15.04.1985
Neðri deild: 56. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4190 í B-deild Alþingistíðinda. (3525)

Afgreiðsla þingmála

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Heyrði ég rétt að hv. 4. þm. Norðurl. e. héldi því fram að hæstv. ríkisstj. drægi við sig að leggja fram mál í hv. Nd. af ótta við málafylgju hans? (Gripið fram í.) Ég heyrði það rétt. Jú, að vísu heyrði ég það rétt. Það heyrðu það allir hv. þdm.hv. 4. þm. Norðurl. e. er þeirrar trúar að hæstv. ríkisstj. sé svo hrædd víð hann og málafylgju hans að hún þori ekki að leggja fram mál í hv. Nd. (SJS: Það eru 40 þm. í Nd., hæstv. ráðh.) — og eru býsn á að heyra. Ja, hv. þm. talaði bara fyrir sinn munn, hafði ekkert umboð, ekki einu sinni frá hv. 3. þm. Reykv. og er hann þó fullhugi mikill. (SvG: Hvað veist þú um það?)

Hæstv. utanrrh. upplýsti engin ný leyndarmál eða leyndardóma á landsfundi Sjálfstfl. um utanríkisstefnu Íslands, engin ný. Og það hefur ekkert verið í muddum talað um þau mál af hans hálfu né hæstv. ríkisstj. í tíð núv. ríkisstj., fjarri því. Ég ætla ekki að orðlengja um þá virðingu sem menn eru að auka þinginu með málafylgju eins og þessari hér.

Það er kallað ákaft eftir frv.-drögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins og er von að mönnum lengi í þau. Rétt nýverið fengu stjórnarflokkar að sjá þau drög ásamt ófullbúinni grg. Hæstv. landbrh. er búinn að lofa hæstv. stjórnarandstöðu að fá að sjá þetta frv. á morgun. En slíkan óðs manns skít hafa menn étið að það er heimtað að það verði gert fyrir kvöldmál. Ég hef aldrei — að vísu á ég ekki langa þingsögu, ein 14 ár — heyrt slíka málafylgju eða að þessi háttur sé á hafður til þess að auka sérstaklega virðingu þingsins, því að til þess eru refirnir skornir að því sem manni heyrist — eða gera betur en svo að bregðast við innan sólarhrings, hæstv. forseti, málaleitan eins og þessari að fá að sjá viðamikið frv., byltingarkennt frv. um landbúnað á Íslandi, eins og hér er í aðdrögum. (Gripið fram í: Byltingarkennt?) Byltingarkennt, já, ég fullyrði ekki meira en það. Og mætti segja mér að þetta mál þurfi vandlega meðferð í hæstv. Alþingi (Gripið fram í: Það er það sem við erum að segja.), og þess vegna er lagt slíkt kapp á að verða við óskum stjórnarandstöðunnar að innan sólarhrings verður henni afhent þetta. Samt standa menn hér uppi málþola og gapa og gleypa vind.