15.04.1985
Neðri deild: 56. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4184 í B-deild Alþingistíðinda. (3513)

50. mál, ríkisábyrgð á launum

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að eyða miklum tíma í umr. um þetta atriði, það er búið að ræða það svo oft. Það hafa farið fram á undanförnum árum, eins og hv. þm. er sjálfsagt kunnugt um, miklar umræður um hvort það væri rétt fyrir launþegahreyfinguna að láta breyta formi á póstgíróinnheimtu eða meðferð orlofsfjár. Stjórnvöld hafa ekki lagt neina hindrun í götu þess að því yrði breytt. Það hefur aldrei verið svo ég viti til, heldur hefur verið samkomulag um að launþegahreyfingin sjálf tæki ákvörðun um meðferð þessa máls. Þannig hefur þetta farið fram á undanförnum árum.

Það hefur verið sérstök nefnd að verki sem átti að gera ákveðnar tillögur um breytingu á meðferð þessa máls miðað við þær kröfur sem komu fram á Vestfjörðum um að taka þetta form til breytinga þannig að Póstgíróstofan annaðist þetta ekki lengur, heldur væri það frjálst í meðferð hjá hverju svæði fyrir sig. En eins og ég sagði áðan hefur nefndin ekki treyst sér til að gera á þessu slíkar ákveðnar breytingar. Þess vegna er ekki hægt, að mínu mati, að leggja til annað meðan launþegahreyfingin sjálf vill engu breyta. Ég ætla ekki að ræða um hvað einstakir nefndarmenn kunna að segja eða aðilar í þessu máli. Ég hef þetta beint frá þeim sem stjórna þessu verki. Þeir segja mér að ekki sé hægt að ná samstöðu um það enn að breyta þarna til sem þýðir að launþegahreyfingin vill ekki breyta þessu kerfi eins og það er. Hún telur betur tryggt fyrir launþega að ávaxta þetta fé í gegnum póstgírókerfið. Enn þá liggur það a. m. k. fyrir að Póstgíróstofan hefur ávaxtað þetta fjármagn launþega eins o best hefur verið ávaxtað fjármagn í þjóðfélaginu. Ég veit ekki betur en allir viðurkenni það, enda hafa ekki komið um það mótmæli neins staðar frá. Meðan svo er tel ég að ekki sé hægt að gera aðrar breytingar að sinni. Hins vegar er þetta opið og verkalýðshreyfingin hefur á sínum færum hverju hún vill láta breyta varðandi þá stefnu. Það er frjálst.