01.04.1985
Neðri deild: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4025 í B-deild Alþingistíðinda. (3341)

210. mál, selveiðar við Ísland

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Það mun öllum vera ljóst hversu miklar viðhorfsbreytingar hafa orðið á síðustu árum í sambandi við selveiðar eða nytjar af sel. Allt fram að síðustu árum var þetta víða mikilvægur þáttur í okkar búskap, fyrst lengi vel sem matföng fyrir landsmenn á umliðnum öldum en síðar um nokkurt skeið sem hlunnindi vegna nytja á skinnum þar sem aðrir hlutar selsins voru þá ekki nýttir. En svo gerist það að verðfall verður á skinnum og þá er hætt að nytja hann víðast hvar eða alls staðar á landinu. Þetta veldur því að selnum hlýtur að fjölga a. m. k. um sinn. Þá skapast það vandamál sem hér hefur verið til umræðu vegna þess hvaða áhrif selurinn hefur á okkar fiskistofna, bæði beinlínis þar sem hann notar þá til átu en þó miklu fremur vegna þeirra erfiðleika sem stafa af völdum hringormanna.

Það er því vissulega eðlilegt að litið sé á málin frá nokkuð öðru sjónarmiði við svo gjörbreyttar aðstæður. Það hefur einnig komið fram hér í umræðum að sú staða sem nú er komin upp og það frv. sem hér liggur fyrir á nokkurn aðdraganda í umræðum og nefndarskipun. Að frv. þessu vann nefnd sem í var m. a. einn af starfsmönnum Búnaðarfélags Íslands, hlunnindaráðunauturinn Árni G. Pétursson. Það hefur ekki komið annað fram en að hann hafi verið samþykkur frv. í þeirri gerð sem nefndin skilaði því af sér. Þetta frv. var komið í þennan búning þegar mér var kunnugt um það og strax og ég sá það lét ég efasemdir í ljós um það hvort hér væri algjörlega rétt stefna. Þrátt fyrir það að bændur hafi ekki nytjað selinn nú um nokkurt skeið er hann svo tengdur bújörðum, ströndinni og landinu að ég held að það sé afar erfitt að skilja þar á milli. Vissulega þurfum við á rannsóknum að halda einnig úti í sjó af hálfu þeirra stofnana sem hafa tæki til þess. En beinar aðgerðir held ég að verði ekki árangursríkar nema haft sé mjög náið samband við þá sem þessi réttindi eiga, bændurna í landinu.

Ég lét því í ljós efa um, eins og ég sagði, að þarna væri að öllu leyti rétt að staðið og áskildi mér rétt til að fylgja þar breytingum á. Þarna er æskilegast að ná sem nánustu samstarfi við alla aðila og þá sérstaklega bændurna. Þess vegna þarf að tengja þetta sem best saman og ég hygg nokkuð betur en gert er ráð fyrir í frv. Hins vegar viðurkenni ég þann vanda sem fjölgun sela hefur í för með sér og fyrir því er ekki hægt að loka augunum og ekki heldur hægt að vera aðgerðarlaus. Nú á allra síðustu árum hafa komið til greina nýjar nytjar af selnum og þegar verið nokkuð farið inn á þá braut, þ. e. að nytja hann til fóðurs fyrir loðdýr. Ég held að það sé vænlegasta leiðin til að takmarka stofnstærðina ef hægt er að finna þannig aðferðir sem gera fækkun selanna hagkvæma á þann hátt að hægt sé, eins og hér hefur verið gert frá alda öðli, að veiða hann til nytja.

Þess vegna vil ég leggja áherslu á að reynt verði að ná sem víðtækustu samstarfi og samvinnu um þetta. Og þó að fulltrúi Búnaðarfélagsins hafi átt sæti í nefndinni sé ástæða til að skoða málið frekar, þó að vissulega sé hægt að breyta því síðar þegar reynsla hefur komið á þessa skipan og hún leitt í ljós að annar háttur sé betri sem ég hygg að væri líklegt.