16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4205 í B-deild Alþingistíðinda. (3559)

219. mál, greiðsla rekstrar- og afurðalána bænda

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Eins og hv. 4. þm. Norðurl. v., fyrirspyrjandi, gat um hér áðan hefur nokkur tími liðið síðan hann beindi fsp. til mín og til hæstv. landbrh., en eins og fram kom hjá honum í góðu samkomulagi. Og ég vil þá taka fram að vegna biðlundar hans hefur þessi fsp. ekki verið tekin til umr. fyrr en nú. En það kemur fram í svörum mínum hér á eftir hvers vegna svo hefur farið.

Hv. þm. las hér upp fsp. svo að ég sé ekki ástæðu til að endurtaka þær. En það sem ég segi hér á við 1. og 2. lið fsp.

Saga þessa máls er orðin alllöng. Hana má rekja til þáltill. frá hv. fyrirspyrjanda sem samþykkt var hinn 22. maí 1979. Síðan hefur töluvert verið unnið að því að þoka þessu máli áfram en það er bæði vandasamt og viðamikið og verkið hefur þess vegna gengið hægar en menn upphaflega hugðu. Þó er óhætt að fullyrða að hægt og sígandi hefur framkvæmd þessa máls nálgast þá hugsun sem býr að baki ályktun Alþingis. M. a. var sú breyting gerð haustið 1984 á greiðslum afurðalána úr Seðlabankanum að veðsetning fór fram að fullu vikulega. Við þessa breytingu gat uppgjör við bændur orðið greiðara, eða allt að því einum mánuði fyrr en áður. Lánadeild Seðlabankans hefur aflað upplýsinga um greiðslumáta sláturleyfishafa til bænda á rekstrar- og afurðalánum bankanna. Af þessum upplýsingum er ljóst að greiðslumátinn er breytilegur. En það skal undirstrikað að meiri hluti sláturleyfishafa greiðir þessi lán inn á viðskiptareikning bænda, enda fara margs konar viðskipti fram milli þessara aðila, svo sem kaup á áburði, fóðurbæti og öðrum rekstrarvörum til búanna.

Í marsmánuði s. l. var samþykkt í ríkisstj. að hætta skyldi endurkaupum Seðlabankans vegna innlendra afurðalána. Segja má að þá fyrst hafi skapast þau raunverulegu skilyrði sem þurftu að vera fyrir hendi til þess að fylgja þál. endanlega fram. Í samræmi við þetta skipaði ég nefnd til að gera tillögur um framkvæmd samþykktar stjórnarflokkanna frá 6. september s. 1., þannig að bændur geti svo fljótt sem við verður komið fengið fullnaðargreiðslur fyrir afurðir sínar, en það er mergurinn málsins í þeirri þál. sem hér er verið að svara.

Í erindisbréfi nefndarinnar segir að markmiði þessu skuli náð með endurskoðun á reglum um veitingu afurðalána, tímasetningu á niðurgreiðslum úr ríkissjóði og reglum um lágmarks fjármögnun birgða af eigin fé vinnslustöðva. Jafnframt er á það bent í bréfinu að endurskoðun á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins sé að ljúka og rétt að nefndin hafi hliðsjón af þeim markmiðum sem þar koma fram um nánara fyrirkomulag þessara mála. Nefndin mun ljúka störfum svo tímanlega að tillögum hennar verði hrint að fullu í framkvæmd fyrir lok þessa árs. Í nefndinni eiga sæti menn með víðtæka þekkingu á þessum málum, Davíð Ólafsson seðlabankastjóri, sem er formaður, Helgi Bachmann, forstöðumaður lánasviðs Landsbankans, Ketill Hannesson búnaðarráðunautur, Ingi Tryggvason, formaður Stéttarsambands bænda, og Stefán Pálsson bankastjóri.

Þegar þetta hefur verið gert virðist mér að tilgangi þál. hafi verið náð að mestu. Þó er ákveðið, til að ítreka enn frekar vilja viðskrn. til þess að þál. komist að fullu í framkvæmd, að senda viðskiptabönkum bréf og óska eftir því að þeir taki að fullu tillit til efnis ályktunarinnar við veitingu þessara lána.

Þetta eru svör mín við 1. tölul. þessarar fsp. Vænti ég þess að hv. fyrirspyrjanda finnist að með þessum svörum mínum geti 2. tölul. verið svarað í leiðinni.

Til þess að svara 3. tölul. fsp. var óskað upplýsinga frá Landsbankanum og Búnaðarbankanum. Í svari Landsbankans segir að lán þau sem Landsbankinn veitti vegna landbúnaðarframleiðslu séu einungis veitt sem rekstrar- og afurðalán til afurðasölufyrirtækja. Veð bankans séu fyrst og fremst í afurðunum sjálfum og sé veðrétturinn byggður á 3. mgr. 4. gr. laga nr. 18 1887, um veð, sbr. 1. gr. laga nr. 87 1960 um breyting á veðlögum. Lán til bænda með veði í afurðum eða með veði í búfénaði skv. 9. gr. veðlaga, sbr. lög nr. 28 1953, hafa hins vegar ekki verið veitt né eftir þeim leitað.

Varðandi síðari hluta 3. tölul. er bent á að í 5. gr. laga um Landsbankann og 28. gr. reglugerðar hans sé bankastjórninni gert að tryggja útlán bankans sem best að hennar eigin mati en undir yfirumsjón bankaráðs. Kröfur um tryggingar byggjast að sjálfsögðu á mati á fjárhæð lántakenda og tímalengd lánsins.

Í svari Búnaðarbankans segir m. a. eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Til tryggingar lánum auk vaxta og kostnaðar undirritar lántaki (veðsali) sérstakan samning um framleiðslulán og veðsetur Búnaðarbanka með 1. veðrétti af sjálfsvörsluveði afurða- og rekstrarvörur, vörur í vinnslu og fullunnar vörur sem hann á eða eignast kann á framleiðslutímabilinu. Veðtakan fer fram í þinglýstum samningi um framleiðslulán og/eða tryggingarvíxlum, góðu handveði, fasteignaveði eða vissri ábyrgð.

Um seinni hluta fsp. skal skýrt fram tekið að bankinn metur það hverju sinni gagnvart hverju einstöku fyrirtæki, óháð því hvaða eignarform er um að ræða, hvort aukinna trygginga er óskað umfram framleiðslulánasamninginn sem áður er getið. Það fer sem sé eftir stöðu fyrirtækisins sem í hlut á, hvort heldur það er einkafyrirtæki eða samvinnufélag, hvort viðbótartrygginga er óskað, svo sem fasteignaveða.“

Af því sem ég hef hér sagt vonast ég til að hv. fyrirspyrjandi sé mér sammála um að töluvert hafi þokað í rétta átt. Hins vegar liggur það ljóst fyrir að í gær og í dag og á morgun eru þeir hlutir að gerast að afurðalánin eru að færast frá Seðlabankanum yfir til viðskiptabankanna. Við eigum eftir að sjá afgreiðslu á nýjum lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins og í framhaldi af því og með skírskotun til nefndarskipunarinnar þá verður gengið eftir því að það sem í ályktuninni felst verði framkvæmt hjá bönkunum.