02.04.1985
Sameinað þing: 67. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4055 í B-deild Alþingistíðinda. (3369)

321. mál, löggjöf um fiskeldi

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Hér er til umr. fsp. um undirbúning að heildarlöggjöf um fiskeldi. Það er upplýst að slík löggjöf er í undirbúningi. Sá undirbúningur getur tekið langan tíma, eins og títt er um heildarlöggjöf um ýmis efni. Það er góðra gjalda vert og sjálfsagður hlutur að undirbúa rammalöggjöf um svo mikilvægt málefni. Á hitt vil ég benda að það er þó ekki algjört grundvallarskilyrði. Ég vil nefna það einu sinni enn að ráðamenn þjóðarinnar, hæstv. ráðh. og aðrir, eru margbúnir að hampa því að leggja verði áherslu á mikilvægar aukabúgreinar í framtíðinni. Þar hefur verið nefnt fiskeldi og loðdýrarækt. Það er hafið yfir allan vafa að fiskeldi er mjög álitleg búgrein hér á landi. Þess vegna þurfa hæstv. ráðamenn að leggja kapp á að hlynna að þessari atvinnugrein, ekki bara ræða um það og skrifa, heldur veita fé til þessara framkvæmda, hlynna að undirbúningi þess á allan hátt að slík búgrein geti farið af stað. Ég geri ekki lítið úr því að mikilvægt sé að setja um þetta góða og nýtilega löggjöf. Á hitt vil ég aðeins benda og leggja á það áherslu að það er ekki hægt að bíða eftir þeirri löggjöf, það er ekki hægt að afsaka sig með því að slík löggjöf sé ekki fyrir hendi. Ráðamenn þurfa þegar í stað að leggja sig alla fram um að styðja og styrkja þessa álitlegu búgrein.