15.04.1985
Neðri deild: 56. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4188 í B-deild Alþingistíðinda. (3522)

Afgreiðsla þingmála

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég man ekki eftir því að hafa áður heyrt umræður utan dagskrár á Alþingi um það að óeðlilegt væri að þeir þingflokkar sem styðja ríkisstj. gefi sér tíma til að athuga stjfrv. áður en þau eru borin fram eða sýnd stjórnarandstöðunni. Ég man ekki til þess að f. d. sú ríkisstj. sem hv. formaður Alþb. sat í síðast hafi ætlað öðrum sjálfstæðismönnum en þeim sem voru yfirlýstir stuðningsmenn þeirrar ríkisstj. að fylgjast með málatilbúnaði innan þeirrar stjórnarsamvinnu. Ég held að þegar við tölum um virðingu ríkisstjórnar og þings ættum við að reyna fremur að kosta kapps um það að mál séu vel undirbúin og að þeir menn sem bera mál fram og bera ábyrgð á þeim taki sér tíma og vinni vel sitt verk en leggi ekki mál fyrir þingið í reiðuleysi.