15.04.1985
Efri deild: 56. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4164 í B-deild Alþingistíðinda. (3481)

416. mál, þingsköp Alþingis

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þar sem ég á ekki sæti í þeirri hv. n. sem hefur þetta mál til umfjöllunar og hefur unnið það frv. sem hér er nú til umr. vil ég segja fáein orð hér við 1. umr. þess. Ég held að við öll, sem sitjum hér á hæstv. Alþingi, megum vera nokkuð glöð yfir því að hér er komið fram frv. um endurbættar og skýrari starfsreglur fyrir Alþingi. Eins og við vitum öll er það ákaflega mikilvægt að þingsköp séu sem skýrust og því fagna ég því að þetta frv. er hér komið til umr. Hitt er svo aftur annað mál hvort við erum öll sammála um einstök atriði frv. En áður en ég kem að þeim athugasemdum, sem þingflokkur Kvennalistans hefur við frv. að gera, langar mig til að tæpa aðeins á skyldu máli og það er hversu mikil nauðsyn er á því að komið verði á bættum vinnubrögðum í framkvæmd hér á hæstv. Alþingi. Ég vil í því efni einkum tiltaka nauðsyn á skilvirkari nefndarstörfum og nauðsyn þess að koma í veg fyrir að afgreiðsla mála hrúgist að töluverðu leyti á tvö stutt tímabil á þingtímanum, þ. e. á vikurnar fyrir jólahlé og vikurnar fyrir þinglausnir. Þessi vinnubrögð eru til vansa fyrir hæstv. Alþingi. Ég vil því við þetta tækifæri nú, þegar við erum að ræða starfsreglur Alþingis, beina eindregnum tilmælum til forseta þingsins og nefndarformanna að leggjast á eitt með að breyta þessum vinnubrögðum til betri vegar. Ég vil taka það fram að ég efast ekki um að forsetar hafi beitt sér í átt til betri hátta að þessu leyti og það á líka við um suma nefndarformenn, en betur má ef duga skal.

Þessi vinnubrögð, sem ég hér nefni, eiga frekar við um framkvæmd starfsreglna Alþingis en starfsreglurnar sjálfar. En þetta tvennt er svo samtvinnað að mér finnst eðlilegt að minnast á þessa hlið málsins hér við umr. um frv. til laga um þingsköp Alþingis.

Hvað frv. sjálft varðar er það samið af nefnd sem í áttu sæti fulltrúar allra þingflokka, eins og fram kemur í grg. með frv., og ljóst má vera að víðtæk samstaða hefur náðst um meginatriði þessa frv. Í einstaka atriðum hefur þó greinilega ekki náðst að samræma öll sjónarmið og við Kvennalistakonur höfum nokkrar athugasemdir við frv. að gera og gerði fulltrúi Kvennalistans í nefndinni, hv. þm. Kristín Halldórsdóttir, grein fyrir þeim þar og brtt. Kvennalistans í þeim efnum.

Þar er fyrst til að taka brtt. við 8. gr. frv. þess efnis að heimila megi kosningu til Ed. í upphafi hvers þings óski þingflokkur sérstaklega eftir að skipta um fulltrúa sína þar. Þykir okkur sem slík heimild veiti þingflokkunum nauðsynlegan sveigjanleika til að aðlaga sig þeim breytingum sem kunna að verða á aðstæðum á kjörtímabilinu og sem ófyrirsjáanlegar kunna að vera í upphafi þess. Eftir því sem ég best veit mun áður hafa gilt sú regla að kosið væri til Ed. í upphafi hvers þings. Ég vil taka það fram að við erum ekki að leggja til að hún verði tekin upp aftur heldur aðeins að þingflokkum sé veitt heimild til að láta kjósa sína fulltrúa að nýju í upphafi þings óski þingflokkurinn sérstaklega eftir því.

Í öðru lagi höfum við gert athugasemdir við 28. og 31. gr. frv. þar sem okkur finnst ræðutími vera skammtaður of knappt. Þótt ég geti sannarlega tekið undir það sjónarmið að nauðsyn beri til að setja nánari reglur en nú gilda um þessi atriði tel ég hér vera of knappt skammtað.

Í þriðja lagi gerðum við athugasemdir við 34. gr. frv. Við lögðum til að þm. geti óskað eftir að hverfa tímabundið af þingi af öðrum ástæðum en þeim sem nefnd eru forföll í greininni, enda geri þm. þá grein fyrir hvaða ástæður liggi að baki óskar hans og þær síðan metnar.

Virðulegi forseti. Þetta eru helstu athugasemdir sem Kvennalistinn hefur við þetta frv. að gera þótt ýmislegt fleira mætti tiltaka. Ég nefni þetta hér við 1. umr. vegna þess að fulltrúi Kvennalistans í Ed. á ekki sæti í þeirri nefnd sem hefur þetta frv. til meðferðar. Fulltrúi Kvennalistans þar mun taka þessi atriði aftur upp, vænti ég, í þingskapalaganefndinni. En að öllu óbreyttu, ef ekki verða breytingar á frv. að neinu verulegu leyti að því sem tekur til þeirra atriða sem ég hef nefnt eða ekki er möguleiki á að ná einhvers konar samkomulagi, geri ég ráð fyrir að flytja brtt. hér í hv. deild við 2. umr. sem taka til þeirra atriða sem ég hef hér nefnt. Þá mun ég gera nánari grein fyrir forsendum þeirra till. en ég hef gert nú.

Að lokum vil ég þakka þingskapalaganefndinni það mikla starf sem hún hefur unnið á skömmum tíma og er sú skilvirkni sannarlega til fyrirmyndar.