28.03.1985
Sameinað þing: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3969 í B-deild Alþingistíðinda. (3300)

311. mál, sölu- og markaðsmál

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Mér láðist víst í fyrri ræðu minni að láta það koma fram að ég út af fyrir mig get verið sammála því sem felst í þessari þáltill. sem hér er til umr. og tekið undir það sjónarmið að það sé þörf fyrir að mennta menn á þessu sviði, þ. e. á sviði sölumála og markaðsmála almennt. En ég vil árétta það að menn fari nú samt ekki að gefa sér fyrir fram ákveðin markmið um það hvernig eigi að útfæra það þótt nám sé aukið í þessum efnum.

Ég er þeirrar skoðunar að það megi og eigi að gera mun meira í sambandi við útflutnings- og sölumál almennt. En jafnframt er nauðsynlegt að við gerum okkur grein fyrir því hvaða möguleikar eru þar fyrir hendi. Í sambandi við nýjar atvinnugreinar og frekari þróun þeirra sem fyrir eru er örugglega hægt að vinna mikið og gott starf.

En það sem fékk mig til að koma hér aftur upp voru ummæli hv. 3. þm. Reykv. í sambandi við samvinnuhreyfinguna. Hjá hv. ræðumanni, sem talaði hér næstur undan mér, var vikið nokkuð að þessu atriði. Ég er sammála því að það eru stór orð þegar hv. þm., hvort sem það er Ólafur Ragnar Grímsson eða einhver annar, segir um fyrirtæki eða samtök, sem njóta jafnmikillar lagaverndar og samvinnuhreyfingin á Íslandi gerir í dag í krafti samvinnulöggjafarinnar og annarra laga, að tilgangurinn helgi meðalið í flestum störfum. Þetta eru stór orð og mjög alvarleg, ekki síst vegna þess að hv. þm. var á sínum tíma þátttakandi í þeim flokki sem hefur sérstaklega veitt þessum samtökum brautargengi sem margir aðrir hafa gert líka, menn í öðrum flokkum og óflokksbundnir menn.

Hv. þm. hefur verið virkur þátttakandi í samvinnuhreyfingunni og m. a. setið á aðalfundum samvinnuhreyfingarinnar. Þegar maður — ég tala nú ekki um hv. alþm — lýsir því fyrirtæki með þeim hætti sem hann gerði áðan hljóta aðrir hv. alþm. að leggja við hlustir, eins og hv. ræðumaður, sem hér talaði á undan, hefur gert. Það var satt að segja mjög óhugguleg lýsing, svo ekki sé meira sagt, sem fram kom í ræðu hv. 3. þm. Reykv. um það hvernig þessi hreyfing og þetta fyrirtæki hefur þróast.

Hv. þm. hefur einnig reynslu sem þátttakandi í einu stærsta samvinnufélaginu sem mun vera Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis. Ef ég man rétt mun hv. þm. hafa verið virkur þátttakandi í því kaupfélagi. Þegar hann lýsir þróuninni með þessum hætti hljóta menn að spyrja sjálfa sig að því hvort ekki verði að taka þá löggjöf, sem samvinnuhreyfingin starfar samkvæmt, til endurskoðunar, ég segi ekki að afnema lögin sem slík en það gæti komið til greina ef fyrirtækið þróast með þeim hætti að þarna er ekki einu sinni virkt fulltrúaveldi — ég segi: ekki einu sinni — heldur er þarna að myndast veldi fárra teknókrata sem virðast geta tekið ákvarðanir í jafn stórum og viðkvæmum — svo ég segi nú ekki vafasömum — málum og hv. þm. benti nú á. Þá hljóta menn að spyrja sjálfa sig hvort ekki sé nauðsynlegt að skoða stöðu þessa máls með þeim hætti að taka til endurskoðunar og gera breytingu á þeim lögum sem veita svona fyrirtæki þá vernd að þróast upp í þennan — ég vil segja — hálfgerðan óskapnað miðað við það að við búum hér í lýðræðislegu ríki.

Satt að segja gat ég ekki skilið orð hv. þm. öðruvísi en á þann veg. Enda mun það vera reynsla margra að ef þessi samsteypa setur augað á einhvern hlut, einhverja atvinnugrein eða eitthvert fyrirtæki, geti það í raun yfirtekið eða hirt það sem það óskar eftir í skjóli þeirrar miklu aðstöðu og þess mikla skipulags-, félags- og fjármálavalds sem þarna er á ferðinni.

Slík þróun er lýðræðinu mjög hættuleg og það verður að stöðva jafn neikvæða þróun, þó ekki sé nema vegna þeirra sem í þessari hreyfingu starfa. En það er vegna þjóðarinnar í heild sem löggjafinn verður að grípa inn í. Ég vona satt að segja að þetta sé ekki alveg jafn alvarlegt og hv. þm. lýsti því áðan. Við ættum samt að hugsa okkur vel um og skoða þetta mál gaumgæfilega og taka það þá til athugunar hvort ekki beri að endurskoða þá löggjöf sem hér um ræðir. Það er engin goðgá þótt slíkt sé gert á hv. Alþingi. Hér hafa verið samþykkt nýverið ný lög um hlutafélög. Það er alltaf verið að taka upp gömul lög og breyta miðað við breyttar aðstæður og breyttan tíðaranda. Mér finnst það engin goðgá þótt samvinnulögin verði tekin til endurskoðunar og breytinga með það m. a. í huga að það gerist ekki sem hv. þm. var að lýsa áðan.