16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4200 í B-deild Alþingistíðinda. (3552)

327. mál, bókmenntaverðlaun Jóns Sigurðssonar

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Vorið 1983 heimsótti forseti Íslands, Vigdís Finnbogadóttir, Vestfirði. Stödd á Hrafnseyri, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar, tilkynnti hún þá fyrirætlan að stofna til bókmenntaverðlauna sem helguð skyldu minningu Jóns Sigurðssonar og úthlutað á afmælisdegi hans 17. júní ár hvert. Verðlaunin skyldu veitt fyrir tiltekið bókmenntaverk sem birst hefði, verið gefið út, leikið í leikhúsi, flutt í útvarpi eða sjónvarpi á undangengnum fimm árum. Verðlaun veitt 1984 hefðu þá takmarkast við árin 1978–1983.

Í frumdrögum að stofnskrá þessara verðlauna var gert ráð fyrir að val verðlaunaverks yrði í höndum þriggja manna nefndar sem skipuð yrði til eins árs í senn. Einn þeirra mundi forseti Íslands tilnefna, Rithöfundasamband Íslands annan og félag gagnrýnenda þann þriðja. Nokkrar umræður urðu um þessi fyrirhuguðu verðlaun á sínum tíma, en ef mig brestur ekki minni voru skoðanir einkum skiptar um formsatriði, fáir urðu til að mótmæla verðlaununum sem slíkum. Hins vegar hlaut Alþingi að hafa síðasta orðið í þessu máli og er skemmst frá því að segja að það samþykkti athugasemdalaust 300 þús. kr. fjárveitingu á fjárlögum ársins 1984 í þessu skyni.

Hefði þar með mátt ætla að næsta skref yrði að skipa úthlutunarnefnd og setja reglugerð um úthlutun verðlaunanna. En af því hefur ekkert frést. Og hafi verðlaununum verið úthlutað 17. júní s. 1., eins og ætlun var upphaflega, fór það að minnsta kosti hljótt. Þegar síðan í ljós kom að verðlaunum þessum hafði verið úthýst af fjárlögum þessa árs urðu ýmsir uggandi um framtíð þeirra. Því hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. menntmrh. á þskj. 521. Fsp. er í þremur liðum og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„1. Hefur verið úthlutað bókmenntaverðlaunum af lið 02-982-0235 á fjárlögum ársins 1984 sem forseti Íslands stofnaði til og kenndi við Jón Sigurðsson?

2. Hefur verið skipuð stjórn til að fjalla um verðlaun þessi og sett um þau reglugerð?

3. Hvað er fyrirhugað um þessi verðlaun í framtíðinni og hvers vegna var ekki veitt fé til þeirra á fjárlögum í ár?“