29.10.1984
Efri deild: 7. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í B-deild Alþingistíðinda. (336)

106. mál, tannlækningar

Davíð Aðalsteinsson:

Virðulegi forseti. Eins og fram kom hjá hæstv. heilbrmrh. urðu nokkrar umr. ekki síst um 3. gr. þessa frv. eða hliðstæðs frv. á síðasta þingi í Nd. Ég held fyrir mitt leyti að komið hafi fram svolítill misskilningur varðandi 2. mgr. 3. gr. í Nd. í fyrra. Um það er að ræða samkv. greininni að þeir sem fjalla um umsóknir manna sem hafa menntast hér heima fjalla auðvitað jafnframt um umsóknir erlendra manna sem sækja um lækningaleyfi. Hér er einvörðungu, að mínum dómi, verið að bæta við því að þegar um erlenda ríkisborgara er að ræða, — þá er ekki eingöngu átt við kunnáttu í íslensku, heldur hvað eina sem erlenda ríkisborgara varðar, — að þá fjalli fagfélagið um umsóknir til viðbótar við aðra umfjöllunaraðila. Það má sjálfsagt deila um þetta. Ég held þó að ekki sé nema eðlilegt að fagfélag fjalli um það þegar erlendir menn sækja hér um störf. Það má deila um í hve ríkum mæli á að setja í vald fagfélaga að verja sín réttindi til starfa, en í slíkum tilvikum finnst mér það rétt. Ég er þessu fylgjandi.

Hins vegar skal ég játa að e.t.v. væri ríkari ástæða til þess í mörgum tilvikum fremur en þessu að taka fram um íslenskukunnáttu vegna starfsins. Hér er um tannlækningar að ræða. Vikið var að því í umr. í fyrra að kannske væri lítið um samræður á milli sjúklings og læknis á meðan á aðgerð stendur. En þetta er ekki aðalatriði.

Ég hef heyrt því fleygt að læknalög væru til endurskoðunar. Í þessu sambandi væri vert að spyrja hæstv. ráðh. að því hvort eðlilegt væri og ástæða til að bíða með efnislega umfjöllun í n., a.m.k. afgreiðslu þessa frv., vegna hugsanlegs frv. sem fram kemur um læknalög. Það er staðreynd að frv. varðandi löggildingu starfs og skyldna og réttinda heilbrigðisstétta hafa verið nokkuð til meðferðar á undanförnum árum og ég veit að sú skoðun ríkir, a.m.k. sums staðar, að það sé heppilegra að kveða á um réttindi og skyldur heilbrigðisstétta í almennri löggjöf, eins konar rammalöggjöf, og fjalla síðan á vettvangi reglugerðar um margt af því sem við kemur nánari útfærslu á þeim réttindum og skyldum. Þess gerðist þá ekki þörf í hverju tilviki að flytja lagafrv. þegar um er að ræða lögfestingu slíkra réttinda og slíkra skyldna.

Nokkur orð vil ég segja varðandi 13. gr. frv. sem varðar sektarákvæði. Þar er nefnd fjárhæð, 500 þúsund. Eftir því sem ég best veit er það fremur stefnan að einfalda meðferð að þessu leyti, þ.e. að hafa sektarákvæði í einni grein, sameina þau í einni grein undir hatti almennra hegningarlaga, þ.e. í 50. gr. almennra hegningarlaga þar sem getið er um hámark fésekta í krónum. Hér ætti því e.t.v. að standa einvörðungu að brot gegn ákvæðum laga þessara varði sektum.

Virðulegi forseti. Ég hef ekki fleira um þetta frv. að segja á þessu stigi, við munum að sjálfsögðu fjalla um það í heilbr.- og trn., en vænti þess að hæstv. ráðh. muni, þegar hann stígur hér í stólinn öðru sinni, nefna hugsanlegt frv. til læknalaga og almenna löggjöf um heilbrigðisstéttir.