02.04.1985
Sameinað þing: 68. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4080 í B-deild Alþingistíðinda. (3387)

24. mál, Búnaðarfélag Íslands

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Fyrst hér hefur komið fram till. um að langbest væri að leggja niður landbrn. þá þykir mér nú heldur smátt að ræða um það áfram að það beri að leggja niður starfsemi Búnaðarfélags Íslands. Því að það er sjálfgefið að verði landbrn. lagt niður þá hrynja tengslin og þarf ekki að hafa frekari áhyggjur af þátttöku ríkisins í starfsemi Búnaðarfélags Íslands.

En ég játa það að þegar fram koma hugmyndir eins og þær að það sé um þúsund ára aðlögunartíma, ellefu hundruð ára aðlögunartíma landbúnaðarins og sjávarúfvegsins að ræða og samt fari stór hluti af tíma alþm. í að bjarga þessum greinum frá bráðum voða, þá setur mann hljóðan. Ég fel að meðan íslenskur sjávarúfvegur skapar um 73–75% af gjaldeyristekjum þessarar þjóðar en skuldirnar eru um 16% af heildarskuldum, erlendum skuldum þjóðarinnar, þá hljóti menn að hugleiða hvort sjávarútvegurinn lifir á þjóðinni eða þjóðin á sjávarútveginum. E. t. v. telja einhverjir að þetta sé spurning um hártogun, eins og um það hvort sé nú eldra fyrsti unginn eða eggið. En ef það er tilfellið að sjávarútvegurinn lifir á þjóðinni og þetta er allt saman vitleysa, þá á auðvitað að leggja hana niður, ekki satt, standa ekkert í þessari björgunarstarfsemi?

En ef það skyldi aftur á móti vera svo að það væri þjóðin sem lifði á sjávarútveginum þá versnar nú í því. Þá verður að leggja þjóðina niður. (Gripið fram í.) Ég sé að það kemur visst fát á hv. 10. landsk. þm. við að heyra þetta og mig undrar það ekki því að það væru náttúrlega mikil tíðindi ef þetta kæmi til framkvæmda. En það væri þá í samræmi við það að velta í rúst, ekki satt? Þetta væri náttúrlega mesta byltingin sem hægt væri að framkvæma í landinu á stuttum tíma.

Það er dálítið undarlegt að menn leyfi sér að tala um ellefu hundruð ára aðlögun eins og allt hafi staðið í stað í ellefu hundruð ár og menn hafi orðið að aðlaga sig ákveðnum kringumstæðum og ættu að vera búnir að því fyrir löngu. Ég veit ekki hvort sá tónn sem liggur á bak við þessa kenningu um ellefu hundruð ára aðlögun er beinn fjandskapur við sjávarútveg og landbúnað en tvímælalaust er það lítilsvirðing sem liggur á bak við. Og það verður að segjast eins og er að málflutningur á þann veg að lítilsvirða þessa tvo atvinnuvegi Íslendinga, hann finnst mér að mörgu leyti aumkunarverður. Hitt er furðulegra ef stjórnmálaflokkur telur það vænlegt til vinsælda að hafa uppi slíkan málflutning.

Það kom fram í seinni ræðu hv. 8. þm. Reykv. að engin stétt á Íslandi hefði jafnmikil ítök um sín málefni og bændastéttin. Ef þetta væri satt gæti maður hugsað sér að þessi stétt lifði eins og blómi í eggi og kúgaður lýðurinn mætti sjá um að þessu liði liði nú vel. Þannig var það með aðalinn í það minnsta þegar hann hafði öll völd á Vesturlöndum. Þessu er nú aftur á móti ekki þann veg farið. Og skýringin á því virðist eiga að vera sú að foringjarnir séu svo heimskir eða svo fjarri því að hafa unnið sinni stétt þarft verk, en völdin hafi þeir öll til þess. Trúi nú hver þessum málflutningi sem vill.

En ég ætla að halda áfram að vekja athygli á því að á Íslandi hefur það löngum tíðkast og verður svo vonandi áfram að áhugafélög á ýmsum sviðum koma fram og þrýsta á þjóðfélagslegar umbætur. Það er mikið af þessum félögum á sviði heilbrigðismála. Ég tel að þau hafi mörg hver unnið gífurlega þarft verk, er sannfærður um það. Ég vil vekja á því athygli að sennilega er það læknastéttin sem hefur mest ítök og áhrif um eigin mál. Það er gengið frá því að ráðuneytisstjóri í heilbrrn. er læknir og landlæknisembættið er einnig til staðar við hliðina á rn. Sennilega hefur engin stétt meiri völd yfir eigin málefnum en læknastéttin enda hefur hún líka komið sér þokkalega fyrir í þjóðfélaginu, vegna þess e. t. v. En hún hefur líka skilað þeim árangri að Íslendingar eru næstlanglífasta þjóð í heimi.

Hitt er svo ærið umhugsunarefni fyrir íslenskufræðinga og stílista hvernig það gefur átt sér stað að þeir snillingar séu uppi að hægt sé að semja till. til þál. og brtt. við lög og nota í öllum aðalatriðum sama rökstuðninginn fyrir öllu saman, þannig að það hefði nánast mátt fjölrita pistilinn með því að leggja yfir textann sem fjallaði um lagabreytinguna eða þáltill. Annaðhvort er hér um hreina snilld að ræða til að auðvelda mönnum málflutning á þingi og koma málum inn í þingið eða þá hér er um það að ræða að menn hafa viljað kasta fram sem mestu af málum án þess að leggja vinnu í að gera grein fyrir þeim. Annað tveggja hefur gerst. Það hvarflar nú að mér að það seinna hafi vakað fyrir flm., að koma sem flestum málum á framfæri án þess að þurfa að leggja vinnu í það að semja rökstuðninginn og koma honum inn í grg.

Ég vil taka undir það sem kom fram hjá hv. 1. þm. Vesturl., að það hefði verið visst hagræði að því að ræða þessi mál í einni heild en ekki auðvelt þar sem um þáltill. og lagafrv. er að ræða. Það hefði aftur á móti varpað mun meira ljósi á samhengið í þeim málflutningi sem hér er um að ræða. Það er nefnilega hárrétt athugað hjá hv. 1. þm. Vesturl. að BJ hefur það nokkurn veginn á hreinu hvað það er sem það vill rústa. En það liggur ekki jafnljóst hvað það er sem þeir vilja byggja upp. Það er nefnilega gífurleg þversögn í því að tala annars vegar um að færa valdið til fólksins, eins og grasrótarkenningin boðar, og í hinu að leggja til að það verði dregið úr áhrifum fulltrúa hinna ýmsu stétta og valdið fært inn í rn. Þarna er um þá þversögn að ræða að BJ hlýtur að verða að gera það upp við sig hvor stefnan það er sem það ætlar að styðja.