við eigum sem betur fer ekki þessa stöðu hér á Íslandi.

Ég þarf engu að bæta frekar við þetta. Við erum ekki sammála ég og hv. 5. þm. Austurl. í þessum málum, um orkusölustefnuna, um stóriðjustefnuna. Við erum í grundvallaratriðum ósammála í því efni og við eigum þess ekki kost enn um hríð að nálgast afstöðu hvors annars að neinu marki.