28.03.1985
Sameinað þing: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3965 í B-deild Alþingistíðinda. (3297)

311. mál, sölu- og markaðsmál

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Þetta er mikil till. sem hér liggur fyrir til umr., ekki að efni til að mínu mati, heldur út frá því að hún er flutt af öllum þingflokki Sjálfstfl. að undanskildum ráðherrunum og hlýtur því að vera að vissu leyti stefnumarkandi um það hvernig og hvar þarf að leggja mestar áherslur í sambandi við uppfærslu í þjóðfélaginu. Mér finnst að með því að sleppa einni línu úr upphafsgrein grg. mætti benda á þann þáttinn sem við þurfum frekar að leggja áherslu á í uppbyggingu menntakerfisins heldur en hér er gert. Ætla ég, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upphaf grg. fyrst eins og hún er í till. og svo eins og ég teldi æskilegast að hún væri. Ég tel að það þyrfti að flytja till. út frá þeirri meiningu sem greinin skilar af sér þá. Þessi hluti grg. hljóðar þannig:

„Það skýtur sannarlega skökku við að þjóð, sem þarf að selja nær alla sína framleiðslu til annarra landa, skuli hvergi í skólakerfinu hafa skipulagt víðtækt nám sem tengist sölu- og markaðsmálum með hliðsjón af þeirri sérstöðu sem Íslendingar búa við, þ. e. fámenni þjóðarinnar og þeirri staðreynd að sjávarafurðir eru grundvöllur undir gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Möguleikar til náms á þessu sviði eru ekki fyrir hendi í grunnskólum, fjölbrautaskólum, framhaldsskólum, sérskólum né Háskóla Íslands, nema að mjög takmörkuðu leyti og þá helst í Háskóla Íslands.“

En hvernig skyldi greinin hljóða ef sleppt væri úr henni rúmri línu. Hún mundi vera þannig:

„Það skýtur sannarlega skökku við að þjóð, sem þarf að selja nær alla sína framleiðslu til annarra landa, skuli hvergi í skólakerfinu hafa skipulagt víðtækt nám sem tengist þeirri staðreynd að sjávarafurðir eru grundvöllur undir gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Möguleikar til náms á þessu sviði eru ekki fyrir hendi í grunnskólum, fjölbrautaskólum, framhaldsskólum, sérskólum né Háskóla Íslands nema að mjög takmörkuðu leyti.“

Vandi íslenska menntakerfisins er ekki sá að búa til fleiri sölumenn. Vandi íslenska menntakerfisins er sá að það er ekki hugað að því að mennta fólk almennt fyrir undirstöðuatvinnuvegi í sjávarútvegi. Uppbygging fjölbrautaskólanna á undanförnum árum hefur verið á þann máta að gerðar hafa verið tilraunir til þess að búa til framhaldsdeildir hjá fjölbrautaskólunum vítt um landið. Hvaða námsleiðir ætli hafi verið boðið upp á þar? Sjálfsagt eitthvað í sambandi við sjávarútveginn beint; sjómannafræðslu, vélstjórafræðslu, eðlilega fræðslu í sambandi við meðferð fisks. Nei, það hafa verið verslunarbrautir, viðskiptabrautir og viðskiptabrautir aftur, sem boðið hefur verið upp á. Sem sagt, það hefur verið nóg lið til þessara þátta í þjóðfélaginu. Það hefur verið nóg lið sem hefur kunnað ensku og þýsku og jafnvel frönsku og spænsku. En það hefur ekkert — eða mjög takmarkað lið verið menntað til þess að sinna aðalatvinnuveginum, frumvinnslunni. Okkur vantar núna hópa af stýrimönnum á fiskiskipaflotanum. Okkur vantar núna hópa af vélstjórum á fiskiskipaflotann. Okkur vantar ótalda menn og konur til þess að sinna nauðsynlegustu störfum í frystihúsunum þannig að við séum nokkurn veginn öruggir um að skila þaðan góðri vöru. Og okkur vantar fjöldann af fólki til þess að sinna því að auka framleiðni og betrumbæta þau framleiðslutæki sem við erum með í sjávarútveginum.

Þannig er ástatt með íslenska fiskiskipaflotann. Reyndar má segja að það sé svipað með fiskiskipaflota margra annarra þjóða að þeir eru tæknilega séð að mörgu leyti óbreyttir frá ómunatíð liggur mér við að segja. Það lætur nærri að maður geti farið aftur á landnámsöld. En við skulum ekki fara lengra aftur en á skútuöldina. Það er nákvæmlega sama vinnuskipulag á þilfari á íslensku fiskiskipa núna eins og var á skútuöldinni. Og það er nákvæmlega sama vinnuskipulag niðri í lestum á íslenskum fiskiskipum og var þá. Það hefur næstum því ekkert verið gert til að breyta þessu. Í staðinn fyrir að fiskinum var kastað mann frá manni áður er fiskurinn nú settur í kassa. En að komin sé einhver tæknivæðing í fiskilestum á skipum, nei, það er ekki til. Og það er engin breyting á þilfarinu. Það er nákvæmlega sama vinnutilhögunin og fiskinum kastað niður í lestina eins og var gert áður. Það hefur ekkert verið hugsað út í þetta. Ég er viss um að með því að einbeita sér að breytingum í sambandi við þessa þætti væri hægt að gera kraftaverk. Það væri hægt að gera margt til að auka tekjur í íslenskum sjávarútvegi. Og þó kannske fyrst og fremst í grunnmenntuninni í sambandi við þetta.

Það er látið gott heita og talinn sjálfsagður hlutur að í frystihúsin og fiskvinnsluna og til sjávarútvegsins fari það fólk sem kemst ekki annars staðar fyrir á atvinnumarkaðinum. Þessu þurfum við að breyta. Og við eigum að breyta því í gegnum skólakerfið og vitaskuld þá um leið í gegnum launakerfið í landinu. Við eigum að launa þetta fólk, sem er við grunnatvinnuvegina, betur en við höfum gert og við eigum að mennta það betur.

Það er hálfnöturleg staðreynd að núna, þegar við búum við það að afli sé skammtaður á hvern fiskibát, þá gerist það hringinn í kringum landið að við skemmum ótrúlega mikinn hluta af þeim afla sem berst að landi. Við fréttum jafnvel af því að í vissum verstöðvum eru núna að myndast fiskikasir sem ekki er hægt að koma undan vegna skipulagsleysis á þessum vettvangi. Ef við hefðum betur menntað fólk á þessum vettvangi er ég viss um að slíkt gæti ekki gerst. En það hefur verið látið eiga sig að mennta þetta fólk. Og svo er að sjá að áhugi stærsta stjórnmálaflokks landsins beinist frekar að öðrum vettvangi en að tekist sé á við þetta sjálfsagða verkefni.

Ég tek undir það, sem hv. þm. Ólafur Ragnar benti á hér áðan, að það er í sjálfu sér eðlilegt að stóru sölufyrirtækin okkar tækju ákveðinn hóp manna til þess að mennta í sölumennsku. Og ég held að það nægði a. m. k. enn um sinn. Þessi fyrirtæki skiluðu þeim svo aftur inn í þjóðfélagið og gæfu þeim fullt tækifæri til að vinna á öðrum vettvangi en innan þessara stóru sölusamtaka. Ég dreg samt ekkert í efa, þó að lausnin í sölumálum okkar byggist fyrst og fremst á stóru samtökunum, að það finnist margar leiðir aðrar en þau hafa fundið eða eru að vinna að. Þar getur margt fleira komið til greina og ekki ástæða til að draga úr því að einstaklingar spreyti sig á þeim vettvangi. En ég hef trú á því að enn um sinn verði þessi stóru sölusamtök okkar, hvort sem þau heita Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Sambandið, SÍF eða síldarútvegsnefnd, þeir aðilar sem við þurfum fyrst og fremst að treysta á að sinni því hlutverki að koma framleiðsluvörum okkar á sem hentugastan máta á erlendum markaði og fá sem mest fyrir þær.