02.04.1985
Sameinað þing: 68. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4082 í B-deild Alþingistíðinda. (3388)

24. mál, Búnaðarfélag Íslands

Flm. (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Af tilefni orða hv. 1. þm. Vesturl. um neikvætt hugarfar sem að baki þessum till. byggi þá verð ég nú að segja fyrst að það undrar mig nokkuð að heyra einmitt gagnrýni af þessari tegund frá fulltrúa Sjálfstfl. hér á þingi og má þá gjarnan spyrja: Ef ég hefði flutt hér tólf tillögur um nýjar stofnanir á vegum ríkisvaldsins hefði ég þar með verið orðinn jákvæður þm.?

Hv. 5. þm. Vestf. er enn við sama heygarðshornið að reyna að skilja og skynja það sem fram kemur í þessum till., þ. e. hugmyndafræðina að baki. Ég get ekkert hjálpað honum í þeim vanda að eiga svona erfitt með að gera sér grein fyrir því að verkefnum verður að fylgja ákveðin ábyrgð, og þegar talað er um valdgreiningu þá er maður að tala um annars vegar vald og hins vegar ábyrgð hverju sinni, og að hér er öðrum þræði verið að tala um að það sé alveg á hreinu hver hafi vald til að framkvæma hvað og beri ábyrgð á hverju. Það getur vel verið að í sumum tilvikum þýði það það að ákveðinn hluti starfsemi flytjist til rn. en þar með flyst þá líka öll ábyrgð af þeim framkvæmdum á herðar rn.

Menn voru slegnir felmtri hér þegar ég nefndi það að ég teldi skynsamlegt að leggja niður landbrn. Ég var að lýsa ákveðinni skoðun, minni skoðun. Ég hef ekki lagt fram neinar till. hér en ég tel að — (Gripið fram í: Það er ekki stefnuskráratriði Bandalagsins?) Það er ekki stefnuskráratriði en ég fel að hin nánu afskipti ríkisvaldsins af atvinnulífi hér á landi séu óheillavænleg og að fortíðin og nútíðin sanni okkur það að þau skili ekki árangri. Þess vegna er það mín skoðun að endanlega, ef ekki vill betur til, væri kannske besta ráðið að leggja niður þau þrjú rn. sem að atvinnulífinu snúa, einfaldlega til þess að skera á þessi afskipti með öllu, sjútvrn., iðnrn. og landbrn. Viðskrn. sinnir dálítið ólíkum verkefnum og hefur ekki þessi beinu tengsl við atvinnulíf sem þessi rn. hafa. Samtök þeirra atvinnustétta sem viðskrn. hefur tengsl við eru ekki eins náið tengd rn., sem um er að ræða og er í hinum rn.

Að lokum, herra forseti, undraðist hv. 5. þm. Vestf. hvernig hægt væri að fullnægja öllum þessum till. með einni grg. Tilfellið er að orðræða manna hér um allar þessar till. hefur að mínu mati snúist allt of mikið um það hvað þáltill. væru stuttar og grg. stuttar. Það er eins og menn hafi gleymt því að það er ekkert mjög langt síðan að það var starfsregla skv. þingsköpum á þessu þingi að það máttu ekki vera grg. með þáltill., þurfti engar til. En ástæðan fyrir því að hægt er að fullnægja þessum tillögum öllum með einni og sömu grg. er einfaldlega sú að í öllum þessum tilvikum er um að ræða tillögur um breytingar á gamaldags stjórnháttum og úreltum afskiptum ríkisvalds.