01.04.1985
Efri deild: 54. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4011 í B-deild Alþingistíðinda. (3332)

149. mál, siglingalög

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Eins og frsm. samgn., 3. þm. Vesturl., gat um hefur þetta frv. verið til umfjöllunar á hv. Alþingi áður. Þetta er annað þingið þar sem frv. kemur til umfjöllunar. Það var lagt fram á vordögum fyrir ári og var þá sent til umsagnar og lítillega fjallað um það í samgn.

Það hefur verið fjallað um frv. á nokkrum fundum og leitað umsagna og margar bárust. Ekki var tekinn upp sá háttur að kalla hagsmunaaðila eða fulltrúa þeirra til skrafs á fundi nefndarinnar, heldur var fyrst og fremst farið eftir þeim umsögnum sem nefndinni bárust. Eins og frsm. nefndi var dr. Páll Sigurðsson dósent, sem var formaður nefndarinnar sem undirbjó þetta frv., okkur til halds og trausts í nefndinni.

Ég tek undir það, sem fram kom hjá hv. 3. þm. Vesturl., að meginhluti af brtt. n. eru málsfarsbreytingar og til þess að haga orðum þannig að lögin skiljist betur, ef mætti orða það svo, utan tveggja greina.

172. gr. er um dánarbætur og slysadagpeninga og örorkubætur. Ekki hafði náðst samkomulag um þá grein í endurskoðunarnefndinni, en við gerð sjómannasamninga í vefur náðist það samkomulag. Brtt. okkar við 172. gr. er raunverulega það sem var samið um við sjómannasamningana í vetur.

Í öðru lagi er 221. gr. Hún er um skýrslutöku og lögreglurannsóknir í sambandi við slys. Um þá grein var mikið fjallað í nefndinni og eins og greinin er núna varð um hana allsherjarsamkomulag, eins og reyndar um annað. Ég tel að með þeirri grein hafi verið stigið stórt og gifturíkt spor í þá veru að tryggja að rannsókn sjóslysa verði með betri hætti en hingað til hefur verið. Sérstaklega vil ég leggja áherslu á þann þátt greinarinnar að skipstjóra sé skylt að láta lögreglurannsókn fram fara vegna mannskaða eða meiri háttar líkamstjóns og einnig að honum sé ekki heimilt, þ. e. skipstjóra, að fara úr höfn nema slík rannsókn hafi átt sér stað.

Ég þakka fjarstöddum formanni okkar fyrir góða forustu um vinnu í nefndinni. Í lokin mætti koma fram að um það var rætt í nefndinni að málfar á frv. væri ekki sem skyldi. Það mun m. a. stafa af því að nm. vildu ekki breyta ýmsum gömlum orðatiltækjum sem við nútímamenn skiljum varla, en lögfræðingar og þeir sem með skipstjórnarmál fara skilja mætavel. Á hinn veginn er þetta samkomulagsmál. Margar greinar frv. eru þannig upp byggðar að þær eru kannske að hluta til úr þessari áttinni og að hluta til úr hinni áttinni. Þegar verið er að ná samkomulagi um ákveðin mál er fyrst og fremst hugsað um að koma málunum einhvern veginn þannig saman að samkomulag verði, en ekki jafnframt hugað að því að þeir, sem ekki hafa komið nálægt frv.-gerðinni eða undirbúningi, skilji að hverju hefur verið stefnt. Sumar brtt. okkar munu þó hafa bætt úr þessu að nokkru.

Ég vil láta koma fram að ég tel því miður farið að stór lagabálkur eins og þessi skyldi ekki hafa verið yfirfarinn af málfræðingum áður en málið var lagt fyrir Alþingi. Mér var tjáð að þannig hefði yfirleitt verið að farið í sambandi við stjfrv., en einhverra hluta vegna mun sú ekki hafa verið raunin á um þetta frv. og jafnvel verið að einhverju leyti horfið frá í sumum rn. að láta málfræðinga líta yfir stjfrv.

Ég ítreka og bendi á að þar hefði betur mátt fara í sambandi við undirbúning þessa frv. Að öðru leyfi var okkur mjög vel fylgt eftir af þeim manni sem hafði undirbúið frv., þ. e. dr. Páli Sigurðssyni dósent. Hann studdi okkur og hjálpaði okkur við að ganga frá þessu máli. Vonandi höfum við ekki skekkt meininguna í frv., þó við værum að bæta málfar þess á ýmsa lund.