02.04.1985
Sameinað þing: 67. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4058 í B-deild Alþingistíðinda. (3373)

370. mál, verð á áburði

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 590 að bera fram fsp. til hæstv. landbrh. um væntanlegt verð á áburði. Mál eru þannig að skv. erindisbréfi sem sett er á grundvelli laga um Áburðarverksmiðju ríkisins, erindisbréfi fyrir stjórn Áburðarverksmiðjunnar, er gert ráð fyrir því sem einu af verkefni stjórnarinnar „að gera tillögur til landbrh. um áburðarverð sem ákveður það. Tillögur skulu sendar ráðh. þannig að hann hafi að lágmarki 15 daga til ákvörðunar áburðarverðs. Hafi áburðarverð ekki verið ákveðið af ráðh. fyrir 1. apríl ár hvert, enda sé liðinn 15 daga frestur, skal stjórnin ákveða það.“

Þetta eru ákvæði í erindisbréfi fyrir stjórn Áburðarverksmiðjunnar sett af landbrh. 22. ágúst 1973, undirritað af Halldóri E. Sigurðssyni og Sveinbirni Dagfinnssyni.

Nú er kominn 2. apríl og ekkert hefur frést um áburðarverð frá hæstv. landbrh. eða ríkisstj. Það eina sem menn heyra eru spásagnir í blöðum um líkur á gífurlegri hækkun á áburðarverði. Þannig segir Morgunblaðið frá 28. mars, með leyfi forseta:

„Milljónatuga tap varð á rekstri Áburðarverksmiðju ríkisins í Gufunesi á s. l. ári og skv. heimildum Morgunblaðsins er talið að miðað við ákveðnar gengisforsendur þurfi verksmiðjan allt að 58% hækkun áburðarverðs frá og með 1. apríl n. k. þegar ný gjaldskrá tekur gildi, ef stjórnvöld grípa ekki til sérstakra aðgerða verksmiðjunni til stuðnings. Við slíka hækkun færi áburðurinn upp í um 13 þús. kr. tonnið, en það er 85% hækkun til bænda vegna þess að áburðarverðið var greitt niður með fé úr kjarnfóðursjóði á s. l. ári.“

Þetta er tilvitnun í Morgunblaðið. Frá stjórnvöldum hefur hins vegar ekkert frést.

Sem kunnugt er er staða bændastéttarinnar á heildina litið með því allra hraklegasta sem gerist hjá vinnandi stéttum í þessu landi og er þó víða þröngt fyrir dyrum. Ég hygg að hv. stjórnvöld séu kannske að átta sig eitthvað á þessu því að nú er farið að heyrast í bændum fram hjá þeim stéttarsamtökum sem eiga að vera málsvarar þeirra ef allt væri með felldu og þeir eru farnir að fylkja sér saman í sérstökum félögum til varnar hagsmunum sínum. Það þarf engan að undra eins og á málefnum landbúnaðarins hefur verið tekið á undanförnum árum. Áburðarverð, tilkostnaður vegna áburðar er stór þáttur í rekstrarstöðu búanna og þar er um að ræða þátt sem skiptir ekki aðeins máli á viðkomandi ári, heldur skiptir máli fyrir komandi ár í sambandi við þá ræktun og gripaeldi sem á að verða á grundvelli hennar. Hér er því um að ræða stefnumarkandi þætti í sambandi við landbúnað til lengri tíma litið. Þess vegna er það mjög slæmt, svo að ekki sé dýpra í árinni tekið, að áburðarverð skuli ekki liggja fyrir eins og gert er ráð fyrir í erindisbréfi stjórnar og nú er komið fram yfir tilsettan tíma hvað það snertir. Það kann að vera að það sé ekki einsdæmi. g hygg að svo sé ekki, en þegar um er að ræða svo gífurlega hækkun á verðinu ofan í þá rekstrarstöðu sem við blasir hjá þorra bænda, þá er hér um að ræða stórkostlega þýðingarmikinn þátt. Í rauninni fæ ég ekki séð hvernig stjórnvöld gætu ætlað bændum að bera áburðarverðshækkun upp á 50%, hvað þá upp á 85% eins og látið er að liggja að þörf sé á út frá sjónarhóli Áburðarverksmiðjunnar, en úr því verður væntanlega skorið hér í svari hæstv. ráðh. Ég spyr hann:

„1. Hvað er gert ráð fyrir að áburðarverð til bænda hækki mikið í vor?

2. Hvaða ástæður eru til hækkunar á áburðarverði?

3. Eru fyrirhugaðar ráðstafanir af hálfu ríkisstj. til að auðvelda bændum kaup á áburði?

4. Er ráðgert að greiða niður áburðarverð úr kjarnfóðursjóði eins og á síðasta verðlagsári?“