16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4222 í B-deild Alþingistíðinda. (3575)

399. mál, staða skrifstofustjóra í félagsmálaráðuneytinu

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Í annað sinn á stuttum tíma hafa ákvarðanir tveggja jafnréttismálaráðherra um stöðuveitingu gefið tilefni til fsp. og umræðna hér á hv. Alþingi. Í febrúar 1981 var umræða hér á dagskrá vegna stöðuveitingar þáverandi jafnréttismálaráðherra Svavars Gestssonar, þar sem talið var, líkt og sumir ætla nú, að um brot á jafnréttislögum væri að ræða. Ég tel nokkuð ljóst, miðað við rök þau sem hv. fyrirspyrjandi hefur flutt í þessu máli, að hæstv. félmrh. hafi sniðgengið 3. gr. jafnréttislaganna, sem kveður á um að atvinnurekendum sé óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði, m. a. hvað varðar ráðningu og skipun í starf og stöðuhækkun. Þetta skeður á sama tíma og Alþingi hefur til umfjöllunar frv. hæstv. félmrh. um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sem m. a. kveður á um að konum og körlum skuli með stjórnvaldsaðgerðum tryggðir jafnir möguleikar til atvinnu. Um þetta ákvæði sagði hæstv. jafnréttismálaráðherra á Alþingi 22. október s. l.:

„Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að bæta stöðu kvenna, en ég tel að það verði ekki gert á þann hátt sem talsmenn jákvæðrar mismununar vilja. Í þessu sambandi bind ég meiri vonir við aðra grein þar sem kveðið er á um að konum og körlum skuli með stjórnvaldsaðgerðum tryggðir jafnir möguleikar til atvinnu og menntunar. Ég vil vekja sérstaka athygli á orðinu „stjórnvaldsaðgerðir“ sem ekki er í núgildandi lögum. Þetta orðalag felur í sér ákveðnar kvaðir á Alþingi, ríkisstjórn og sveitarstjórnir í þessum efnum.“

Jafnréttismálaráðherrann er sem sagt á móti því sem kallað hefur verið jákvæð mismunun og bindur vonir við að stjórnvaldsaðgerðir tryggi jafna möguleika kynjanna til atvinnu og að ákvæðið feli í sér kvaðir á ríkisstjórn í þessu efni. En þessar vonir ráðh. hafa nú brugðist og um það hefur ráðh. við engan að sakast nema sjálfan sig, jafnréttismálaráðherrann Alexander Stefánsson. Með þessari ákvörðun ráðh. að sniðganga konu með langa starfsreynslu og menntun til starfans, sem öll rök og jafnréttissjónarmið hníga að að velja hefði átt í starfið, með því hefur ráðh. sjálfur staðfest með stjórnvaldsaðgerðum og embættisveitingu að ákvæði í frv. hans um að með stjórnvaldsaðgerðum skuli konum og körlum tryggðir jafnir möguleikar til atvinnu er gersamlega gagnslaust. Ráðherra þarf sem sagt ekki — (Forseti hringir.) Ég er að ljúka máli mínu, herra forseti. — Ráðherrann þarf sem sagt ekki að leita lengra en í eigin embættisgerðir og stjórnvaldsaðgerðir til að fá það staðfest að ákvæðið í frv. hans er ekki pappírsins virði. Hvernig getur hæstv. ráðh., sjálfur jafnréttismálaráðherrann, ætlast til að aðrir fari að lögum í þessu efni þegar hann sjálfur gengur fram fyrir skjöldu og sniðgengur ákvæði sem hann leggur til við Alþingi að samþykkja og krefur því aðra um að fara eftir?